Góð ráð um netör­yggi í fjar­námi og fjar­vinnu

Samhliða því að sífellt fleiri stunda fjarnám eða sinna vinnu að heiman leita netþrjótar að nýjum leiðum til að svindla á fólki. Það má gera ýmislegt til að auka netöryggi heimilisins og treysta varnir gegn óprúttnum aðilum.
Skilaboðasvik
2. september 2020 - Landsbankinn

Sífellt fleiri stunda fjarnám eða sinna vinnu að heiman. Á sama tíma eru netþrjótar óþreytandi í leit sinni að nýjum tækifærum til að svindla á fólki og því vissara að vera á varðbergi. 

Það sem þú getur gert

Góð vísa verður ekki of oft kveðin og traust og örugg lykilorð eru enn einfaldasta vörnin gegn netsvikum. Samt sem áður velja margir sér lykilorð af kæruleysi. Kíktu á leiðbeiningar um notkun sterkra lykilorða sem erfitt er að giska á og notaðu tveggja þátta auðkenningu þar sem hún er í boði (t.d. lykilorð og sms-sendingu). Notendur þurfa gjarnan að velja öryggisspurningar til að tryggja öryggi aðgangs að læstum svæðum og semja svör við þeim. Hér er leiðbeiningar um hvernig hægt er að semja slík svör.
Ef þú notar forrit á borð við Zoom og Teams til að stunda nám eða vinnu mælum við með að þú kynnir þér friðhelgisstillingar forritanna. Á þessu ári hafa netþrjótar reynt að færa sér slík forrit í nyt til að hafa viðkvæmar upplýsingar og fé af grandalausum notendum. Fyrir vikið hafa Zoom og Teams verið uppfærð margsinnis og nú má stilla mun fleiri atriði en við upphaf kórónuveirufaraldursins. Persónuverndar- og öryggisstillingar tækisins sem þú notar (e. privacy and security settings) eru einnig sérsníðanlegar og gott að breyta þeim með hliðsjón af þínum þörfum.
Þróunin er ör og það er mikilvægt að fylgjast vel með. Kynntu þér umfjöllun um netöryggi og ráðleggingar um hvernig forðast má netsvik.

Það sem tæki og tól geta gert fyrir þig

Við mælum með að allir noti vírusvörn en minnum á að engin vírusvörn veitir fullkomið öryggi. Á vefnum AV-Comparatives er birtur listi yfir fremstu vírusvarnir sem völ er á. Auk vírusvarna er gott að setja upp hugbúnaðarvaktara (e. software inspector), en þetta er hugbúnaður sem greinir veikleika í forritum sem eru í tölvunni þinni. Ýmis forrit geta gert tölvuna berskjaldaða fyrir árásum sem vírusvarnir ráða ekki við. Hér eru dæmi um vaktara sem skanna tölvuna og tilgreinir hvaða forrit þarfnast öryggisuppfærslu.
Ekki vista lykilorð í netvafra fartölvunnar eða símans, það býður hættunni heim. Notaðu frekar lykilorðaforrit (e. password manager) eins og LastPass sem býr til og varðveitir sterk lykilorð fyrir ólíkar þjónustur.

Gættu að trúnaði í fjarvinnu

Þegar unnið er að heiman þarf að hafa sérstakan vara á, því gjarnan er unnið með trúnaðargögn sem varða fyrirtækið og viðskiptavini þess. Þegar þú vinnur heima þarftu því að huga sérstaklega að netöryggi.
Á meðal öryggis- og friðhelgisstillinga í forritum á borð við Zoom og Teams sem gagnast við fjarvinnu eru t.d. möguleiki á að kveikja á dulkóðun, útbúa biðstofur fyrir fundargesti, krefjast þess að gestgjafi sé viðstaddur áður en fundur hefst, læsa fundum, nota vatnsmerki, hindra upptöku annarra, hindra skráarniðurhal þátttakenda, slökkva tímabundið á skjádeilingu, hvítlista netföng og fjölmargt fleira.
Notaðu vinnutölvuna en ekki heimilistölvuna því vinnutölvan er vafalítið með betri varnir, s.s. gegn vírusum. Ekki leyfa öðrum í fjölskyldunni að nota vinnutölvuna. Mundu að læsa skjánum þegar þú tekur þér pásu og gættu að því að halda trúnaði í samskiptum, bæði á neti og í símtölum. Ef vinnutölvan eða önnur vinnutæki, s.s. sími, týnist skaltu tilkynna vinnuveitanda um það tafarlaust. Einnig ef brotist er inn í tækin. Þá er hægt að grípa strax til aðgerða.
Síðast en ekki síst er mikilvægt að forðast að senda viðkvæmar upplýsingar og ræða vinnutengd málefni við vinnufélaga í óöruggum forritum, í almennum tölvupósti, á Messenger og þess háttar. Gættu vel að því hvaða áþreifanlegu gögn þú tekur með þér heim og gakktu frá þeim eftir vinnudaginn og vandaðu förgun þegar við á.

