Skatta­breyt­ing­in er hvatn­ing til að láta gott af sér leiða

Nýlegar lagabreytingar sem heimila skattafrádrátt einstaklinga og fyrirtækja vegna styrkja til almannaheillafélaga fela í sér mikinn ávinning og aukin tækifæri, að sögn talsfólks Rauða krossins, SOS Barnaþorpanna og UNICEF.
9. maí 2022 - Landsbankinn

Í nóvember 2021 var lögum um skattlagningu almannaheillafélaga breytt í þeim tilgangi að efla slíka starfsemi. Breytingarnar gera meðal annars einstaklingum og fyrirtækjum kleift að draga tiltekna fjárhæð eða hlutfall framlaga frá tekjum. Styrktaraðilar fá því endurgreiðslu frá skattinum og geta hækkað framlag sitt án þess að það komi niður á ráðstöfunartekjum. Fulltrúum samtakanna sem rætt var við ber öllum saman um að þessar breytingar séu afar kærkomnar og að styrktaraðilar taki þeim vel.

Ingibjörg Magnúsdóttir, Brynhildur Bolladóttir og Ragnar Schram.

Aukinn hvati til að láta gott af sér leiða

„Tækifærið sem við sjáum er helst aukinn hvati fyrir fólk til að láta gott af sér leiða,“ segir Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri UNICEF á Íslandi, íslenskrar landsnefndar Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Skattalagabreytingin getur verið fólki hvati til að styðja starfsemi okkar og á sama tíma hvati fyrir þau sem nú þegar styðja við starfsemina til að hækka framlag sitt. Meðalupphæð mánaðarlegra framlaga frá Heimsforeldrum UNICEF er í kringum 2-3 þúsund krónur.“

Hafið þið nýtt ykkur þessa lagabreytingu að einhverju leyti?
„Já, í byrjun árs sendum við frá okkur almannaheillaskrá svo að þau sem höfðu gefið til starfseminnar í nóvember eða desember 2021 myndu fá frádrátt í skattframtali sínu í ár. Við höfum fengið mikið af spurningum frá styrktaraðilum þar sem margir voru hissa á því að sjá þetta í framtali sínu en fólk var almennt ánægt að heyra af breytingunni,“ upplýsir hún. „Einnig vissu ekki margir að breytingarnar hefðu tekið gildi þann 1. nóvember 2021, sem skapaði óvissu, þar sem heildarframlag ársins kom ekki fram í framtali heldur einungis tveir mánuðir.“

Að lokum segir Ingibjörg að þau hjá UNICEF séu mjög ánægð með skattalagabreytinguna. „Hún er hvati fyrir fólk til að styðja enn frekar við almannaheillafélög án þess að það komi niður á ráðstöfunartekjum þeirra.“

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, starfar í yfir 190 löndum og leggur ríka áherslu á að ná til þeirra barna sem helst eiga undir höggi að sækja.

„Það munar um minna“

„Við sjáum mikil tækifæri í þessum breytingum,“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, sem sinnir fjölbreyttu hjálparstarfi innanlands og á alþjóðavettvangi. „Starf okkar byggist að mjög miklu leyti á frjálsum framlögum og það er afar mikilvægt að auðvelda fólki að styrkja starfsemi líkt og okkar. Með þessu er enn meiri hvati fyrir fólk til að láta gott af sér leiða og við getum eflt okkar starf enn frekar.“

„Við höfum kynnt þessar breytingar á okkar miðlum og hvatt fólk til þess að kynna sér lögin. Lögin tóku gildi í lok árs 2021 svo það hefur í raun ekki reynt mikið á þetta. En við erum fullviss um að það verði ánægjulegt fyrir fólk sem hefur styrkt okkur að skila skattframtalinu sínu á næsta ári - ótrúlegt en satt! - því þá sér það framlögin sín og hvernig frádrátturinn virkar.“

Hvernig hafa styrktaraðilar tekið í þessar breytingar?
„Mjög vel. Það þarf að kynna þetta enn frekar til þess að almenningur og fyrirtæki átti sig á tækifærunum sem í þessu felast, en almennt er fólk mjög jákvætt gagnvart þessum breytingum.“

Hversu mikið gætu styrktaraðilar hækkað framlag sitt án þess að skerða ráðstöfunartekjur? 
„Það fer eftir skatthlutfalli einstaklinga, en sá sem styrkir okkur til dæmis um 4.000 krónur á mánuði, og er með meðallaun, gæti hækkað styrkinn upp í 5.500 krónur og haft sömu ráðstöfunartekjur. Það munar um minna fyrir okkur.“

