Landsbankinn öflugur samstarfsaðili sýningarinnar Verk og vit 2018
Stórsýningin Verk og vit verður haldin í fjórða sinn dagana 8.-11. mars 2018 í íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal. Landsbankinn hefur verið einn af samstarfsaðilum sýningarinnar frá upphafi. Sýningin er tileinkuð byggingariðnaði, skipulagsmálum, mannvirkjagerð og tengdum greinum.
Landsbankinn og íslenskur iðnaður hafa átt samleið um margra áratuga skeið og íslensk iðn- og byggingarfyrirtæki hafa ætíð verið bankanum mikilvægir viðskiptavinir. Bankinn leggur ríka áherslu á að þjónusta vel þennan hóp viðskiptavina og hefur m.a. verið leiðandi í þjónustu og lánveitingum til nýbygginga ferðaþjónustufyrirtækja. Landsbankinn hefur enn fremur fjármagnað rekstur og uppbyggingu margra helstu fyrirtækja landsins á þessu sviði, sem og öðrum.
Fv. Ingibjörg Gréta Gísladóttir frá Verk og vit, Árni Þór Þorbjörnsson framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs hjá Landsbankanum og Elsa Giljan Kristjánsdóttir frá Verk og vit.
Landsbankinn leiðandi á sviði mannvirkjafjármögnunar
„Við fundum fljótt að þetta er mjög góður vettvangur til að vera sýnileg og aðgengileg fyrir þá fjölmörgu sem hafa áhuga á mannvirkjagerð, bæði fagaðila og almenning,“ segir Árni Þór Þorbjörnsson, framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs hjá Landsbankanum. „Á sýningunni leggja sérfræðingar bankans sig fram um að sýna hvað bankinn hefur fram að færa á þessu sviði, en eru ekki síður áhugasamir um að sjá og heyra hvað aðrir hafa fram að færa. Landsbankinn hefur um langt árabil verið leiðandi á sviði mannvirkjafjármögnunar og starfsfólk bankans mun kynna fjölbreytt þjónustuframboð á þessu sviði, s.s. framkvæmdafjármögnun vegna byggingarverkefna og fjármögnun bíla- og tækjaþjónustu bankans fyrir verktaka og einstaklinga. Þá verður í boði fjölbreytt ráðgjöf um úrval fjármögnunarmöguleika vegna kaupa á húsnæði til atvinnunota og búsetu,“ segir Árni.
Mikill áhugi á sýningunni
Um 23.000 gestir sóttu sýninguna í Laugardalshöll árið 2016 þar sem um 100 fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög kynntu vörur sínar og þjónustu. Þar má nefna byggingarverktaka, verkfræðistofur, tækjaleigur, skóla, fjármálafyrirtæki og ráðgjafarfyrirtæki. Fyrstu tvo dagana, 8. og 9. mars, verður sýningin einungis opin fagaðilum en helgina 10.–11. mars verður almenningur boðinn velkominn.
Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar, segir að mikill áhugi sé á sýningunni. „Verk og vit heppnaðist mjög vel síðast og mikil ánægja var meðal sýnenda. Skráning er hafin og gengur mjög vel. Líkt og Samtök iðnaðarins hafa bent á þá er afar mikilvægt, þegar litið er til næstu missera, að ráðast í innviðaframkvæmdir á ýmsum sviðum til þess að undirbyggja hagvöxt til lengri tíma. Í því verkefni er byggingariðnaðurinn í lykilhlutverki,“ segir Ingibjörg.
Samhliða sýningunni verða haldnir fjölbreyttir viðburðir og verða þeir kynntir þegar nær dregur. Skráning er hafin á vef sýningarinnar, www.verkogvit.is.