L.is - farsímavefur Landsbankans tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna
Áhersla á lausnir fyrir farsíma
Landsbankinn hefur undanfarin ár verið leiðandi í þróun veflausna fyrir farsíma og spjaldtölvur. Fyrri útgáfa L.is hlaut Íslensku vefverðlaunin sem besti smá- og handtækjavefurinn árið 2010 en glæný útgáfa hans með uppfærðu notandaviðmóti og fjölda nýjunga var kynnt nú í október.
L.is er sérhannaður vefur fyrir smá- og handtæki sem er aðgengilegur á flestum farsímum og spjaldtölvum. Í farsímaútgáfu netbankans geta viðskiptavinir á einfaldan og öruggan hátt sinnt algengustu bankaviðskiptum, m.a.:
- skoðað yfirlit yfir stöðu reikninga og kreditkorta
- millifært
- greitt reikninga
- fengið yfirlit yfir stöðu lána
- greitt umfram inn á lán
- sótt PIN-númer fyrir Visa kreditkort
- greitt inn á kreditkort
- keypt inneign fyrir farsíma
- fengið yfirlit Aukakróna og millifært þær
Á L.is er einnig hægt að fletta upp útibúum og hraðbönkum Landsbankans, sjá staðsetningu þeirra á korti og fá leiðbeiningar til að komast á staðinn. Fá má upplýsingar um Aukakrónustöðu og samstarfsaðila Aukakróna, skoða gengi krónunnar og fá aðrar upplýsingar af fjármálamörkuðum, lesa fréttir og margt fleira.
Netbankinn er afar auðveldur í notkun. Við innskráningu þarf aðeins að slá inn notandanafn og lykilorð en nýtt og öflugra öryggiskerfi Landsbankans hefur gert auðkennislykla óþarfa. Viðmót bankans hefur algerlega verið endurhannað með upplifun notandans að leiðarljósi.
„Við höfum lagt áherslu á að tryggja aðgengi sem flestra að þjónustu bankans, ekki bara þeirra sem eiga flottustu og dýrustu símana“ segir Snæbjörn Konráðsson, forstöðumaður vefdeildar Landsbankans. „Við erum oft spurð hvers vegna höfum ekki gefið út app, en sannleikurinn er sá að app er ekki endilega besta lausnin fyrir bankaþjónustu á vefnum. L.is er veflausn aðgengileg langflestum farsímum, sama hvaða stýrikerfi þeir nota.“
Notkun L.is hefur aukist mikið
Í nóvember voru rúmlega 147 þúsund síðuflettingar í farsímaútgáfu netbankans. Í desember voru þær komnar upp í tæplega 238 þúsund og í janúar 303 þúsund.
„Viðskiptavinir hafa tekið vefnum afar vel,“ segir Snæbjörn. „Frá því að ný útgáfa vefsins var tekin í notkun í október hefur nýtingin aukist gríðarlega enda er nú mun auðveldara að sinna bankaviðskiptum í farsímanum en áður.“