Skjáskot úr Zoom

Ráðleggingar fyrir foreldra barna og unglinga

Ræddu við barnið um öryggi og samskipti á netinu og sýndu virkan áhuga á netnotkun þess. Spurðu barnið spurninga um hvað það gerir á netinu, hvaða öpp og vefsíður það notar og við hverja það talar. Fylgstu með netnotkuninni, þ.m.t. hvað barnið birtir á samfélagsmiðlum. Eflaust vill barnið vita hvers vegna þér leikur hugur á að vita allt þetta. Útskýrðu hvers vegna það er mikilvægt að vera varkár á netinu. Kenndu því hverju sé eðlilegt að deila á netinu og hverju ekki. Útskýrðu að ókunnugir á netinu eru ekki alltaf þeir sem þeir virðist vera.
Hafðu tölvur heimilisins í alrými eða á öðru sameiginlegu svæði þar sem fylgjast má með netnotkun barnsins. Mörg ný tæki hafa innbyggt foreldraeftirlit sem auðvelt er að nota en gleymist oft við fyrstu uppsetningu. Þannig má stilla aðgangstíma, fylgjast með netvirkni og loka á efnisflokka. Einnig má hlaða niður forritum til foreldraeftirlits. Passaðu þó að ganga ekki lengra en þörf er miðað við aldur og þroska barnsins þíns og ganga ekki á friðhelgi einkalífs þess.
Góðar samræður og aðbúnaður sem leyfir eftirfylgni mynda grunninn að góðri netnotkun. Fylgdu þessu eftir með því að sýna gott fordæmi með eigin netnotkun og settu barninu grunnreglur. Á vef SAFT – Samfélag, fjölskylda og tækni er að finna fjölda heilræða fyrir foreldra um örugga tækninotkun barna og unglinga. Einnig eru leiðbeiningar um örugga notkun snjalltækja á heimilum á vef Stjórnarráðs Íslands.

Landsbankinn leggur mikla áherslu á netöryggis- og persónuverndarmál. Á Umræðunni má finna aðgengilega umfjöllun um netöryggi og ráðleggingar um hvernig forðast má netsvik.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Öryggi í netverslun
30. okt. 2023
Góð ráð um varnir gegn netsvikum
Netsvik hafa aukist verulega. Við höfum tekið saman aðgengilegar upplýsingar um hvernig hægt er að þekkja netsvik og verjast þeim.
31. ágúst 2023
Ef þú lest ekki skilaboðin getur þú tapað miklum peningum!
Ertu örugglega að nota rafrænu skilríkin til að staðfesta eitthvað sem þú vilt í raun og veru gera? Eða eru svikarar kannski að plata þig til að nota rafrænu skilríkin til að hleypa sér inn í bankaappið þitt?
Netöryggi
3. ágúst 2023
Yngri hópur fellur fyrir netsvikum – erum við nógu varkár?
Netsvikum og tilraunum til netsvika hefur fjölgað mikið í sumar. Ekki aðeins eru málin fleiri heldur eru fórnarlömbin líka yngri en áður. Möguleg skýring á aukningunni er sú að nú er meira um að svikin séu reynd utan opnunartíma fyrirtækja, þ.e. um kvöld og um helgar og þegar líklegt er að fólk sé í sumarfríi og því síður á varðbergi.
Öryggi í netverslun
28. júlí 2023
Hvernig á að bregðast við svikum?
Ef þig grunar að þú hafir lent í klóm svikara, sérð óeðlilegar færslur á reikningum eða greiðslukortum eða óviðkomandi hefur komist inn í netbankann þinn, er mikilvægt að hafa samband við bankann eins fljótt og hægt er.
Netöryggi
13. jan. 2023
Varist svik í gegnum samfélagsmiðla – aldrei framsenda SMS-kóða
Við viljum vara viðskiptavini okkar við netsvikum, sérstaklega svikum sem fara fram í gegnum samfélagsmiðla og skilaboðaforrit, en mikið hefur borið á þeim undanfarið.
Öryggi í netverslun
4. nóv. 2022
14 góð ráð til að auka öryggi í netverslun
Verslun á netinu er ekki hættulaus, tölvuþrjótar leggja mikið á sig til að stela greiðsluupplýsingum eða svíkja fé út úr fólki með öðrum hætti. Hér fyrir neðan eru nokkur einföld ráð til að minnka hættuna á netsvikum.
8. júlí 2022
Mundu eftir netörygginu - líka þegar þú ert í fríi
Tilraunum til hvers kyns netsvika hefur fjölgað mikið og reynslan sýnir að þeim fjölgar á sumrin. Ástæðan er talin vera sú að netsvikarar vonast eftir því að þá sé fólk sé kærulausara og sé líklegra til að taka þátt í fölskum Facebook-leik, smella á hlekk í hugsunarleysi eða skoða ný „fjárfestingartækifæri“.
12. maí 2022
Ekki smella á hlekkinn – og ekki falla í gildruna
Notkun á tölvum og símum er stór hluti af okkar daglega lífi og því nauðsynlegt að vera meðvituð og upplýst um hætturnar sem leynast á netinu.
New temp image
8. mars 2022
Upptökur af fróðlegum fundi um netöryggismál
Landsbankinn stóð fyrir vel heppnuðum fundi um netöryggismál fimmtudaginn 3. mars 2022. Á fundinum var m.a. fjallað um hvernig skipulagðir glæpahópar beina spjótum sínum að einstaklingum og fyrirtækjum og hvernig verjast má atlögum þeirra.
2. mars 2022
Tinder-svindlarinn og hætturnar á netinu
Tilraunir til fjársvika á netinu aukast stöðugt og dæmi eru um að Íslendingar hafi tapað milljónum til svindlara á netinu. Oft er verið að spila með tilfinningar og góðmennsku fólks og mikilvægt að fólk þekki einkenni svikatilrauna, hvort sem þau beinast gegn þér eða þínum nánustu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur