Samantekt
Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,1% milli febrúar og mars. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,7% en verð á sérbýli lækkaði um 1,8%. Talsvert flökt getur verið á verðþróun milli einstakra mánaða, sérstaklega á sérbýli, og því ekki óalgengt að það mælist af og til lækkun. Lækkunin nú er þó sú mesta sem hefur mælst milli mánaða síðan í ágúst 2014.
12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 3,6% og lækkar miðað við stöðuna í febrúar. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis mældist 1,8% í mars og hefur raunverð íbúða því hækkað um 1,8% horft 12 mánuði aftur í tímann og mælist 0,1 prósentustigi ofar hækkuninni í febrúar. Síðustu misseri hefur þróun íbúðaverðs verið með afar rólegum hætti og hækkanir í auknum mæli verið í takt við hækkanir á verðlagi annarra vara, með þeim afleiðingum að raunverðshækkanir eru nú minni en oft áður.
Viðskipti með íbúðarhúsnæði voru býsna mörg í mars og bendir ýmislegt til þess að staðan sé nokkuð góð á íbúðamarkaði. Vextir á íbúðalánum hafa víða lækkað og kaupmáttur hefur aukist. Allt frá því í febrúar 2019 hefur 12 mánaða hækkun kaupmáttar launa mælst ofar hækkun raunverðs íbúða. Það er því margt sem bendir til þess að íbúðakaup séu nokkuð hagstæð á þessari stundu. Á móti kemur þó að óvissa er afar mikil.