Ný útgáfa af almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans
Landsbankinn hefur gefið út nýja útgáfu af almennum viðskiptaskilmálum. Með útgáfunni eru uppfærð ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga, ákvæði um reikninga og greiðslur í erlendum gjaldmiðli og viðmiðunargengi, sem og ákvæði um upplýsingagjöf og tilkynningar til viðskiptavina bankans. Nýju skilmálarnir gilda frá og með 1. september 2019 gagnvart nýjum viðskiptavinum en frá og með 1. nóvember 2019 gagnvart núverandi viðskiptavinum.
Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans (ný útgáfa)
Helstu breytingar á almennum viðskiptaskilmálunum eru eftirfarandi:
- Upplýsingagjöf og tilkynningar til viðskiptavina (greinar 1.2, 2.9, 4.4 og 4.6): Opnað er fyrir fleiri samskiptaleiðir milli bankans og viðskiptavinar varðandi skilaboð, upplýsingar og tilkynningar vegna viðskipta við bankann, t.d. breytingar á skilmálum, vöxtum og kostnaði.
- Vinnsla persónuupplýsinga (grein 2.1): Ákvæði um heimildir bankans til vinnslu persónuupplýsinga eru skýrð. M.a. er bætt við ákvæðum um fræðslu að því er varðar upplýsingar sem bankinn kann að sækja til þriðju aðila í tilefni af afgreiðslu á beiðni viðskiptavinar um útlán, sem og miðlun upplýsinga um útlán og skuldastöðu viðskiptavinar til þriðju aðila í tilefni vanskila.
- Reikningar og greiðslur í erlendum gjaldmiðlum og viðmiðunargengi (grein 4.5): Kveðið er á um að gengi til útreiknings á erlendum færslum greiðslukorta og færslum í annarri mynt en grunnmynt greiðslukorts taki breytingum sem byggjast á breytingum á gengisskráningu hjá viðkomandi kortafyrirtæki auk álags eða eftir atvikum affalla.
Í samræmi við ákvæði laga um greiðsluþjónustu hefur núverandi viðskiptavinur rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamnings um greiðsluþjónustu fyrir 1. nóvember 2019 ef hann samþykkir ekki breytingarnar. Núverandi viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir 1. nóvember 2019.