Landsbankinn tekur þátt í stofnun Samtaka um ábyrgar fjárfestingar
Samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi voru stofnuð 13. nóvember sl. Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Landsbankinn er eitt af 23 fyrirtækjum sem tók þátt í stofnun samtakanna.
Stofnaðilar Samtaka um ábyrgar fjárfestingar eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi og styðja tilgang samtakanna. Á meðal stofnaðila voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki.
Vettvangur fyrir fræðslu og umræðu
Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Samtökin munu því sem slík ekki taka afstöðu til álitamála er varðar umrædd málefni. Enskt heiti samtakanna er IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum).
Stjórn félagsins skipa Arnór Gunnarsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS, Davíð Rúdólfsson, forstöðurmaður eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, Jóhann Guðmundsson, sérfræðingur í eignastýringu hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna, Kristín Jóna Kristjánsdóttir, fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum, og Kristján Geir Pétursson, lögfræðingur hjá Lífeyrissjóðnum Birtu. Hrefna Ösp er stjórnarformaður samtakanna og Davíð Rúdólfsson er varaformaður stjórnar.
Ábyrgar fjárfestingar eru arðbærari
Í viðtali sem birt var á Umræðunni segir Gil Friend, einn helsti sérfræðingur heims í innleiðingu samfélagsábyrgðar, að með því að huga að umhverfismálum, jafnréttismálum, stjórnarháttum og öðrum félagslegum þáttum geti fyrirtæki náð fram arðbærari fjárfestingum.
Viðtal við Gil Friend á Umræðunni
Skýr stefna um ábyrgar fjárfestingar
Landsbankinn hefur markað sér skýra stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Stefnan er sett með hliðsjón af reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) sem bankinn er aðili að. Stefnan tekur mið af reglum Landsbankans sem m.a. fjalla um áhættuvilja, stórar áhættuskuldbindingar og hámark heildaráhættu, rekstraráhættu, orðsporsáhættu, lausafjáráhættu og góða stjórnarhætti.