Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Hagstofan launavísitölu fyrir október.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan nóvembermælingu vísitölu neysluverðs. Við eigum von á að verðbólgan hækki úr 4,5% í 5,0%. Auk þess birtir Hagstofan tölur um vöru- og þjónustuviðskipti á 3. ársfjórðungi og niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sinni fyrir október. Síldarvinnslan birtir uppgjör.
Mynd vikunnar
Óhætt er að segja að verðbólguhorfur hafi versnað verulega eftir því sem liðið hefur á árið í ár. Í verðbólguspá sem Seðlabankinn birti í febrúar gerði bankinn ráð fyrir að verðbólgan myndi toppa á 1. ársfjórðungi í ár og vera komin niður í markmið ári seinna. Í næstu þremur spám sem bankinn birti hækkaði hann verðbólguspá sína verulega. Í nýjustu spá er ekki gert ráð fyrir að verðbólgumarkmið náist á spátímabilinu. Þetta eru þær spár sem að peningastefnunefnd horfir á við vaxtaákvarðanir, en nefndin hefur hækkað vexti um 1,25 prósentustig frá því í maí.
Efnahagsmál
- Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði vexti bankans um 0,50 prósentustig í síðustu viku og eru meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, 2,0% eftir ákvörðunina. Þetta var meiri hækkun en við áttum von á, en við höfðum spáð 0,25 prósentustiga hækkun.
- Samhliða vaxtákvörðuninni birti Seðlabankinn nóvemberhefti Peningamála með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Bankinn hækkaði spá sína um bæði hagvöxt og verðbólgu á næstutveimur árum frá síðustu Peningamálum, sem komu út í ágúst.
- Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% milli mánaða í október. Fjölbýli hækkaði um 1,6% milli mánaða og sérbýli um 0,5%. Hækkunin milli mánaða á sérbýli er óvenjulítil en frá því í mars hefur sérbýli að jafnaði hækkað um rúm 2% milli mánaða. Hækkunin á fjölbýli er hins vegar sú mesta milli mánaða síðan í apríl á þessu ári. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs er 17,1% og hækkar um 0,5 prósentustig frá fyrri mánuði, þar af er árshækkun sérbýlis 21% og fjölbýlis 15,8%. Vísitala leiguverðs stóð hins vegar í stað milli mánaða í október.
- Mikill vöxtur mældist í kortaveltu Íslendinga í október. Samanlagt jókst kortavelta um 24% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Þar af jókst velta innanlands um 14% og velta erlendis jókst um 106%. Sé miðað við októbermánuð 2019, áður en faraldurinn skall á, mælist 13% aukning innanlands og 2% samdráttur erlendis. Við erum því nánast farin að eyða jafn miklu erlendis og var fyrir faraldur. Á sama tíma heldur neysla innanlands áfram að aukast.
- Hagstofan birti þjónustujöfnuð í ágúst, afla í október, skammtímavísa ferðaþjónustu í nóvember, tilraunatölfræði um látna eftir vikum og tilraunatölfræði um heimilsstörf.
- Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti niðurstöður úr könnun á stöðu leigjenda.
- Landsvirkjun birtu uppgjör fyrir fyrstu 9 mánuði ársins.
Fjármálamarkaðir
- Reitir, Brim og Iceland Seafood birtu uppgjör í síðustu viku.
- Arion banki og Marel héldu fjárfestadaga.
- Lánamál ríkisins héldu útboð ríkisvíxla og ríkisbréfa, Landsbankinn gaf út græn skuldabréf í evrum og Íslandsbanki stækkaði áður útgefinn grænan skuldabréfaflokk.
- Sértryggð skuldabréf Arion banka í evrum eru komin á lista yfir hæfar tryggingar í viðskiptum við Evrópska seðlabankann.