Mín reynsla er sú að ungt fólk skiptist nánast alfarið í tvo flokka – annað hvort eru fjármálin í lagi eða þau eru alls ekki í lagi. Þegar ég segi að fjármálin séu í lagi þýðir það ekki endilega að fólk eigi fullt af peningum. Ungt fólk hefur gjarnan fremur lítið á milli handanna, enda er það oft í námi og á eftir að koma undir sig fótunum fjárhagslega. En það er ekki það sama og að segja að fjármálin séu í ólestri. Ég ræði t.d. við marga sem eru á leigumarkaðnum og þau eiga það flest sameiginlegt að búa við fremur þröngan fjárhag, enda er leiguverð orðið óheyrilega hátt, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu. Þau geta engu að síður haft góða yfirsýn og góða stjórn á sínum fjármálum. Sumum tekst jafnvel, oft með töluverðri útsjónarsemi, að leggja fé fyrir.
Leyfum ungmennum að taka ábyrgð á sínum fjármálum
Þegar 18 ára aldri er náð er fólk fjárráða. Frá og með þeim aldri ber fólk ábyrgð á sínum eigin fjármálum. Það er afar mikilvægt að foreldrar undirbúi börnin sín vel fyrir þessi tímamót og kenni þeim á fjármálin. Foreldrar eiga ekki að vasast um of í fjármálum barna sinna, heldur leyfa þeim að spreyta sig og axla ábyrgð. Börn sem eru vön því að foreldrar skammti þeim vasapening, sjái um allar færslur í netbankanum, geri fyrir þau skattskýrslu o.s.frv. eru ekki sérlega vel undir það búin að þurfa skyndilega að sjá sjálf um eigin fjármál. Ég stofnaði sparnaðarreikning fyrir börnin mín þegar þau voru 8-9 ára gömul og leyfði þeim að fylgjast með og sjá hvernig þeim gekk að safna. Þeim fannst frábært að geta séð sjóðinn stækka þar til þau höfðu náð að safna sér fyrir því sem þau langaði til að kaupa. Þannig lærðu þau mikilvægar lexíur um fjármál.
Samtök fjármálafyrirtækja hafa undanfarið staðið fyrir fjármálafræðslu undir merkjum Fjármálavits og þar má finna mörg góð fjármálaráð.
Algeng mistök í fjármálum
Í minni ráðgjöf ræði ég við ungt fólk um ýmislegt sem getur komið upp á varðandi fjármál. Miðað við mína reynslu er eftirfarandi algengustu mistökin sem ungt fólk gerir í fjármálum:
- Neyslan er ekki í samræmi við tekjurnar. Er t.d. hægt að smyrja nesti í skólann og hella upp á kaffibrúsann, fremur en að kaupa tilbúnar máltíðir og kaffibolla?
- Fresta því að takast á við vandann.
- Smálán. Þeir sem eru í fjárhagsvandræðum freistast stundum til að taka smálán. Taka svo önnur smálán til að greiða þau gömlu. Yfirdráttarvextir eru vissulega háir en þeir komast ekki í hálfkvisti við kostnaðinn við að taka smálán.
- Leggja ekki fyrir.
- Huga ekki að viðbótarlífeyrissparnaði. Þessi tegund sparnaðar er ein sú hagkvæmasta sem völ er á, enda leggur atvinnurekandi til fé á móti.
Hægt að snúa við blaðinu á stuttum tíma
Það veitir mér mikla ánægju í starfi mínu að hitta ungt fólk og veita þeim ráðgjöf og upplýsingar sem hjálpar þeim að takast á við sín fjármál. Ég man t.a.m. vel eftir ungri konu sem kom til mín í fyrra. Hún var í dálitlu veseni með sín fjármál og ákvað að fylgja áætlun sem fólst í stuttu máli í því að hún greiddi niður skuldir og lagði um 10.000 krónur fyrir á mánuði. Eftir nokkra mánuði var staðan orðin allt önnur og betri og unga konan var afskaplega ánægð með að sér skyldi hafa tekist að sparast nokkra tugi þúsunda á stuttum tíma. Fjármál þurfa ekki að vera flókin.
Vigdís Gunnarsdóttir er sérfræðingur í einstaklingsþjónustu hjá Landsbankanum.









