Brost­ið hjarta og tómt veski – var­ist ástar­svik á net­inu

Í ástarsvikum stofna svikarar til falsks ástarsambands á netinu í þeim tilgangi að hafa fé af fórnarlömbunum. Þeir þykjast t.d. vera ungar konur í vanda eða særðir hermenn til að fá fólk til að bíta á agnið.
Ástarsvik tákn
11. september 2020 - Landsbankinn

Landsbankinn fylgist vel með því hversu margir viðskiptavinir verða fyrir tilraunum til ástarsvika, þ.e. þau tilvik sem viðskiptavinir láta vita af eða bankinn greinir í kerfum sínum. Tilvikin eru ekki ýkja mörg, um 48 frá árinu 2017, en þeim hefur þó fjölgað töluvert að undanförnu. Í tæpum 60% tilvika er fórnarlambið karlmaður á sextugs- eða sjötugsaldri. Meginbreytingin á þessu ári er sú að svikatilraunum er beint að konum í meira mæli en áður.

Óvænt sönn ást

Það er ekki tilviljun að svikararnir leita fórnarlamba á samfélagsmiðlum, stefnumótasíðum og -öppum. Ástæður þess að fórnarlömb falla í gildruna geta verið ótal margar, til að mynda tilfinningalegt uppnám og sorg eftir sambandsslit eða fráfall maka. Lýsingar svikaranna geta verið afskaplega sannfærandi, þar sem innri og ytri aðstæðum eru gerð ítarleg skil í nákvæmum frásögnum, jafnvel með réttum staðháttalýsingum og vel útfærðu myndefni sem er stolið héðan og þaðan af netinu. Þegar nýja ástin ytra byrjar svo af mikilli einlægni að lýsa sárri reynslu í sínum einka- og heimahögum, eru fyrstu viðbrögð fórnarlambsins gjarnan þau að rétta fram hjálparhönd.

Ástarsvik tákn

Ástarsvik (ástarsvindl) á netinu

Þekktu einkenni ástarsvika

Algengt einkenni ástarsvika er að fórnarlambið sé beðið um aðstoð við eitthvað af eftirtöldu:

 • Greiða fyrir vegabréf, flugmiða eða annan ferðakostnað. Síðan kemur eitthvað óvænt upp á sem kemur í veg fyrir förina.
 • Aðstoð við að leysa út vörur og önnur verðmæti í eigu svikarans (tölvur, skartgripi o.fl.) sem þarlend tollayfirvöld hafi haldlagt. Hann/hún segist þurfa að greiða toll og aðra skatta af verðmætunum til að endurheimta þau og halda ferð sinni áfram til Íslands. Þessi saga er þekkt í mörgum útgáfum.
 • Greiða óuppgerðar fjárhættuspilaskuldir.
 • Greiða símreikninga svo hægt sé að halda áfram samskiptum við fórnarlambið.
 • Greiða fyrir óvænta skurðaðgerð sem hann/hún hafi lengi beðið eftir. Í öðrum tilvikum er um að ræða ófyrirséða læknismeðferð fyrir foreldra gerandans.
 • Rétta við mislukkaðan fyrirtækjarekstur þar sem einungis vantar herslumuninn til að snúa óvæntu tapi í viðvarandi hagnað.
 • Greiða námsgjöld svo hann/hún geti lokið námi og síðan heimsótt fórnarlambið eða flutt búferlum til Íslands.

Svikararnir óska ekki aðeins eftir hefðbundnum millifærslum frá fórnarlambinu, heldur einnig áfyllingum á ópersónugerð gjafa- og inneignarkort á borð við Amazon kortið, Google Play, iTunes og svo framvegis.

Ástarsvik (ástarsvindl) geta líka verið peningaþvætti

Peningaþvætti er nátengt ástarsvikum. Sú staða kann að koma upp að fjársvikarinn sendi fórnarlambinu verðmætar vörur á borð við fartölvur og síma og biðji viðkomandi að senda þær áfram. Fórnarlambið getur líka verið beðið að kaupa vörurnar með eigin fjármunum og afhenda þær svo öðrum eða senda þær frá sér. Fórnarlambið getur líka verið beðið að taka við greiðslum inn á sína bankareikninga og millifæra svo fjárhæðirnar áfram til annarra. Í öðrum tilfellum segist fjársvikarinn hafa undir höndum mikið magn verðmæta, tölvubúnað, tískufatnað, skartgripi og þess háttar sem flytja á milli landa. Fórnarlambinu er boðin hlutdeild í þeim viðskiptum gegn því litla viðviki að millifæra peninga fyrir skálduðum gjöldum og sköttum.

Hérlendis höfum við ekki dæmi þess að fjársvikarar hafi tælt fórnarlömbin til fjarlægra landa til að koma þeim í enn hættulegri aðstæður eða jafnvel stefna lífi þeirra í hættu en slík dæmi þekkjast erlendis. Hafa ber í huga að gerendur í ástarsvikum eru oft þátttakendur eða meðlimir í alþjóðlegum glæpasamtökum. Afleiðingarnar geta því orðið hörmulegar, mun verri en skömmin sem getur fylgt því að falla í gildru ástarsvikara og tapa ævisparnaðinum.

Hvernig má verjast ástarsvikum?

 • Ekki senda peninga til einstaklings sem þú hefur ekki kynnst persónulega, talað við í myndspjalli eða hefur ekki aðrar aðferðir til að sannreyna deili á.
 • Íhugaðu alltaf möguleikann á að um svindl sé að ræða, sérstaklega ef þú sérð hættumerkin sem lýst er í umfjölluninni að framan. Reyndu að aðskilja tilfinningar frá ákvörðunum, alveg sama hversu umhyggjusamur eða þrautseigur nýi sálufélaginn virðist vera.
 • Google-myndaleit af viðkomandi nægir ekki. Sama gildir um Facebook-leit. Svikararnir eru svo útsmognir að þeir hafa gjarnan útbúið falska persónu sem á Facebook-aðgang og margvíslegar myndir finnast sömuleiðis við Google-myndaleit.
 • Vertu vakandi fyrir atriðum eins og stafsetningarvillum, rangri málfræði, ósamræmi í frásögnum og öðrum einkennum svindls, eins og að myndavél svikarans virðist aldrei virka þegar þú vilt eiga Skype-samtal.
 • Sýndu varkárni við afhendingu persónulegra mynda,  myndbanda og annarra persónuupplýsinga, sérstaklega ef þú hefur aldrei hitt viðkomandi. Alkunna er að fjársvikarar misnoti efnið til að knýja fram greiðslur síðar meir.
 • Ef þú samþykkir að hitta aðilann í eigin persónu, segðu fjölskyldu og vinum hvert þú ert að fara. Ekki er hægt að mæla með að þú farir til útlanda að hitta einhvern sem þú hefur eingöngu spjallað við á netinu.
 • Vertu á varðbergi gagnvart greiðslubeiðnum. Sendu aldrei greiðslur, kreditkortaupplýsingar eða afrit af mikilvægum persónulegum skjölum til einhvers sem þú hvorki þekkir né getur fullkomlega treyst.
 • Forðastu samkomulag um greiðslur af nokkru tagi, hvort heldur um er að ræða millifærslur, áfyllingarkort eða annað. Afar erfitt er að endurheimta féð.
 • Ekki fallast á gylliboð um skjótfenginn gróða, eins og tilboð um að fá greitt fyrir að millifæra pening fyrir einhvern annan.
 • Sýndu varkárni við birtingu upplýsinga á samfélagsmiðlum og á netinu. Allt sem þar kemur fram auðveldar netsvikurum að vinna sína heimildavinnu, draga upp mynd af þér og þínum áhugamálum, venjum og skoðunum. Þannig undirbúa þeir aðgerðir áður en látið er til skarar skríða.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Öryggi í netverslun
30. okt. 2023
Góð ráð um varnir gegn netsvikum
Netsvik hafa aukist verulega. Við höfum tekið saman aðgengilegar upplýsingar um hvernig hægt er að þekkja netsvik og verjast þeim.
31. ágúst 2023
Ef þú lest ekki skilaboðin getur þú tapað miklum peningum!
Ertu örugglega að nota rafrænu skilríkin til að staðfesta eitthvað sem þú vilt í raun og veru gera? Eða eru svikarar kannski að plata þig til að nota rafrænu skilríkin til að hleypa sér inn í bankaappið þitt?
Netöryggi
3. ágúst 2023
Yngri hópur fellur fyrir netsvikum – erum við nógu varkár?
Netsvikum og tilraunum til netsvika hefur fjölgað mikið í sumar. Ekki aðeins eru málin fleiri heldur eru fórnarlömbin líka yngri en áður. Möguleg skýring á aukningunni er sú að nú er meira um að svikin séu reynd utan opnunartíma fyrirtækja, þ.e. um kvöld og um helgar og þegar líklegt er að fólk sé í sumarfríi og því síður á varðbergi.
Öryggi í netverslun
28. júlí 2023
Hvernig á að bregðast við svikum?
Ef þig grunar að þú hafir lent í klóm svikara, sérð óeðlilegar færslur á reikningum eða greiðslukortum eða óviðkomandi hefur komist inn í netbankann þinn, er mikilvægt að hafa samband við bankann eins fljótt og hægt er.
Netöryggi
13. jan. 2023
Varist svik í gegnum samfélagsmiðla – aldrei framsenda SMS-kóða
Við viljum vara viðskiptavini okkar við netsvikum, sérstaklega svikum sem fara fram í gegnum samfélagsmiðla og skilaboðaforrit, en mikið hefur borið á þeim undanfarið.
Öryggi í netverslun
4. nóv. 2022
14 góð ráð til að auka öryggi í netverslun
Verslun á netinu er ekki hættulaus, tölvuþrjótar leggja mikið á sig til að stela greiðsluupplýsingum eða svíkja fé út úr fólki með öðrum hætti. Hér fyrir neðan eru nokkur einföld ráð til að minnka hættuna á netsvikum.
8. júlí 2022
Mundu eftir netörygginu - líka þegar þú ert í fríi
Tilraunum til hvers kyns netsvika hefur fjölgað mikið og reynslan sýnir að þeim fjölgar á sumrin. Ástæðan er talin vera sú að netsvikarar vonast eftir því að þá sé fólk sé kærulausara og sé líklegra til að taka þátt í fölskum Facebook-leik, smella á hlekk í hugsunarleysi eða skoða ný „fjárfestingartækifæri“.
12. maí 2022
Ekki smella á hlekkinn – og ekki falla í gildruna
Notkun á tölvum og símum er stór hluti af okkar daglega lífi og því nauðsynlegt að vera meðvituð og upplýst um hætturnar sem leynast á netinu.
New temp image
8. mars 2022
Upptökur af fróðlegum fundi um netöryggismál
Landsbankinn stóð fyrir vel heppnuðum fundi um netöryggismál fimmtudaginn 3. mars 2022. Á fundinum var m.a. fjallað um hvernig skipulagðir glæpahópar beina spjótum sínum að einstaklingum og fyrirtækjum og hvernig verjast má atlögum þeirra.
2. mars 2022
Tinder-svindlarinn og hætturnar á netinu
Tilraunir til fjársvika á netinu aukast stöðugt og dæmi eru um að Íslendingar hafi tapað milljónum til svindlara á netinu. Oft er verið að spila með tilfinningar og góðmennsku fólks og mikilvægt að fólk þekki einkenni svikatilrauna, hvort sem þau beinast gegn þér eða þínum nánustu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur