Aðalfundur Landsbankans hf. verður haldinn með rafrænum hætti miðvikudaginn 23. mars 2022 kl. 16:00.
Drög að dagskrá
- Skýrsla bankaráðs um starfsemi bankans síðastliðið starfsár.
- Skýrsla bankastjóra.
- Ársreikningur fyrir liðið starfsár ásamt skýrslu endurskoðanda lagður fram til staðfestingar.
- Ákvörðun um greiðslu arðs og meðferð hagnaðar á næstliðnu reikningsári.
- Tillaga bankaráðs um starfskjarastefnu lögð fram til samþykktar.
- Tillögur til breytinga á samþykktum.
- Kosning bankaráðs.
- Kosning endurskoðanda.
- Ákvörðun um þóknun til bankaráðsmanna fyrir næsta kjörtímabil.
- Heimild til kaupa á eigin hlutum.
- Önnur mál.
Fyrirkomulag fundarins
Bankaráð Landsbankans hefur ákveðið að aðalfundur bankans 2022 verði haldinn að öllu leyti með rafrænum hætti í samræmi við 1. mgr. 13. gr. samþykkta bankans.
Aðalfundurinn fer eingöngu fram með Lumi AGM fundarlausninni.
Óskað er eftir að hluthafar sem hyggjast sækja aðalfundinn skrái þátttöku sína fyrir kl. 16:00 þann 18. mars 2022. Hluthafar þurfa innan sama tíma að leggja fram skriflegar spurningar um dagskrá eða eftir atvikum skjöl sem þeir óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum. Senda skal slíkar spurningar og skjöl á netfangið adalfundur@landsbankinn.is. Í framhaldi af skráningu sinni mun hluthöfum berast tölvupóstur með aðgangsupplýsingum.
Hluthöfum er heimilt að láta umboðsmann sækja aðalfundinn og fara þar með atkvæðisrétt fyrir sína hönd.
Nánari upplýsingar um aðgang að Lumi AGM fundarlausninni, rafræna atkvæðagreiðslu, sniðmát af umboði og aðrar upplýsingar varðandi fundinn má finna á vefsíðu bankans.
Aðrar upplýsingar
Hluthafi á rétt á því að fá mál sett á dagskrá aðalfundar og leggja fram ályktunartillögur. Tillögur og óskir um að koma máli á dagskrá aðalfundar þurfa að vera skriflegar og berast á netfangið adalfundur@landsbankinn.is fyrir kl. 16:00, þriðjudaginn 8. mars 2022.
Endanleg dagskrá fundarins og gögn er lögð verða fyrir aðalfundinn verða gerð aðgengileg miðvikudaginn 9. mars 2022 á vefsíðu bankans.
Samkvæmt 63. gr. a. hlutafélagalaga nr. 2/1995 skal tilkynna skriflega um framboð til bankaráðs skemmst fimm dögum fyrir aðalfundinn. Tilkynningar um framboð til bankaráðs skal senda á framangreint netfang fyrir kl. 16:00, föstudaginn 18. mars 2022. Upplýsingar um frambjóðendur til bankaráðs verða lagðar fram og birtar á framangreindri vefsíðu bankans eigi síðar en tveimur dögum fyrir fundinn.
Eitt atkvæði fylgir hverri einni krónu í hlutafé í bankanum, að frádregnum eigin hlutum, sem eru án atkvæðisréttar.