Níu fengu styrki úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands
Níu doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands við úthlutun styrkja úr doktorssjóðum Háskóla Íslands í vor.
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 með því að stofnaðilar lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Sjóðurinn var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum í núverandi mynd fór fram árið 2006 og síðan hafa yfir 130 doktorsnemar fengið styrk úr sjóðnum. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans.
Meðal þeirra verkefna sem hlutu styrki að þessu sinni var rannsókn á áhrifum næringardrykkja í samanburði við áhrif orku- og próteinríkrar millimáltíðar á lífsgæði, líkamsþyngd og hreyfifærni hjá sjúklingum með langvinna lungnaþembu, kortlagning jarðskjálftahreyfinga í þéttbýli á Íslandi, rannsókn á bragðefnum úr þangi og rannsókn á áhrifum eldvirkni og loftslagsbreytinga á heilsufar Íslendinga.
Að þessu sinni bárust alls 146 umsóknir um styrki til doktorsnáms úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og hlutu 29 umsækjendur styrki úr þessum sjóðum, þar af níu úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins.
Stjórn Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands skipa Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans, Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélags Íslands og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.