Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir fyrri helm­ing árs­ins 2023

Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins var 14,5 milljarðar króna, þar af 6,7 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár á fyrri helmingi ársins var 10,3%.
Austurbakki
20. júlí 2023 - Landsbankinn
 • Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins var 14,5 milljarðar króna, þar af 6,7 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi.
 • Arðsemi eiginfjár á fyrri helmingi ársins var 10,3%.
 • Hreinar þjónustutekjur jukust um 6,1% á milli ára sem endurspeglar breidd í þjónustu og sterka markaðshlutdeild bankans.
 • Hreinar vaxtatekjur jukust um 28,6%, aðallega vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs.
 • Vaxtamunur er 2,9% og hækkar um 0,4 prósentustig samanborið við sama tímabil árið 2022. Betri ávöxtun á lausafé bankans hefur jákvæð áhrif á vaxtamun.
 • Hlutfall kostnaðar af tekjum (K/T) var 36,1%.
 • Útlán til fyrirtækja jukust um 47,5 milljarða króna á fyrri helmingi ársins, ef ekki er tekið tillit til gengisáhrifa, aðallega til fyrirtækja í byggingarstarfsemi og fasteignafélaga.
 • Innlán hafa aukist um 5% frá áramótum.
 • Vanskilahlutfall stendur í stað og framlag vegna virðisrýrnunar er í takt við áætlanir bankans.

Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna nam 2,9% á fyrri helmingi ársins 2023 samanborið við 2,5% hlutfall á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans var 14,2 milljarðar króna á tímabilinu en var 12,9 milljarðar króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 8,3 milljarðar króna samanborið við 7,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 5,8 milljarðar króna samanborið við 5,5 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á fyrri helmingi ársins 2023 var 36,1%, samanborið við 52% á sama tímabili árið 2022.

Heildareignir bankans hækka um 109,3 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.896 milljörðum króna í lok fyrri helmings ársins 2023. Útlán jukust um 51,0 milljarð króna á fyrri helmingi ársins 2023. Í lok fyrri helmings ársins 2023 námu innlán frá viðskiptavinum 1.012 milljörðum króna, samanborið við 967,9 milljarða króna í árslok 2022, og höfðu því aukist um 44,6 milljarða króna.

Eigið fé Landsbankans var 285,1 milljarðar króna þann 30. júní sl. og eiginfjárhlutfall alls var 25,3%.

Aðalfundur bankans, sem haldinn var 23. mars 2023, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2022 að fjárhæð 8,5 milljarðar króna og að greiðslan yrði tvískipt. Fyrri hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 4.251 milljón króna var greiddur þann 29. mars 2023. Síðari hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 4.251 milljón króna verður greiddur þann 20. september 2023. Arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2023 munu því samtals nema 175,1 milljarði króna.

Framkvæmdum við nýtt húsnæði bankans við Reykjastræti 6 er nú að mestu lokið og gert er ráð fyrir að lóðarfrágangi ljúki snemma í haust. Húsið er 16.500 fermetrar að stærð en byggingin í heild er um 21.500 fermetrar að bílakjallara og tæknirýmum meðtöldum. Samkvæmt áætlun sem gerð var í lok árs 2019 var gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna yrði 11,8 milljarðar króna, án verðbóta. Aukinn kostnaður við verkið nemur 3,4 milljörðum króna. Ástæðan fyrir auknum kostnaði er aðallega lengri verktími en gert var ráð fyrir, magnaukning á byggingarefnum og frávik sem komu upp á byggingartíma. Auk þess hefur byggingarvísitalan hækkað um 25% á verktímanum og er kostnaður vegna vísitölubreytinga áætlaður 1,4 milljarðar króna. Heildarkostnaður bankans við byggingu hússins verður um 16,5 milljarðar króna. Á móti kemur söluverð á þeim hlutum byggingarinnar sem bankinn mun ekki nýta og áætlað söluverð gamla Landsbankahússins í Austurstræti og tengdra bygginga, samtals um 7,8 milljarðar króna. Til viðbótar nemur árlegur sparnaður af flutningum í Reykjastræti um 600 milljónum króna og þar af er sparnaður vegna húsaleigu um 480 milljónir króna árlega.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Rekstur Landsbankans á fyrri helmingi ársins gekk vel og við náðum öllum okkar fjárhagsmælikvörðum. Hagnaður bankans var 14,5 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár var 10,3%, sem er í samræmi við langtímamarkmið bankans.

Undanfarið höfum við lagt mikla áherslu á að leiðbeina viðskiptavinum sem eru að glíma við hærri vaxtakostnað og þeim sem eru að leita að betri ávöxtun í verðbólguumhverfi. Við kynntum til leiks nýja verðtryggða Landsbók með styttri binditíma sem hentar vel bæði fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja tryggja að sparnaður haldi sem best verðgildi sínu. Við setjumst niður með viðskiptavinum sem glíma við aukinn vaxtakostnað og finnum lausnir saman, hvort sem þær felast í lengingu lánstíma, endurfjármögnun eða öðrum úrræðum.

Flutningar í nýtt hús bankans við Reykjastræti hafa gengið vel og við höfum náð öllum okkar mikilvægustu markmiðum um hagræðingu og nútímalega vinnuaðstöðu sem stuðlar að betri samvinnu. Við erum að flytja úr húsnæði sem er ríflega helmingi stærra og hagræðingin í rekstri er um 600 milljónir króna á ári. Líkt og aðrir sem hafa staðið í byggingarframkvæmdum undanfarið höfum við þurft að takast á við ýmsar áskoranir og teljum að í núverandi umhverfi getum við nokkuð vel við unað þó það sé aldrei ákjósanlegt þegar kostnaður er umfram áætlanir. Líkt og þegar Austurstræti 11 var endurreist fyrir 100 árum, þá byggjum við til framtíðar og það er alveg ljóst að flutningarnir munu skila betri rekstri og öflugri banka. Breytingin er stórkostleg fyrir starfsfólk og það er mín trú að krafturinn og bætt vinnuaðstaða skili sér í enn betri þjónustu við viðskiptavini.

Það er áhugavert að draga saman árangurinn í rekstri bankans undanfarin sex ár sem er tíminn frá því að endanleg ákvörðun var tekin um að byggja húsið í Reykjastræti. Við höfum fækkað fermetrum í rekstri bankans um 36%, stöðugildum hefur fækkað um 20%, stafræn stórsókn hefur bætt þjónustuna enn frekar og við erum stolt af því að hafa mörg útibú og afgreiðslur um land allt. Við erum áfram í mikilli sókn, náum til fleiri viðskiptavina og höfum bætt við öflugum þjónustuþáttum líkt og færsluhirðingu. Landsbankaappið er framúrskarandi, áreiðanlegt og öruggt bankaapp sem viðskiptavinir geta treyst. Bankinn hefur sýnt og sannað að hann er í stöðugri framþróun og viðskiptavinir kunna vel að meta einfaldari og aðgengilegar lausnir.“

Helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi (2F) 2023

Rekstur:

 • Hagnaður Landsbankans á 2F 2023 nam 6,7 milljörðum króna samanborið við hagnað upp á 2,3 milljarða króna á sama ársfjórðungi árið 2022.
 • Arðsemi eiginfjár var 9,5% á 2F 2023, samanborið við 3,5% á sama ársfjórðungi árið á undan.
 • Hreinar vaxtatekjur á ársfjórðungnum voru 14,5 milljarðar króna en þær námu 11,2 milljörðum króna á 2F 2022.
 • Virðisbreyting útlána og krafna var jákvæð um 520 milljónir króna á 2F 2023 samanborið við neikvæða virðisbreytingu upp á 735 milljónir króna á 2F 2022.
 • Hreinar þjónustutekjur námu 2,7 milljörðum króna en voru 2,8 milljarðar króna á 2F 2022. 
 • Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna var 3,0% á 2F 2023 en var 2,6% á sama tímabili árið áður.
 • Laun og launatengd gjöld námu 4,2 milljörðum króna samanborið við 3,6 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2022.
 • Rekstrarkostnaður að frátöldum launum og launatengdum gjöldum nam 2,4 milljörðum króna á 2F 2023 samanborið við 2,1 milljarð króna á sama ársfjórðungi 2022.
 • Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T) á 2F 2023 var 39,5% samanborið við 49,3% á sama ársfjórðungi árið á undan.
 • Stöðugildi hjá Landsbankanum þann 30. júní 2023 voru 801 en voru 786 á sama tíma fyrir ári. 

Efnahagur:

 • Eigið fé Landsbankans nam 285 milljörðum króna í lok júní 2023.
 • Eiginfjárhlutfall bankans (e. total capital ratio) þann 30. júní 2023 var 25,3% en var 24,7% í lok árs 2022. Það er verulega umfram 20,2% eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
 • Heildareignir bankans námu 1.896 milljörðum króna í lok júní 2023.
 • Útlán jukust um 51 milljarð króna á fyrri helmingi ársins 2023. Útlán til einstaklinga jukust um 10,5 milljarða króna en útlán til fyrirtækja jukust um 40,5 milljarða króna.
 • Innlán viðskiptavina námu 1.012 milljörðum króna í lok júní 2023, samanborið við 968 milljarða króna í lok árs 2022.
 • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu sinni í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 165% í lok júní 2023 samanborið við 134% í lok árs 2022.
 • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila voru 0,3% af útlánum.

Helstu niðurstöður

Fjárhæðir í milljónum króna

  1H 2023 1H 2022 2F 2023 2F 2022
Hagnaður eftir skatta 14.473 5.557 6.717 2.341
Arðsemi eigin fjár eftir skatta 10,3% 4,1% 9,5% 3,5%
Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna 2,9% 2,5% 3,0% 2,6%
Kostnaður sem hlutfall af tekjum (K/T)* 36,1% 52,0% 39,5% 49,3%
  30.6.2023 30.6.2022 31.12.2022 31.12.2021
Heildareignir 1.896.369 1.728.143 1.787.024 1.729.798
Útlán til viðskiptavina 1.595.392 1.445.339 1.544.360 1.387.463
Innlán frá viðskiptavinum  1.012.482 935.123 967.863 900.098
Eigið fé  285.060 267.650 279.091 282.645
Eiginfjárhlutfall alls 25,3% 24,9% 24,7% 26,6%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 136% 136% 132% 142%
Heildarlausafjárþekja 165% 144% 134% 179%
Lausafjárþekja EUR (LCR FX til og með 2022) 623% 184% 351% 556%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,3% 0,2% 0,2% 0,3%
Stöðugildi 801 786 813 816

*K/T - Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur - virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri bankans á fyrri helmingi ársins 2023

