Greining og viðtöl í tengslum við ráðstefnu SVÞ um verslun og þjónustu
Í tengslum við ráðstefnu Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ) fimmtudaginn 23. mars nk. mun Landsbankinn birta ítarlega greiningu Hagfræðideildar á stöðu verslunar á Íslandi. Jafnframt verða á fimmtudag birt viðtöl við kaupmenn og fleira forystufólk á þessu sviði á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu Landsbankans.
Ráðstefna SVÞ – Bylting og breytingar í þjónustu og verslun – og er haldin í tengslum við aðalfund samtakanna. Fundurinn verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica fimmtudaginn 23. mars.
Forvitnileg erindi
Á ráðstefnunni verður fjallað um stöðu og þróun verslunar og þjónustu, m.a. í ljósi sífellt aukinnar netverslunar, breytinga á tollum og komu H&M og Costco til landins.
Aðalræðumaður fundarins er Anna Felländer, ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar á sviði stafrænnar tækni. Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans mun kynna nýja greiningu Hagfræðideildar. Þá munu Margrét Sanders, formaður Samtaka verslunar og þjónustu og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ávarpa fundinn.
Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu á ráðstefnuna eru á vef Samtaka verslunar og þjónustu.