Fjárfestatengsl

Upp­gjör Lands­bank­ans fyr­ir fyrri helm­ing árs­ins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 13,4 milljörðum króna á tímabilinu sem jafngildir um 1,1% af útlánasafni bankans, samanborið við virðisrýrnun upp á 2,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.
30. júlí 2020 - Landsbankinn
 • Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi 2020 nam 341 milljón króna.
 • Afkoma bankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020.
 • Landsbankinn færði 13,4 milljarða króna í virðisrýrnunarsjóð á fyrri helmingi ársins.
 • Rekstrarkostnaður lækkar milli ára.
 • Landsbankinn hefur aldrei lánað jafn mikið til heimila eins og á fyrri árshelmingi 2020 og hefur bætt verulega við markaðshlutdeild sína í íbúðalánum.
 • Innlán jukust um 51 milljarð króna frá áramótum, sem er 7,2% aukning.
 • Landsbankinn er með sterka eiginfjár- og lausafjárstöðu sem eru vel umfram kröfur eftirlitsaðila.

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 13,4 milljörðum króna á tímabilinu sem jafngildir um 1,1% af útlánasafni bankans, samanborið við virðisrýrnun upp á 2,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var -2,7% á ársgrundvelli, samanborið við arðsemi upp á 9,1% á sama tímabili 2019.

Árshlutareikningur samstæðu 1H 2020

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Á fyrri árshelmingi voru hreinar vaxtatekjur bankans 18,9 milljarðar króna samanborið við 20,5 milljarða króna á sama tímabili árið á undan, sem er 7% lækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur námu 3,6 milljörðum króna og lækkuðu um 13% frá sama tímabili árið áður.

Virðisrýrnun útlána var 13,4 milljarðar króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 2,4 milljarða króna á sama tímabili 2019. Mat á væntu útlánatapi í lok fyrri helmings ársins 2020 byggir á uppfærðri hagspá Hagfræðideildar Landsbankans. Áhrif uppfærðrar hagspár skýrir aukningu upp á 6,6 milljarða króna í væntu útlánatapi á fyrri helmingi ársins en Hagfræðideild bankans telur nú útlit fyrir 8,7% samdrátt í landsframleiðslu og 9,1% atvinnuleysi á árinu 2020. Vænt útlánatap lána á áhættustigi 1 og 2, þ.e. lána sem eru ekki í vanefnd, hefur hækkað verulega frá áramótum eða um 9,6 milljarða króna. Mat á væntu útlánatap byggist m.a. á ítarlegu mati á áhrifum COVID-19 á útlánasafn bankans, sem fór fram á öðrum ársfjórðungi, en viðskiptavinir sem eru með 16% af útlánum bankans hafa nýtt sér tímabundna frestun afborgana og vaxta.

Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,1% á fyrri helmingi ársins 2020 en var 2,4% á sama tímabili árið áður.

Rekstrarkostnaður bankans lækkaði um 1,1 milljarð króna á milli tímabila og nam 13,2 milljörðum króna á fyrri helmingi ársins 2020, samanborið við 14,3 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er lækkun um 8%. Þar af var launakostnaður 7,6 milljarðar króna samanborið við 7,4 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 4,6 milljarðar króna samanborið við 4,9 milljarða króna á sama tímabili árið áður.

Kostnaðarhlutfall á fyrri helmingi ársins 2020 var 54,1%, samanborið við 40,4% á sama tímabili árið 2019.

Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust um 5,1% frá áramótum, eða um rúma 58 milljarða króna, en þar af voru um 30 milljarðar króna vegna gengisbreytinga. Landsbankinn hefur aldrei lánað jafnmikið til heimila eins og á fyrri árshelmingi 2020. Alls tóku 3.963 einstaklingar og fjölskyldur íbúðalán hjá bankanum á fyrri árshelmingi að fjárhæð 36 milljarðar króna. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 51 milljarð króna frá áramótum, sem er 7,2% aukning.

