Samfélagsskýrsla Landsbankans 2016 komin út
Landsbankinn gefur árlega út samfélagsskýrslu þar sem viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) er fylgt. Í skýrslunni er með aðgengilegum hætti fjallað um samfélagsstefnu bankans, samfélagsvísa í rekstri bankans og reynt er að veita innsýn í það sem vel er gert, það sem betur má fara og álitamál sem komið hafa upp við innleiðingu samfélagsábyrgðar.
Landsbankinn tekur samfélagsábyrgð alvarlega og vill starfa í sátt við samfélagið. Á árinu 2016 var m.a. markvisst unnið að innleiðingu stefnu um ábyrgar fjárfestingar, aukinn kraftur var settur í útgáfumál, bankinn hlaut gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í annað sinn og efnt var til fjölbreyttra samstarfsverkefna til þess að stuðla að framþróun og uppbyggingu í samfélaginu.
Samfélagsstefna bankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni og tryggja að tekið sé tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og viðmiða um góða stjórnarhætti í allri starfsemi bankans.