Mannvinir Rauða krossins, sem eru mánaðarlegir styrktaraðilar, greiða að lágmarki 2.500 krónur, en mörg greiða hærri fjárhæð, að sögn Brynhildar. „Ekki er óalgengt að það sé 4-5 þúsund krónur og jafnvel meira. Mörg styrkja fleiri en einn og því er ánægjulegt að frádráttarupphæðin sé nokkuð há. Sá sem vill nýta heildarskattafslátt, er með meðaltekjur og styrkir okkur um tæpar 30.000 á mánuði, fær rúmar 130 þúsund til baka frá skattinum, þannig að í rauninni greiðir viðkomandi 18 þúsund á mánuði en Rauði krossinn fær 30 þúsund króna framlag. Án Mannvina Rauða krossins gætum við ekki starfað og því eflir skattaafslátturinn hjálparstarfið okkar innanlands og utan enn frekar. Við viljum hvetja þau sem ekki eru nú þegar að styrkja okkur að gerast Mannvinir. Einnig hvetjum við þau sem eru Mannvinir að skoða þann möguleika að hækka fjárhæðina með tilliti til skattaafsláttar.“

Alþjóðlegt hjálparstarf Rauða krossins á Íslandi nær á hverju ári til þúsunda þolenda hamfara, ófriðar og örbirgðar um allan heim.

Hjálp til betra lífs

SOS Barnaþorpin eru stærstu óháðu hjálp­ar­sam­tök heims sem einbeita sér að börnum án for­eld­raum­sjár og ósjálf­bjarga barna­fjöl­skyldum. „Tækifæri okkar er einfaldlega það að hér eru á ferðinni nýir skattalegir hvatar fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki að gefa til okkar hjálparstarfs. Því fleiri sem nýta sér þessa heimild, því fleiri munaðarlausum og yfirgefnum börnum getum við hjálpað til betra lífs,“ segir Ragnar Schram, framkvæmdastjóri SOS Barnaþorpanna á Íslandi.

Hafið þið nú þegar nýtt ykkur þessar breytingar?
„Já, við skráðum okkur strax á almannaheillaskrá Skattsins og allir sem gáfu til SOS Barnaþorpanna í fyrra eftir gildistöku laganna fengu framlög sín forskráð á framtalið, til lækkunar á höfuðstóli.“

Aðspurður segir Ragnar styrktaraðila hafa tekið afar vel í þessar breytingar. „Eitthvað hefur verið um að fólk hafi hækkað framlög sín. Þá var nokkuð um að styrktaraðilar spyrðust fyrir um það hvers vegna ekki var tekið tillit til alls ársins í fyrra og ekki þurfti þá annað en að útskýra að lögin hefðu ekki tekið gildi fyrr en 1. nóvember.“

Hversu mikið gætu styrktaraðilar hækkað framlögin án þess að það kæmi niður á ráðstöfunartekjum?
„Við höfum ekki nálgast þetta mál þannig að styrktaraðilar þurfi að gefa allt það sem þau fá endurgreitt frá Skattinum aftur til okkar. Við yrðum auðvitað mjög þakklát ef fólk kysi það, en við göngum ekki út frá því. Aftur á móti höfum við reiknað út að SOS-foreldrar sem styrkja eitt barn fá um það bil 18.000 krónur endurgreiddar af 46.800 krónum á ársgrundvelli.“

„Á árinu 2021 var heildarfjöldi þeirra sem gaf mánaðarleg og stök framlög til SOS Barnaþorpanna 21.523 einstaklingar. Það gerir fjárframlög að meðaltali um 25.500 krónur á einstakling,“ segir Ragnar og bendir að endingu á að ef allir mánaðarlegir styrktaraðilar SOS Barnaþorpanna á Íslandi gæfu 60.000 til samtakanna á árinu 2022 myndu styrktaraðilarnir gróft reiknað fá samtals um 230 milljónir króna endurgreiddar frá Skattinum. „Það munar um minna. Upphæðin verður svo enn hærri þegar við bætum við öllum þeim sem styrkja okkur óreglulega.“

SOS Barnaþorpin starfa í 137 löndum og ná til yfir einnar milljónar barna, ungmenna og fullorðinna.

Einnig mikil breyting fyrir styrktarsjóði

Í grein sem Eyrún A. Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Eignastýringar og miðlunar hjá Landsbankanum, og Vigdís Sif Hrafnkelsdóttir, viðskiptastjóri hjá bankanum, skrifuðu um lagabreytingarnar kom m.a. fram að breytingin þýðir að 160 milljónir sem Háskólasjóður Eimskipafélagsins hefði greitt í skatt nýtist í beina styrki til doktorsnema. Í greininni fjölluðu þær einnig um mikilvægi þess að huga að góðri eignadreifingu og að ávöxtunarkostir falli að markmiðum sjóðanna.

Mikið framfaraskref fyrir styrktarsjóði og almannaheillafélög

Þú gætir einnig haft áhuga á
Landslag
29. nóv. 2022

Fjármálaheimurinn tók hressilega á móti UFS

Fjárfestingar sem byggja á tengslum við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS, e. ESG) hafa aukist ótrúlega mikið á tiltölulega stuttum tíma. Helst sú þróun auðvitað í hendur við aukinn skilning á loftslagsvánni og brýna nauðsyn til þess að ná árangri þar.
Landslag
18. nóv. 2022

Það vantar betri gögn um tengsl sjálfbærni og fjármála

Með því að beina fjármagni í atvinnugreinar og fyrirtæki sem hafa jákvæð áhrif á loftslagsvandann eða a.m.k. síður neikvæð, getur fjármálageirinn stuðlað að miklum breytingum til hins betra. En er fjármálageirinn að standa sig?
Auðkenni
17. nóv. 2022

Leyninúmerin á útleið og sterk auðkenning kemur í staðinn

Fjögurra stafa leyninúmer bankareikninga hafa fylgt okkur áratugum saman en nú í nóvember hefst útleiðing þeirra hjá Landsbankanum þegar hætt verður að biðja um leyninúmer við staðfestingu greiðslna í appinu og netbanka einstaklinga.
10. nóv. 2022

Ísland langt frá loftslagsmarkmiðum

Ísland hefur ásamt Noregi og Evrópusambandinu sett sér markmið um 55% samdrátt heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við árið 2005 sem upprunalega miðaðist við 1990. Auk þess skal kolefnishlutleysi náð árið 2040. En hvernig gengur? Og hvernig spilar kolefnisjöfnun þar inn í?
Sjálfbærnidagur 2022
22. sept. 2022

Sjálfbærnidagur Landsbankans – upptökur

Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 22. september 2022. Aðalfyrirlesari fundarins var Tjeerd Krumpelman frá hollenska bankanum ABN AMRO.
Höfuðstöðvar Landsbankans
18. ágúst 2022

Bankinn í miðborginni: Úr Bakarabrekku í Austurstræti

Landsbankinn hóf starfsemi árið 1886 í Bankastræti, sem þá kallaðist reyndar Bakarabrekka en flutti í fyrsta bankahúsið í Austurstræti 11 árið 1898. Færri vita líklega að bankinn var um tíma með afgreiðslu í Austurstræti 16 sem seinna hýsti Reykjavíkurapótek.
Lady Zadude
3. ágúst 2022

Nú þarf einfaldlega að hleypa sorginni að

Vilhjálmur Ingi Vilhjálms á sér hliðarsjálf sem dragdrottningin Lady Zadude en hún hlaut titilinn dragdrottning Íslands fyrr í sumar. Lady Zadude hlaut þar styrk í verðlaun til að koma fram á Hinsegin dögum en hlaut jafnframt styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans til að þróa og sýna atriði sitt í Gleðigöngunni.
15. júlí 2022

Öruggari greiðslur með sterkri auðkenningu

Nýjar reglur um það sem nefnist „sterk auðkenning“ hafa tekið gildi en í þeim eru gerðar stífari kröfur við innskráningu í bankaöpp og netbanka, um hvernig þú staðfestir netbankagreiðslur og við verslun á netinu. Tilgangurinn er að auka öryggi og stuðla að meiri samkeppni.
Edda Garðarsdóttir
8. júlí 2022

Einstök liðsheild kvennalandsliðsins

Fyrrverandi landsliðskonan og EM-farinn Edda Garðarsdóttir skrifar hér grein um hvað það er sem skapar góða liðsheild – og hvernig sú liðsheild sem ríkir innan kvennalandsliðsins er höfuðástæða fyrir árangri liðsins í gegnum árin.
6. júlí 2022

Hvernig kvennalandsliðið í fótbolta varð að þjóðargersemi

Sagnfræðingurinn og fótboltaáhugamaðurinn Stefán Pálsson lítur á sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi, með stöðu knattspyrnu í Evrópu hverju sinni til hliðsjónar.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur