Að vera gagnadrifinn banki þýðir að við leggjum meiri áherslu á hagnýtingu gagna við ákvarðanir og stýringu. Til að verða gagnadrifin þurfa ákveðin grunnatriði að vera til staðar - að hægt sé að treysta því að gögnin séu rétt og fullnægjandi, að sem flest starfsfólk hafi aðgengi að gögnunum og hafi tól til að vinna með og greina þau og að hægt sé að birta gögn með auðveldum hætti fyrir mismunandi hópa innan bankans. Við erum komin vel áleiðis í þessari vegferð og höfum skýr markmið um hvert við ætlum.
Byrjaði með áhættustýringu
Gagnavegferð bankans hófst þegar bankinn vann að bættu mati á eiginfjárbindingu útlánasafnsins. Við kortlögðum útlánagögn bankans og allt sem viðkom áhættu útlána, s.s. tryggingar. Við þessa vinnu varð til fyrsta vöruhús gagna í bankanum. Þetta var mikilvægur þáttur í efldri áhættustýringu bankans og því má segja að áhættustýring hafi stýrt uppbyggingu vöruhússins til að byrja með. Þannig var stöðugt bætt við gögnum sem studdu við mat á áhættu í starfsemi bankans. Samhliða urðu gögnin áreiðanlegri, staðlaðri og aðgengilegri.
Eftir þessa miklu uppbyggingu í okkar innra starfi var næsta skref að hagnýta gögnin til að bæta þjónustu við viðskiptavini og einfalda þeim lífið. Við mynduðum þverfaglegt teymi til að fræða og kynna viðskiptagreind sem byggði á hagnýtingu gagna. Teymið nýtti vöruhúsið og viðskiptagreindarkerfi til að miðla greiningum og þá til annarra en Áhættustýringar. Með þessu færðist áherslan yfir á að skapa getu til að breyta gögnum í upplýsingar með það að markmiði að vera forsenda þekkingar, ályktana, ákvarðana og aðgerða. Þannig átti að hámarka gagnadrifna ákvörðunartöku eftir fremsta megni.
Í byrjun árs 2017 var stöðlun og tiltekt í viðskiptagreindarumhverfi og áframhaldandi uppbygging vöruhúss gagna komin vel á veg og ákveðið var að efla hagnýtingu gagna enn frekar. Í stað þverfaglega teymisins var sett upp sérstök deild, Upplýsingagreind, sem hafði það hlutverk að vera drifkraftur við hagnýtingu upplýsinga til ákvörðunartöku og að nýta gögn til að bæta þjónustu við viðskiptavini. Með þessu færðist áherslan frá áhættustýringargögnum yfir á viðskiptavini. Það studdi við stefnu bankans um að einfalda viðskiptavinum lífið.
Aðgengileg gagnagátt fyrir starfsfólk
Árið 2021 urðu þau tímamót að við settum upp gagnagátt sem gerir bankanum kleift að draga saman gögn á einfaldan hátt, hvort sem þau liggja innan eða utan bankans. Í gagnagáttinni eru gögn sem liggja á ýmsum stöðum gerð sýnileg á einum stað en ekki færð til eða afrituð (e. data virtualization). Með þessum sýndargagnagrunni hefur skapast möguleiki til að hagnýta betur þau gögn bankans sem sum voru óaðgengileg áður.
Aðgengi að gögnum og viðskiptagreindartólum er á þremur stigum. Fyrsta stigið er í raun bara stöðluð skýrslugjöf, annað stig býður upp á sjálfsafgreiðslusvæði gagna þar sem hægt er að útbúa greiningar og skýrslur án mikillar djúprar þekkingar í gagnafyrirspurnum og þriðja stigið er síðan að gagnafyrirspurnir fari beint ofan í gagnagáttina til að framkvæma greiningar.
Skýrslur inn í fyrsta stigið eru unnar miðlægt. Það er á stigi tvö sem stærsta umbreytingin síðastliðin þrjú ár hefur legið. Þar er meginreglan opinn aðgangur að gögnum, sem þýðir að allir innan bankans hafa aðgang og að gögnin eru ekki persónugreinanleg. Með þessu hafa enn fleiri innan bankans tækifæri til að gera greiningar og í stað þröngra gagnafyrirspurna er hægt að velta gögnum með einföldum hætti og leita áður óþekktra tækifæra.
Á stigi tvö er hægt að birta skýrslur sem ná til allra sem rýna gögn og birtingarmynd þeirra eru lifandi gagnvirk mælaborð. Ávinningurinn er tvenns konar. Í fyrsta lagi hafa orðið til mælaborð sem hafa veitt deildum betri yfirsýn yfir sína daglegu starfsemi og í öðru lagi er komin mun betri sýn á upptöku nýrra og eldri vara. Með þessu hefur skilvirkni við söfnun og miðlun upplýsinga og öll yfirsýn innan bankans stóraukist. Jafnframt ýta daglegar mælingar undir árangursdrifna menningu.
Til að auka möguleika þeirra sem sinna greiningum á þriðja stigi höfum við útbúið gagnagátt þar sem hægt er að sjá lista yfir öll gögn vöruhússins og meira til. Þetta eykur og einfaldar enn frekar aðgengi þessara greiningaraðila að gögnum.
Notum gögn til að forgangsraða
Þessi aukna notkun á gögnum hefur leitt til mikilla breytinga á því hvernig við nálgumst viðskiptavini og hagnýtum upplýsingar til að veita persónulega og faglega ráðgjöf. Við höfum nú betri yfirsýn, eigum auðveldara með að koma auga á ný tækifæri og sjá hvernig við getum uppfyllt þarfir og væntingar viðskiptavina. Ákvarðanir um framboð á nýrri þjónustu, forgangsröðun verkefna, vinna við nýjar lausnir og fleira byggir nú í auknum mæli á enn traustari gögnum sem auðvelt er að nálgast. Þjónustan hefur aukist og batnað enn frekar sem hefur leitt til meiri ánægju viðskiptavina.
Í fremstu röð
Af samtölum okkar við bæði erlenda og innlenda ráðgjafa er ljóst að staða bankans er einstök á Norðurlöndum og víðar í Evrópu hvað varðar innleiðingu á sýndargögnum og gagnagátt. Þar spilar inn stærð bankans og þverfaglegt samstarf sem hefur auðveldað okkur ferðalagið. Bankinn er á réttri gagnabraut og framundan sjáum við fjölmörg tækifæri til að bæta þjónustuna enn frekar og stuðla að enn betri rekstri.
Ég fjallaði líka um gagnavegferðina í árs- og sjálfbærniskýrslu Landsbankans fyrir árið 2021. Í skýrslunni er m.a. ítarlega fjallað um breytingar og þróun á stafrænni þjónustu bankans. Ef þú ætlar bara að lesa eina ársskýrslu á þessu ári – þá mæli ég með þessari!