Eigið fé Landsbankans var 244,4 milljarðar króna hinn 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,9%.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:

„Mat á væntu útlánatapi sem fært er sem framlag í virðisrýrnunarsjóð er ráðandi í uppgjöri bankans á fyrri helmingi ársins og er í samræmi við versnandi efnahagshorfur. Sterkur efnahagur bankans er gott veganesti inn í þá óvissu sem er fram undan, þótt vissulega sé arðsemin á þessu ári verulega undir markmiðum bankans til lengri tíma.

Þess utan er árangur bankans á fyrri árshelmingi góður sem endurspeglast meðal annars í hárri markaðshlutdeild, mikilli aukningu íbúðalána, aukinni ánægju viðskiptavina og alþjóðlegum viðurkenningum.

Landsbankinn hefur lagt áherslu á að bjóða samkeppnishæfa vexti og einfalt útlánaferli vegna íbúðalána. Þessi stefna hefur skilað sér í mikilli eftirspurn eftir nýjum íbúðalánum sem og endurfjármögnun eldri lána og hafa margir nýir viðskiptavinir bæst í hóp ánægðra viðskiptavina bankans. Markaðshlutdeild bankans í íbúðalánum hefur aukist umtalsvert og í júlí hefur velta íbúðalána slegið enn eitt metið og verið sú mesta frá upphafi. Kannanir sýna mikla ánægju með þjónustu bankans og ljóst er að vel útfærð stafræn framsetning á vörum og þjónustu hefur mælst vel fyrir meðal viðskiptavina.

Á öðrum ársfjórðungi, líkt og þeim fyrsta, lagði bankinn umtalsverðar fjárhæðir í virðisrýrnunarsjóð til að mæta mögulegum áföllum vegna heimsfaraldursins. Efnahagshorfur versnuðu töluvert frá lokum mars til júníloka sem hafði áhrif á mat stjórnenda og aðgerðir til að mæta væntum útlánatöpum. Spá bankans um hagvöxt lækkaði verulega eða úr 2% hagvexti í 8,7% samdrátt. Líkur eru á auknu atvinnuleysi og gerum við nú ráð fyrir 9,1% atvinnuleysi í stað 4%. Mat stjórnenda bankans leiddi til þess að bankinn færir nú 8,2 milljarða króna í virðisrýrnunarsjóð til viðbótar við 5,2 milljarða króna virðisrýrnun á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er fimm- til sexfalt meiri virðisrýrnun en búast má við í eðlilegu árferði og endurspeglar hversu mikil óvissa er um afleiðingar heimsfaraldursins.

Hagnaður var af rekstri bankans á öðrum ársfjórðungi, jákvæð arðsemi var af rekstrinum og kostnaðarhlutfall var aðeins 42,7%.

Rekstur Landsbankans er traustur og sem stærsti banki landsins skiptir verulegu máli að hann sé í stakk búinn að styðja við atvinnulífið, einstaklinga og fjölskyldur. Við kappkostum sem fyrr að veita framúrskarandi þjónustu, horfum raunsætt á breyttar efnahagsforsendur og búum okkur undir áframhaldandi óvissu.“

Helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi (2F) 2020

Rekstur:

 • Hagnaður Landsbankans á 2F 2020 nam 341 milljón króna, en 4,3 milljarða króna hagnaður varð á sama fjórðungi 2019.
 • Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 0,6%, en 7,1% fyrir sama tímabil árið 2019.
 • Hreinar vaxtatekjur námu 9,5 milljörðum króna, en voru 10,2 milljarðar króna á sama ársfjórðungi árið 2019.
 • Virðisbreytingar útlána voru neikvæðar um 8,2 milljarða króna á 2F 2020, á meðan neikvæðar virðis­breytingar voru upp á 1,4 milljarða króna á sama ársfjórðungi 2019. Virðisrýrnun útlána á öðrum ársfjórðungi jafngildir um 0,7% af lánasafni bankans.
 • Hreinar þjónustutekjur námu 1,7 milljörðum króna en þær voru 2,1 milljarður króna á 2F 2019.
 • Vaxtamunur eigna og skulda var 2,1%, en var 2,3% á 2F 2019.
 • Laun og launatengd gjöld námu 3,8 milljörðum króna en voru 3,7 milljarðar króna á 2F 2019.
 • Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5,7% frá sama tímabili árið áður.
 • Kostnaðarhlutfall á öðrum ársfjórðungi 2020 var 42,7%, en 42,3% á sama tíma árið áður.
 • Stöðugildi hjá Landsbankanum 30. júní 2020 voru 872 en voru 903 á sama tíma fyrir ári.

Efnahagur:

 • Eigið fé Landsbankans nam í lok júní 244,4 milljörðum króna og hefur lækkað um 1,3% frá áramótum.
 • Eiginfjárhlutfall alls (e. total capital ratio) 30. júní 2020 var 24,9% en var 23,7% í lok júní 2019. Það er vel umfram 18,8% lágmarkseiginfjárkröfu Fjármálaeftirlits Seðlabankans.
 • Heildareignir bankans námu 1.501 milljarði króna í lok júní 2020.
 • Innlán viðskiptavina námu 758,8 milljörðum króna í lok júní 2020, en voru 707,8 milljarðar króna í lok árs 2019.
 • Útlán jukust um 5,1% á fyrri helmingi ársins, eða um 58 milljarða króna. Útlán til fyrirtækja jukust um 22 milljarða króna og útlán til einstaklinga jukust um 36 milljarða króna.
 • Bankinn fylgist náið með og stýrir lausafjáráhættu bankans í heild, í erlendum myntum og í íslenskum krónum. Lausafjárhlutfall bankans (e. liquidity coverage ratio) var 191% í lok júní 2020.
 • Heildarvanskil fyrirtækja og heimila námu 0,8% í lok júní 2020, sama hlutfall og var í lok árs 2019.

Helstu niðurstöður (fjárhæðir í milljónum króna)

  1H 2020 1H 2019 2F 2020 2F 2019
(Tap) hagnaður eftir skatta (3.287) 11.113 341 4.329
Arðsemi eigin fjár eftir skatta -2,7% 9,1% 0,6% 7,1%
Vaxtamunur eigna og skulda * 2,1% 2,4% 2,1% 2,3%
Kostnaðarhlutfall ** 54,1% 40,4% 42,7% 42,3%

  30.06 2020 30.06 2019 31.12 2019 31.12 2018
Heildareignir 1.501.110 1.402.835 1.426.328 1.326.041
Útlán til viðskiptavina 1.198.210 1.130.915 1.140.184 1.064.532
Innlán frá viðskiptavinum 758.790 697.898 707.813 693.043
Eigið fé 244.447 240.612 247.734 239.610
Eiginfjárhlutfall alls 24,9% 23,7% 25,8% 24,9%
Fjármögnunarþekja erlendra mynta 121% 164% 143% 166%
Heildarlausafjárþekjuhlutfall 191% 174% 161% 158%
Lausafjárþekja erlendra mynta 476% 555% 769% 534%
Vanskilahlutfall (>90 daga) 0,8% 0,9% 0,8% 0,8%
Stöðugildi 872 903 893 919

* Vaxtamunur eigna og skulda = (Vaxtatekjur/meðalstaða heildareigna) – (vaxtagjöld/meðalstaða heildarskulda).

