Umfangsmesta endurbygging í sögu Reykjavíkur
Samningarnir ná til hluta Vogabyggðar, svæðis 2, en stærstu lóðarhafar þar eru Vogabyggð, dótturfyrirtæki Hamla sem er í eigu Landsbankans, og Gámakó. Samtals ráða þessi fyrirtæki yfir 70% lóða á svæði 2.
Samningarnir marka tímamót að því leyti að lóðarhafar taka þátt í kostnaði við breytingar á innviðum hverfisins og er það í samræmi við samningsmarkmið Reykjavíkurborgar um uppbyggingu í eldri hverfum.
Mikilvægur áfangi
Steinþór Pálsson, bankastjóri, segir að þetta sé gríðarlega mikilvægur áfangi. „Það er ánægjulegt fyrir Landsbankann að taka þátt í einum umfangsmestu endurbyggingaráformum í Reykjavík í langan tíma. Við höfum unnið með borginni í þessu verkefni frá ársbyrjun 2013 og það er ánægjulegt að taka þátt í að skapa nýja framtíð hér á svæðinu,“ segir Steinþór.
Dagur B. Eggertsson segir samningana afar mikilvægt skref í átt að uppbyggingu hverfisins. „Það er mjög metnaðarfullt skipulag sem liggur fyrir og Vogabyggðin sjálf er náttúrulega á besta stað í borginni. Fjórðungur íbúðanna sem þarna rísa verða undir leigu- og búseturéttaríbúðir og höfum við samið við lóðarhafa um þátttöku í uppbyggingu innviða. Verkefnið í heild er svo eitt af lykilsvæðum í aðalskipulagi Reykjavíkur þannig að ég er mjög spenntur fyrir þessu,“ segir Dagur.
Hannes Frímann Sigurðsson hefur stýrt verkefninu fyrir hönd Landsbankans. Hann segir undirritun samninganna stóran áfanga því nú geti svæðið farið í deiliskipulagsauglýsingu og vonast er til að söluferli lóða geti hafist um mitt ár og uppbygging gangi hratt fyrir sig.