 • Um áramótin samdi bankinn við Norræna fjárfestingarbankann (NIB) um lán til 15 ára að fjárhæð 40 milljónir Bandaríkjadala í tengslum við nýbyggingu bankans við Reykjastræti í Reykjavík. Lánveitingin fellur undir fjármögnunarramma tengdum umhverfisskuldabréfum NIB.
 • Í janúar var tilkynnt að Landsbankinn mældist efstur í Íslensku ánægjuvoginni 2023 hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu.
 • Við héldum áfram að bjóða upp á fræðslufundi um netöryggi, m.a. í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri og Blindrafélagið, og voru fundirnir mjög vel sóttir.
 • Í febrúar hleyptum við af stokkunum eigin færsluhirðingu sem hefur hlotið frábærar móttökur.
 • Í mars seldum við evrópsk sértryggð skuldabréf í úrvalsflokki (e. premium) að fjárhæð 300 milljónir evra og var um að ræða fyrstu útgáfu af þessum toga hjá íslenskum banka.
 • Við héldum áfram að auka öryggi í bankaviðskiptum, m.a. með því að biðja um auðkenningu með rafrænum skilríkjum við staðfestingu á greiðslum með greiðslukortum í netverslun.
 • Í mars lauk bankinn við útgáfu á tveimur flokkum víkjandi skuldabréfa sem teljast til eiginfjárþáttar 2 og nam fjárhæðin 12 milljörðum króna.
 • Aðalfundur Landsbankans sem var haldinn 23. mars samþykkti að greiða um 8,5 milljarða króna í arð til hluthafa. Heildararðgreiðslur bankans á árabilinu 2013-2023 nema þar með 175,1 milljarði króna.
 • Við héldum tvö vel heppnuð Fjármálamót, fræðslufundi um fjármál, annars vegar í Stúdentakjallaranum og hins vegar í nýju húsi bankans við Reykjastræti.
 • Í hagspánni sem Hagfræðideild Landsbankans gaf út í lok apríl 2023 var gert ráð fyrir meiri hagvexti en í fyrri spám. Ástæðan er einkum sú að horfur í ferðaþjónustu eru betri en áður.
 • Í maí kynntum við nýja þjónustu sem felst í því að viðskiptavinir geta notað Landsbankaappið til að velja hvort þeir veiti öðrum skoðunaraðgang að fjármálum sínum eða leyfi til að framkvæma helstu aðgerðir fyrir þeirra hönd.
 • Sustainalytics uppfærði UFS-áhættumat bankans. Einkunnin sem bankinn fékk var 8,5 á skala sem nær upp í 100 þar sem lág einkunn er best og þýðir að áhættan er hverfandi.
 • Fjöldi fólks lagði leið sína í nýtt hús bankans við Reykjastræti í byrjun maí til að sækja þrjá viðburði bankans í samstarfi við HönnunarMars.
 • Frá og með 1. júní höfum við boðið upp á styttri binditíma á verðtryggðum innstæðum, eða 11 mánuði í stað þriggja ára áður.
 • Fjárfestadagur Amaroq Minerals var haldinn í Reykjastræti þann 2. júní og tókst vel.
 • Sextán framúrskarandi námsmenn hlutu námsstyrki Landsbankans við úthlutun úr Samfélagssjóði bankans í júní.
 • Frá því í lok júní hafa viðskiptavinir okkar getað notað Landsbankaappið til að sjá stöðuna á reikningum sínum í öðrum bönkum.
 • Í lok júní sögðum við frá því að samið hefði verið um nýtt húsnæði fyrir Landsbankann á Akureyri að Hofsbót 2-4, aðeins steinsnar frá núverandi húsakynnum bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
18. júlí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrri helmingi ársins 2024 nam 16,1 milljarði króna eftir skatta, þar af 9,0 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi. Arðsemi eiginfjár var 10,5% samanborið við 10,3% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
7. júní 2024
S&P segir kaup Landsbankans á TM fjölga tekjustoðum og hafa hófleg áhrif á eiginfjárstöðu
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings (S&P) telur að kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. (TM) skapi tækifæri fyrir bankann til að festa sig í sessi á íslenskum tryggingamarkaði, breikka þjónustuframboð til viðskiptavina og auka fjölbreytni í tekjustoðum bankans til framtíðar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem S&P birti 5. júní 2024.
Austurbakki
30. maí 2024
Samningur um kaup Landsbankans á TM undirritaður
Samningur um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. af Kviku banka var undirritaður í dag.
Austurbakki
2. maí 2024
Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2024
Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 nam 7,2 milljörðum króna eftir skatta. Arðsemi eiginfjár á tímabilinu var 9,3% samanborið við 11,1% á sama tímabili árið áður.
Austurbakki
19. apríl 2024
Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2024
Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 19. apríl 2024, samþykkti að greiða 16.535 milljónir króna í arð til hluthafa.
Austurbakki
4. apríl 2024
S&P hækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB+
Alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði hækkað lánshæfismat Landsbankans. Hækkunin nemur einu þrepi og er lánshæfismatið því BBB+ með stöðugum horfum.
Austurbakki
27. mars 2024
Aðalfundur Landsbankans 2024 - fundarboð
Aðalfundur Landsbankans verður haldinn föstudaginn 19. apríl 2024 kl. 16.00 í Reykjastræti 6, Reykjavík.
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Austurbakki
19. mars 2024
Aðalfundi Landsbankans frestað til 19. apríl
Á fundi bankaráðs Landsbankans þann 19. mars 2024 var ákveðið að fresta aðalfundi bankans, sem vera átti miðvikudaginn 20. mars 2024. Að höfðu samráði við Bankasýslu ríkisins var ákveðið að halda aðalfundinn föstudaginn 19. apríl.
Austurbakki
17. mars 2024
Tilboð Landsbankans í TM samþykkt
Landsbankinn og Kvika banki hafa komist að samkomulagi um að hefja einkaviðræður um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. („TM“) á grundvelli kauptilboðs sem bankinn lagði fram í allt hlutafé félagsins þann 15. mars sl. Möguleg kaup eru m.a. háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur