Hag­sjá: Fjár­lög 2019 – allt í járn­um!

Meirihluti fjárlaganefndar telur að áframhaldandi hækkun launagjalda á síðustu árum geti dregið úr svigrúmi til innviðauppbyggingar. Sé litið lengra aftur en til ársins 2011 kemur hins vegar í ljós að hlutur launa af útgjöldum er ekki hærri nú en oft hefur verið og sú staða ætti ekki að trufla útgjöld til annarra mála, t.d. uppbyggingar innviða.
30. nóvember 2018

Samantekt

Eftir að lögin um opinber fjármál tóku gildi hefur verið mun meiri festa í allri vinnu í kringum fjárlög. Nú er annarri umræðu lokið og var það mun fyrr en verið hefur síðustu ár. Yfirleitt verða ekki miklar breytingar á frumvarpinu milli annararrar og þriðju umræðu. Í rauninni ákvarða bæði fjármálastefna ríkisstjórnar og fjármálastefna ársins ramma fjárlagafrumvarps hverju sinni þannig að svigrúm til breytinga er verulega minna en var á árum áður.

Gerðar voru óverulegar breytingar við bæði tekju- og gjaldaáætlanir frumvarpsins. Á rekstrargrunni verða heildartekjur ársins því 892 ma. kr. og gjöld 863 ma. kr. Heildarafkoman verður því jákvæð um 28,9 ma. kr.

Stærstu breytingar á tekjuhlið voru 4 ma. kr. lækkun virðisaukaskatts og 1,7 ma. kr. hækkun tekjuskatts einstaklinga. Þá var bætt við áætluðum 2,7 ma. kr. tekjum af sölu koltvísýringslosunarheimilda í eigu íslenska ríkisins á uppboðsmarkaði á næsta ári. Á gjaldahlið var samþykkt að auka fjárheimildir um 3,8 ma. kr. vegna endurmats á launa-, gengis- og verðlagsforsendum. Nú er gert ráð fyrir 3,6% hækkun launa frá 1. apríl í stað 3,4% hækkunar. Það þýðir t.d. að bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka um 3,6% í stað 3,4%.

Töluverð umræða hefur verið um að aðhaldsstig ríkisfjármála sé ekki nógu mikið. Varað hefur verið við því að afgangur sé of lítill og að lítil frávik geti orðið til þess að halli myndist á rekstri ríkissjóðs. Í þessu sambandi má minna á kröfur félaga innan ASÍ til ríkissjóðs vegna komandi kjarasamninga. Af hálfu t.d. Seðlabankans og Fjármálaráðs hafa komið fram efasemdir um að stefnan í ríkisfjármálum og afkoma ríkissjóðs styðji nægilega vel við peningamálastefnuna til þess að tryggja betur æskilegt jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þrátt fyrir þetta viðrar meirihluti fjárlaganefndar þá skoðun að í núverandi stöðu geti verið eðlilegt að slaka á aðhaldinu og auka fjárfestingar í velferðarmálum, samgöngum og menntamálum og að nota megi svigrúm sem myndast vegna minni vaxtagreiðslna til þessara útgjalda.

Á síðustu árum hafa skuldir A-hluta ríkissjóðs lækkað mikið. Þær  voru um 42% af VLF í árslok 2015 og reiknað er með að þær verði 23% af VLF um næstu áramót. Þá eru uppi áætlanir um að greiddir verði árlega 7 ma. kr. inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þessar skuldbindingar eru verulegar og námu u.þ.b. 619 mö.kr. um síðustu áramót.

Minni skuldir fela að öðru jöfnu í sér lægri vaxtagjöld. Engu að síður voru áætluð vaxtagjöld ársins 2019 hækkuð um 2,7 ma. kr. í meðförum fjárlaganefndar. Þar var m.a. horft til nýrrar þjóðhagsspár og aukinnar verðbólgu. Þannig er gert ráð fyrir hækkun verðbóta um 2,3 ma. kr. vegna meiri verðbólgu og að nýr verðtryggður flokkur ríkisskuldabréfa var settur í sölu nú í lok nóvember og veður seldur áfram 2019.

Í greinargerð meirihluta fjárlaganefndar er bent á að launagjöld og almannatryggingar hafi hækkað hlutfallslega meira en önnur gjöld frá árinu 2011 og að fjárfesting og kaup á vörum og þjónustu hafi dregist hlutfallslega saman. Meirihlutinn telur þannig að launagjöld hafi hækkað mjög mikið á síðustu árum og haldi sú þróun áfram geti það dregið úr svigrúmi til innviðauppbyggingar. Sé litið lengra aftur en til ársins 2011 kemur hins vegar í ljós að hlutur launa af útgjöldum er ekki hærri nú en oft hefur verið og sú staða ætti ekki að trufla útgjöld til annarra mála, t.d. uppbyggingar innviða.

Í meirihlutaáliti fjárlaganefndar er fjallað um breytingar á vinnulagi nefndarinnar. Þar kemur fram að nefndin óski eftir afstöðu ráðherra um tillögur til breytinga á frumvarpinu áður en afstaða er tekin til málsins. Með þessum hætti er kannað hvort viðkomandi beiðni falli að stefnumörkun um málaflokkinn og hvort ráðherra hyggist gera samning við viðkomandi aðila. Tilgangurinn með þessari vinnuaðferð er sagður vera að tengja fjárbeiðnir betur við stefnumörkun í viðkomandi málefnaflokki til að mynda samfellu í fjárveitingum og tengingu við uppfærslu fjármálaáætlunar á næsta vori. Þetta vinnulag hlýtur að vekja upp þá áleitnu spurningu hvar fjárveitingavaldið liggi í raun og veru. Þetta verklag er væntanlega enn ein staðfestingin á því að sjálfstætt fjárveitingavald Alþingis er verulega takmarkað og að framkvæmdavaldið ráði mestu í þeim efnum.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fjárlög 2019 – allt í járnum! (PDF)

Þú gætir einnig haft áhuga á
Seðlabanki Íslands
7. okt. 2024
Vikubyrjun 7. október 2024
Peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði vexti í síðustu viku, í fyrsta sinn í fjögur ár. Stýrivextir eru nú 9% eftir að hafa staðið í 9,25% í meira en ár. Verðbólga á evrusvæðinu er enn á niðurleið og mældist 1,8% í september, undir 2% verðbólgumarkmiði. Verðbólgutölur í Bandaríkjunum verða birtar í þessari viku.
1. okt. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 1. október 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Byggingakrani og fjölbýlishús
30. sept. 2024
Vikubyrjun 30. september 2024
Verðbólga í september var nokkuð undir væntingum og lækkaði úr 6,0% niður í 5,4%. Þrátt fyrir það teljum við að peningastefnunefnd vilji sýna varkárni þegar hún hittist í byrjun vikunnar og haldi vöxtum óbreyttum á miðvikudaginn.
Bakarí
27. sept. 2024
Verðbólga undir væntingum annan mánuðinn í röð - lækkar í 5,4%
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,24% á milli mánaða í september, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 6,0% í 5,4%, eða um 0,6 prósentustig. Verðbólga hefur ekki mælst lægri síðan í desember 2021.
27. sept. 2024
Spáum varkárni í peningastefnu og óbreyttum vöxtum
Ýmis merki eru um nokkuð kröftuga eftirspurn í hagkerfinu þótt verðbólga sé á niðurleið og landsframleiðsla hafi dregist saman það sem af er ári. Kortavelta eykst statt og stöðugt á milli ára, íbúðaverð er á hraðri uppleið, velta á íbúðamarkaði er meiri en í fyrra og atvinnuleysi hefur ekki aukist að ráði. Við teljum að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum áfram óbreyttum í 9,25% í næstu viku, sjöunda skiptið í röð.
Þjóðvegur
23. sept. 2024
Vikubyrjun 23. september 2024
Í vikunni birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fjármálastöðugleikaskýrslu. Þá gefur Hagstofan út verðbólgumælingu fyrir septembermánuð á föstudag. Í síðustu viku gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs sem hækkaði talsvert á milli mánaða og vísitölu leiguverðs sem lækkaði á milli mánaða. Kortaveltugögn sem Seðlabankinn birti í síðustu viku benda til þess að þó nokkur kraftur sé í innlendri eftirspurn eftir vörum og þjónustu.
Alþingishús
16. sept. 2024
Vikubyrjun 16. september 2024
Í vikunni birtist meðal annars vísitala íbúðaverðs, vísitala leiguverðs og tölur um veltu greiðslukorta í ágúst. Í síðustu viku birtust tölur um fjölda ferðamanna sem hingað komu í ágúst, en þeir voru svipað margir og í ágúst í fyrra. Atvinnuleysi jókst lítillega á milli mánaða í ágúst. Fjárlög fyrir 2025 voru kynnt.
12. sept. 2024
Spáum að verðbólga lækki í 5,7% í september
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,08% á milli mánaða í september og að verðbólga lækki úr 6,0% niður í 5,7%. Við eigum von á áframhaldandi lækkun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 4,9% í lok árs.
9. sept. 2024
Vikubyrjun 9. september 2024
Í þessari viku ber hæst útgáfa á tölum um fjölda ferðamanna í ágúst og skráð atvinnuleysi á morgun. Í síðustu viku birtist fundargerð peningastefnunefndar þar sem fram kom að allir nefndarmenn voru sammála um að halda vöxtum óbreyttum á síðasta fundi, ólíkt því sem var síðustu þrjá fundi þar áður þar sem einn nefndarmaður vildi lækka vexti um 0,25 prósentustig.
6. sept. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - ágúst 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur