Landsbankinn áfram bakhjarl Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur
Samningurinn var undirritaður í hátíðasal Háskóla Íslands miðvikudaginn 27. janúar síðastliðinn, en framlag bankans nemur sex milljónum króna á tímabilinu. Landsbankinn hefur styrkt stofnun Vigdísar með veglegum hætti á síðustu árum.
Auk Steinþórs Pálssonar bankastjóra undirrituðu forsvarsmenn tíu annarra fyrirtækja úr íslensku atvinnulífi styrktarsamninga við stofnunina. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands undirritaði samningana fyrir hönd skólans í Hátíðarsal HÍ að viðstaddri Vigdísi Finnbogadóttur, Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra og fjölda annarra gesta.
„Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur sinnir mikilvægu hlutverki í starfi tungumála og menningar. Við í Landsbankanum höfum fylgst með þessari uppbyggingu með miklum áhuga og höfum lagt starfinu lið með stolti um árabil,“ segir Steinþór Pálsson bankastjóri Landsbankans.
Hæsta framlagið frá Landsbankanum
Fyrirtækin sem standa að samningunum eru Landsbankinn, Icelandair Group, Radisson Blu Hótel Saga, Arion banki, Alvogen, Bláa Lónið, Kvika, Reginn, Íslandsbanki, Íslandshótel og N1. Styrkirnir eru allir nema einn til þriggja ára og nema árleg framlög frá 500 þúsundum til tveggja milljóna króna. Alls nema styrkirnir 33,5 milljónum króna á samningstímanum. Framlög fyrirtækjanna skipast þannig:
- Landsbankinn – 6 milljónir kr.
- Icelandair Group – 4,5 milljónir kr.
- Radisson Blu Hótel Saga – 3,5 milljónir kr.
- Alvogen, Arion banki, Bláa Lónið, Kvika og Reginn – 3 milljónir kr. hvert
- Íslandsbanki, Íslandshótel og N1 – 1,5 milljón kr. hvert
Styrkjunum verður varið til daglegrar starfsemi vegna undirbúnings Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, sem mun starfa undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Með starfsemi alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar er ætlunin að heiðra störf Vigdísar í þágu tungumála og halda áfram því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið á alþjóðavettvangi sem fyrsti og eini velgjörðarsendiherrra tungumála í heiminum hjá UNESCO.
Við sama tækifæri opnuðu Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Aþena Vigdís Eggertsdóttir, dótturdóttir Vigdísar, nýja heimasíðu Vigdísar á nokkrum tungumálum – www.vigdis.is. Vinnu við síðuna var hrundið af stað í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á síðasta ári fyrir styrk frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu.
Á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu rís nú bygging Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur en hún mun hýsa alþjóðlegu tungumálamiðstöðina auk kennslu og rannsókna í erlendum tungumálum. Áætlað er að hún verði tekin í notkun um næstu áramót. Þar verður einnig Vigdísarstofa og aðstaða fyrir ráðstefnur og sýningar um framandi tungumál og menningu sem opnar verða gestum og gangandi. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla upplýsingum um tengsl Íslands við umheiminn í sögu og samtíð til erlendra ferðamanna. Í þessu nýja þekkingarsetri felast gríðarleg tækifæri til nýsköpunar, ekki síst í tengslum við vísindastarfsemi og menningartengda ferðaþjónustu.
Með veglegum framlögum sínum taka fyrirtækin höndum saman við Háskóla Íslands um að hrinda þessu metnaðarfulla verkefni í framkvæmd.