Landsbankinn lauk í dag við skuldabréfaútgáfu í sænskum krónum. Samtals voru gefin út skuldabréf fyrir 1 milljarð sænskra króna (SEK), til þriggja ára. Annars vegar voru gefnar út 700 milljónir SEK á breytilegum vöxtum sem bera 1% vaxtaálag ofan á millibankavexti í sænskum krónum og hins vegar 300 milljónir SEK á 0,75% föstum vöxtum.
Talsverð umframeftirspurn var eftir bréfunum sem seld voru til yfir 20 norrænna fjárfesta. Umsjónaraðilar útgáfunnar voru Danske Bank og SEB. Bréfin eru gefin út undir EMTN- skuldabréfaútgáfuramma Landsbankans og verða þau skráð í Kauphöllinni á Írlandi.