Met slegið á sterku Friðriksmóti Landsbankans

Vignir Vatnar Stefánsson vann Friðriksmót Landsbankans – Íslandsmótið í hraðskák, sem haldið var laugardaginn 9. desember 2023, með fáheyrðum yfirburðum. Þar með tryggði Vignir sér Íslandsmeistaratitilinn í hraðskák en hann er einnig Íslandsmeistari í skák.
Vignir hlaut 12½ vinning af 13 mögulegum sem er met. Mótið hefur aldrei unnist með svo mörgum vinningum og með svo miklum mun. Aðeins Björn Þorfinnsson náði jafntefli við kappann.
Jón Viktor Gunnarsson varð í 2. sæti með 10 vinninga. Áðurnefndur Björn varð í 3.-4. sæti ásamt Hilmi Frey Heimissyni með 9½ vinning. Helgi Ólafsson og Helgi Áss Grétarsson urðu í 5.-6. sæti með 9 vinninga.


Þetta var í 20. skipti sem Friðriksmótið er haldið. Mótið fór áður fram í afgreiðslusal Landsbankans í Austurstræti 11 en var nú í fyrsta skipti haldið í nýjum húsakynnum bankans við Reykjastræti 6. Mótið var mjög sterkt. Alls tóku 90 keppendur þátt, þar af sex stórmeistarar.