** Kostnaðarhlutfall = Rekstrargjöld alls/(Hreinar rekstrartekjur – virðisbreytingar útlána).

Aðrir þættir í rekstri bankans á fyrri helmingi ársins 2020

 • Í janúar var greint frá því að Landsbankinn hefði mælst efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu.
 • Í Gallup-könnun mældist markaðshlutdeild Landsbankans á einstaklingsmarkaði 37,5% á fyrri hluta ársins en bankinn hefur verið með mestu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði frá árinu 2014. Markaðshlutdeild bankans á fyrirtækjamarkaði mældist 36,2%, samkvæmt könnun Gallup. Hlutdeild Landsbankans í útlánum til fyrirtækja er rúmlega 40%.
 • Ýmsar nýjungar voru kynntar í Landsbankaappinu og netbönkum á fyrri hluta ársins. Umsóknarferli um úrræði vegna skuldavanda einstaklinga var gert rafrænt og fyrirtækjum gert kleift að undirrita um 65 skjalategundir með rafrænum hætti. Þá var fyrirtækjum í viðskiptum gert kleift að panta debetkort og stofna nýja bankareikninga í netbanka fyrirtækja en Landsbankinn varð fyrstur til að bjóða upp á þessar aðgerðir í sjálfsafgreiðslu.
 • Í mars kynnti bankinn Aukalán, skammtímalán sem hægt er að sækja um í Landsbankaappinu með skjótum og einföldum hætti. Viðskiptavinir sjá strax hvað þeim býðst hátt lán og á hvaða kjörum. Lánið er greitt samstundis inn á reikning eða kreditkort en viðskiptavinir geta einnig notað Aukalánið til að greiða niður yfirdrátt á hagstæðari kjörum. Ekkert lántökugjald er innheimt í sjálfsafgreiðslu Aukalána.
 • Notkun á stafrænum lausnum er mikil og vaxandi. Um 92% viðskiptavina hafa lokið við rafræna áreiðanleikakönnun, um 94% breyta kortaheimildum sínum rafrænt, um 85% viðskiptavina framkvæma rafrænt greiðslumat vegna íbúðalána og 67% einstaklinga stofna rafrænt til nýrra viðskipta.
 • Í febrúar lauk Lánasjóður sveitarfélaga lokuðu útboði á nýjum grænum skuldabréfum en Markaðsviðskipti Landsbankans höfðu umsjón með sölu skuldabréfanna.
 • Eftir að ljóst varð að útbreiðsla COVID-19 myndi hafa alvarleg efnahagsleg áhrif kynnti Landsbankinn ýmsar lausnir og úrræði fyrir viðskiptavini. Einstaklingum var t.a.m. boðið að fresta greiðslum af íbúðalánum um allt að sex mánuði. Fyrirtækjum var jafnframt boðinn allt að sex mánaða greiðslufrestur. Umsóknarferli vegna úrræðanna var rafrænt frá upphafi.
 • Vegna herts samkomubanns og til að sporna gegn útbreiðslu COVID-19 var útibúum bankans lokað frá og með 24. mars, nema ef erindið væri mjög brýnt og ekki hægt að leysa úr því með öðrum hætti, þ.e. í sjálfsafgreiðslu eða með samtali við Þjónustuver. Viðskiptavinir tóku þessum breytingum af þolinmæði og skilningi. Aftur var opnað fyrir afgreiðslu í útibúum í byrjun maí.
 • Á meðan á lokuninni stóð sinnti starfsfólk útibúanna áfram þjónustu, svaraði fyrirspurnum og veitti ráðgjöf í gegnum síma og tölvupóst. Viðskiptavinum sem voru óvanir að nýta sér stafræna þjónustu var sérstaklega boðið að hafa samband við bankann. Ýmis þjónusta, einkum við fyrirtæki, sem áður krafðist heimsóknar í útibú, var gerð rafræn.
 • Áður en COVID-19-faraldurinn skall á hafði bankaráð Landsbankans ráðgert að leggja fram tillögu til aðalfundar um að bankinn myndi greiða arð til hluthafa að fjárhæð 9,5 milljarðar króna vegna reikningsársins 2019. Í ljósi efnahagslegrar óvissu og í samræmi við tilmæli frá Seðlabanka Íslands féll bankaráð frá þessari tillögu og lagði til við aðalfund, sem haldinn var 22. apríl, að ekki yrði greiddur út arður og var sú tillaga samþykkt.
 • Hinn 24. apríl tilkynnti alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækið S&P Global Ratings lækkun á lánshæfismati Landsbankans fyrir skuldbindingar til lengri tíma. Lækkunin nam einu þrepi og er lánshæfismat bankans því BBB/A-2 með stöðugum horfum.
 • Landsbankinn fékk í maí enn betri einkunn en áður í nýju UFS-áhættumati frá Sustainalytics og lækkaði úr 17,5 niður í 13,5 stig á skala sem nær upp í 100. Landsbankinn varð þar með í 2. sæti af 382 bönkum sem fyrirtækið hafði mælt í Evrópu. Sustainalytics telur einkar litla hættu á að Landsbankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfis- og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS).
 • Landsbankinn og Seðlabanki Íslands skrifuðu í maí undir samning um veitingu viðbótarlána og stuðningslána sem fyrirtæki, sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldursins COVID-19, geta fengið að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Byrjað var að taka á móti umsóknum um viðbótar- og stuðningslán í byrjun júlí.
 • Um miðjan júlí var greint frá því að alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefði valið Landsbankann besta bankann á Íslandi 2020 og er þetta annað árið í röð sem bankinn hlýtur þessa viðurkenningu.

Föstudaginn 31. júlí kl. 10.00, mun bankinn bjóða upp á símafund á ensku þar sem farið verður yfir uppgjör bankans fyrir fyrri helming ársins 2020. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með því að senda tölvupóst á netfangið ir@landsbankinn.is.

Árshlutareikningur samstæðu 1H 2020

Afkomukynning

Fréttatilkynning

Fjárhagsbók

Þú gætir einnig haft áhuga á
New temp image
6. maí 2021

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2021

Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins var 7,6 milljarðar króna. Arðsemi eiginfjár var 11,7%.
New temp image
24. mars 2021

Niðurstöður aðalfundar Landsbankans 2021

Aðalfundur Landsbankans, sem haldinn var 24. mars 2021, samþykkti að greiða 4.489 milljónir króna í arð til hluthafa. Það samsvarar 42,7% af hagnaði ársins 2020. Þar með munu arðgreiðslur bankans á árunum 2013-2021 nema um 146 milljörðum króna. Á fundinum voru þrír nýir aðalmenn kjörnir í bankaráð.
New temp image
22. mars 2021

Tillögur til aðalfundar og framboð til bankaráðs

Aðalfundur Landsbankans verður haldinn miðvikudaginn 24. mars 2021. Tillögur til aðalfundar og upplýsingar um framboð til bankaráðs eru aðgengilegar á vef bankans.
New temp image
18. feb. 2021

Landsbankinn gefur út græn skuldabréf í evrum

Landsbankinn lauk í dag sölu á nýjum grænum skuldabréfaflokki að fjárhæð 300 milljónir evra. Skuldabréfin bera 0,375% fasta vexti og voru seld á kjörum sem jafngilda 87 punkta álagi á miðgildi vaxtatilboða í vaxtaskiptasamningum á markaði. Heildareftirspurn nam tæpum milljarði evra frá meira en áttatíu fjárfestum.
Ungt fólk spilar á hljóðfæri
11. feb. 2021

Árs- og sjálfbærniskýrsla 2020 komin út

Árs- og sjálfbærniskýrsla Landsbankans fyrir árið 2020 er komin út og er hægt að nálgast hana á vef bankans. Í skýrslunni er fjallað um rekstur bankans og þjónustu á árinu 2020 á aðgengilegan hátt. 
11. feb. 2021

Uppgjör Landsbankans fyrir árið 2020

Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 18,2 milljarða króna á árinu 2019. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 4,3% á árinu 2020, samanborið við 7,5% arðsemi árið áður.
New temp image
14. jan. 2021

S&P metur lánshæfi sértryggðra skuldabréfa Landsbankans

S&P Global Ratings birti í dag lánshæfismat fyrir sértryggð skuldabréf útgefin af Landsbankanum og hljóta sértryggðu skuldabréfin lánshæfismatið A- með stöðugum horfum.
New temp image
19. nóv. 2020

Hættir í bankaráði Landsbankans

Á fundi bankaráðs Landsbankans í dag, 19. nóvember 2020, tilkynnti Hersir Sigurgeirsson að hann segði sig úr bankaráði Landsbankans. Hersir hefur ákveðið að taka að sér verkefni sem hann telur að fari ekki saman við setu í bankaráði Landsbankans.
New temp image
29. okt. 2020

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2020

Hagnaður Landsbankans á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 4 milljörðum króna eftir skatta. Afkoma bankans var jákvæð um 699 milljónir króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2020.
New temp image
21. júlí 2020

Besti banki á Íslandi að mati Euromoney

Alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney hefur valið Landsbankann besta bankann á Íslandi og er þetta annað árið í röð sem bankinn hlýtur þessa viðurkenningu. Við útnefninguna er litið til ýmissa þátta í rekstri og stefnu bankanna, eins og afkomu af reglulegri starfsemi, kostnaðarhagræðingar og þjónustuframboðs.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur