Loftslagsbreytingar framtíðar hafa strax áhrif á fjárfesta
Áhætta vegna loftslagsbreytinga er tvískipt. Í fyrsta lagi er rætt um raunlæga áhættu (e. physical risk) sem verður að veruleika á löngum tíma og lýsir sér í breytingum á veður- og náttúrufari, s.s. vegna hækkandi sjávarmáls, heitara loftslagi og breytingum á úrkomu, sem sums staðar eykst verulega en annars staðar verða þurrkar. Í öðru lagi er rætt um umbreytingaráhættu (e. transition risk) sem er hraðvirkari og lýsir sér í breyttu regluverki til að flýta fyrir þróun í átt að sjálfbærni, t.d. lögum og reglum sem takmarka eða skattleggja útblástur, og í breyttri hegðun neytenda. Umbreytingaráhætta vegna loftslagsbreytinga er mjög nærtæk og getur haft áhrif á skammtímafjárfestingar nú þegar.
Umbreytingaráhætta raungerist
Nýyfirstaðin málaferli gegn Royal Dutch Shell eru ágætt dæmi um hvernig umbreytingaráhætta hefur birst hjá alþjóðlegu hlutafélagi sem skráð er á markað, en félagið er stórtækt í framleiðslu á bensíni og öðrum vörum framleiddum úr jarðefnaeldsneyti. Félaginu var stefnt fyrir hollenskan dómstól fyrir að hafa hvorki dregið úr útblæstri né hafa trúverðugar áætlanir um hvernig félagið ætlar að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Málaferlin voru m.a. merkileg vegna þess að þegar olíufélög hafa fjallað um losun frá eigin starfsemi hafa þau fjallað um losun í framleiðsluferlinu og þar til eldsneytið er afhent viðskiptavinum. Þau hafa á hinn bóginn ekki birt upplýsingar um heildarlosun alls þess eldsneytis sem þau framleiða, enda sé það á ábyrgð notenda að ákveða hvort eldsneytið verði brennt. Á þessu tvennu er auðvitað verulegur munur.
Dragi úr útblæstri viðskiptavina um 40%
Mörgum að óvörum tapaði Shell málinu á fyrsta dómstigi. Þótt málinu hafi verið áfrýjað er ljóst að málareksturinn hefur aukið verulega óvissu í rekstri fyrirtækisins og getur til lengri tíma haft áhrif á hlutabréfaverð. Niðurstaða dómsins var að Shell var ekki einungis ábyrgt fyrir útblæstri við framleiðslu eldsneytis, heldur líka fyrir bruna eldsneytisins hjá viðskiptavinum sínum, hvort sem um er að ræða í bílum, flugvélum, skipum eða orkuverum. Dómurinn gerði Shell að draga úr losun frá framleiðslu og notkun eldsneytis, ekki bara sinni eigin heldur líka hjá notendum, um 40% miðað við losun árið 2019 og fyrir árið 2030.
Hagsmunirnir sem eru undir í þessu máli eru gríðarlegir. Shell áætlar að árið 2020 hafi losun gróðurhúsalofttegunda vegna bruna eldsneytis sem fyrirtækið framleiðir verið 576 milljónir tonna af koldíoxíðígildum (tCO2e). Til samanburðar er heildarlosun alls íslenska hagkerfisins um 1% af losun vegna Shell-eldsneytis.
Þrjár leiðir til að takast á við dóminn og engin þeirra auðveld
Ætli félagið að standa við þær kvaðir sem dómurinn lagði á það er ljóst að stórkostlegra aðgerða er þörf. En hvers eðlis eru þær aðgerðir? Hér er vert að skoða þrjá möguleika helst: kaup á losunarheimildum og kolefniseiningum, umbreytingu á viðskiptalíkani félagsins eða lagalegar undankomuleiðir.
Shell getur mögulega komist hjá vandanum að einhverjum hluta með því að kaupa losunarheimildir eða með því að borga fyrir kolefnisbindingu. Samkvæmt dómnum getur félagið þó einungis keypt slíkar heimildir fyrir lítinn hluta af heildarlosun sinni og þær einingar vega einungis á móti losun innan ákveðinna svæða. Fari félagið þessa leið mun verð eldsneytisins óhjákvæmilega hækka sem nemur kostnaði við kaup á losunarheimildum. Þessi verðmunur gæti mögulega haft áhrif á samkeppnishæfi félagsins, a.m.k. þar til sambærilegar kröfur verða lagðar á önnur olíufélög.
Félagið gæti einnig ákveðið að umbreyta viðskiptalíkani sínu og það er fordæmi fyrir slíku. Sum olíufélög hafa farið þá leið að skilgreina sig sem orkuframleiðendur fremur en framleiðendur jarðefnaeldsneytis. Það á t.d. við um Danish Oil and Natural Gas (DONG) sem nú kallast Ørsted og einbeitir sér nú að mestu að framleiðslu endurnýjanlegrar orku.
Nýlega tilkynnti Shell um flutning höfuðstöðva sinna frá Hollandi til Bretlands og vangaveltur hafa verið uppi um hvort tilgangurinn sé að komast undan áhrifum dómsins. Félagið hefur þó lýst því yfir að það muni hlíta niðurstöðum hollenskra dómstóla í málinu.
Verðþróun útblásturs
Það er athyglisvert að á meðan hlutabréfaverð Shell hefur lækkað um ca. 20% á undanförnum 5 árum hefur verð á heimildum til að losa gróðurhúsalofttegundir hækkað mikið. Losunarheimildir eru gefnar út til félaga í atvinnugreinum sem losa mikið af gróðurhúsalofttegundum. Í Evrópu eru meira en 11.000 orkuver og fyrirtæki sem falla undir það kerfi. Losi félögin meira en heimildinni nemur, verða þau að kaupa heimildir til að mæta þeim hluta sem uppá vantar. Blási fyrirtæki út gróðurhúsalofttegundum án þess að hafa fyrir því heimild getur Evrópusambandið beitt sektum. Árið 2021 nam sektin 100 evrum á hvert tonn koldíoxíðs.
Evrópskar losunarheimildir ganga yfirleitt undir skammstöfuninni EUA (European Union Allowance) og eru gefnar undir ETS-regluverki ESB (e. Emission Trading Scheme). EUA-einingar ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði. Frá 2005 til 2018 var verð á EUA-einingum nokkuð stöðugt en þá tók það að rísa nokkuð hratt og frá mars 2020, um það leyti sem Covid-19 skall á, hefur verðið hækkað um tæp 200% (sé litið til S&P GSCI Carbon Emission Allowance vísitölunnar). Frá því Shell beið lægri hlut fyrir hollenska dómstólnum hefur verð á EUA-einingum hækkað um nærri 70%. Fyrirkomulag ESB varðandi EUA-einingar er á þann veg að fyrirtæki fá í upphafi úthlutað heimildum, en það hlutfall losunar gróðurhúsalofttegunda sem fellur undir þennan ókeypis kvóta fer sífellt lækkandi. Hvati fyrirtækja til að draga úr losun eykst því með tímanum. Á myndinni hér fyrir ofan má sjá þróun S&P GSCI vísitölunnar sem fylgir verðþróun losunarheimilda.
Af ofangreindu er ljóst að með því að þekkja áhrif og eðli loftslagsbreytinga, hvar þær koma helst fram og hvenær, geta fjárfestar tekið betri og upplýstari ákvarðanir. Þeir geta dregið úr áhættu og komið auga á vænleg fjárfestingartækifæri strax í dag.
Guðmundur Karl er forstöðumaður og sjóðstjóri hjá Landsbréfum og stýrir sjóðnum Eignadreifing sjálfbær. Reynir Smári er sérfræðingur í sjálfbærni hjá Landsbankanum.