Okk­ur var lof­að svif­brett­um

Dagurinn 21. október 2015 var vonbrigði aldarinnar. Ég man ég vaknaði með örlitla von í hjarta um að framtíðin væri loksins komin. En þegar ég leit út um gluggann sá ég ekkert nema sama gamla nútímann. Engir fljúgandi bílar. Engin svifbretti. Engar klósettrúllur sem eru líka faxtæki.
4. október 2017

Svo það sé á hreinu þá er 21. október 2015 sko dagurinn sem Marty McFly og Doc Brown heimsækja í DeLorian tímavélinni í Back to the Future 2 (næstflottasta tímavélin, símaklefinn hans Doctor Who er enn í fyrsta sæti). Sú ágæta mynd, sem kom út árið 1989, lofaði okkur nefnilega ágætri framtíð. Ekki vélmenni-munu-ganga-á-beinum-okkar framtíð eins og í Terminator, heldur vélmenni-munu-fara-út-með-hundinn-okkar framtíð.

Hugleikur Dagsson fjallar um framtíðina í vísindaskáldsögum

En áður en ég hrauna yfir hvað Back to the Future 2 var rangspá skulum við aðeins fara yfir þau örfáu atriði sem hún spáði rétt:

 1. Flatskjáir. Jú, fyrirbærið sem var pönslænið í öllum spaugstofubröndurunum árið 2007 var einu sinni blautur draumur allra innipúka.
 2. Vídeóspjall. Viðskiptafundir í gegnum myndsíma var vísindaskáldkapur á síðustu öld. Í dag eru Skype fundir ekki bara daglegt brauð heldur hefur unga kynslóðin tileinkað sér þessa tækni í gegnum Snapchat og með tilheyrandi regnbogaælu.
 3. Holograms. Eða almyndir eða heilmyndir eða hvað það er sem íslenskufasistar eru að reyna að kalla það. Hologram hákarlinn sem gleypir Marty var alltaf uppáhalds atriðið mitt í myndinni. Í dag hafa vísindamenn fullkomnað þessa tækni, sem er gott og blessað. Þeir lífguðu meiraðsegja Michael Jackson við með því að láta hologram af honum syngja á einhverri tónlistarhátíð, sem einhverra hluta vegna er miklu meira ógnvekjandi en fljúgandi hákarl.

Jújú, allt voða flott. En nú skulum við renna yfir nokkur af þeim fjölmörgu atriðum myndarinnar sem urðu ekki að veruleika:

 1. Líkamsræktar-kaffihús. Í myndinni eru hlaupabretti í kaffihúsum. Ég verð fertugur í þessari viku og hef aldrei farið í ræktina. Ég myndi kannski drullast þangað ef ég fengi expressó og beikon meððí.
 2. Lýtalækningar sem virka. Samkvæmt myndinni eigum við núna að geta fengið okkur svona facemask sem bókstaflega yngir okkur um áratugi án þess að við lítum út eins og svipbrigðalausu skrímslin sem við sjáum í The Real Housewifes of Who Cares.
 3. Fljúgandi bílar. Ég hef aldrei haft neinn sérstakan áhuga á bílum, en eftir þessa mynd varð þetta vinsælasta farartæki nútímans enn ómerkilegra í samanburði við fljúgandi DeLorian-inn. Ég meina; hversu takmarkaður fararskjóti er dekkjabíllinn? Hann er ekki aðeins bundinn við jörðina heldur líka við götur og gatnakerfi. Svo þarf maður að hægja á sér í íbúðahverfum til að klessa ekki á börn. Hversu leim!? Á fljúgandi bíl getur maður bókstaflega dregið beina línu milli A og B og komist í Kringluna án þess að spá hvort sé betra að fara Bústaðaveginn eða Hringbraut. Svo getur maður lagt samsíða milli tveggja bíla án þess að læra algebru. Ekkert smá-vinstri-smá-hægri-smá-áfram-smá-aftur-og-svo-aftur-vinstri-kjaftæði. Bara niður.
 4. Svifbretti. Svo virðist sem höfundar myndarinnar hafi lítið álit haft á dekkjum. Og það er rétt, hjólabretti framtíðarinnar verða mun flottari ef við fjarlægjum hjólin og setjum í staðinn einhvern svifbúnað. Af hverju setjum við ekki bara drónahreyfla undir brettin? Það er kominn tími til að drónar geri meira en að sprengja terrorista og sendast með pizzur.
 5. Sjálfreimandi skór. Reyndar er Nike víst að þróa skó sem reima sig sjálfir. Sérstaklega hannaðir fyrir íþróttafólk sem nennir ekki að reima skóna. Já þið lásuð rétt. Íþróttafólk sem NENNIR ekki að reima skóna. Ameríka þú ert frábær.

Back to the Future 2 lofaði okkur reyndar líka tímavél árið 1985. Það hefði átt að vera vísbending númer eitt tvö og þrjú um að hér væri fyrst og fremst bara afþreying á ferðinni. Ég hefði kannski mátt einblína minna á vísindin og meira á skáldskapinn í þessum vísindaskáldskap. Þetta átti ekki að vera vælupistill vonsvikna Nexusnördsins. Svona myndir lofuðu okkur bara svo mörgu flottu. Jájá, snjallsímar eru voða flottir, en þeir eru engin geislasverð.

Star Wars er mikilvægasta menningarfyrirbæri 21. aldarinnar, Manchester United nördanna. Ég er ennþá ófær um að ganga framhjá gjafapappírsrúllu án þess að fara í geislasverða-þykjustuleik. Ég var sex ára þegar ég sá Return of the Jedi og gat ekki beðið eftir að heimurinn yrði svona. „Hvaða ár gerist Starvos?“ spurði ég mömmu. Hún útskýrði fyrir mér að samkvæmt upphafstitlunum þá gerðist hún fyrir langa löngu í allt öðru stjörnukerfi. Neðri vör mín titraði af vonbrigðum. Ég var ekki bara löngu búinn að missa af geislasverðunum, heldur hefði ég hvort eð er aldrei getað nálgast þau því þau voru fundin upp í aaaallt öðru póstnúmeri.

Það var svona sem áhugi minn á kvikmynduðum framtíðarspám kviknaði. Ég leigði allt sem hét star-eitthvað eða space-eitthvað. Ef titlarnir framan á spólunni voru svona glansandi bláir metal stafir þá leigði ég hana. Sérstaklega myndir sem gerast í nógu nálægri framtíð til að ég gæti upplifað hana. En viti menn, veruleikinn reyndist alltaf jafn áreiðanleg vonbrigði, ár eftir ár. Hér koma nokkur dæmi um ár sem urðu ekkert eins og bíómyndirnar sem þær gerast:

 • 1994: Tímavélar höfðu ekki verið fundnar upp eins og í Timecop. Sem þýðir að engin tímalögga getur hoppað í splitt eins og Jean Claude Van Damme.
 • 1996: Engin frystifangelsi fyrir Sylvester Stallone eins og í Demolition Man. Ímyndið ykkur ef við hefðum fryst Stallone árið 1996. Þá hefðum við getað komið í veg fyrir ekki eina, ekki tvær heldur þrjár Expendables myndir.
 • 2001: Engar morðóðar tölvur með seiðandi rödd eins og í 2001: A Space Odyssey.
 • 2012: Will Smith er ekki eini maðurinn í heiminum eins og í I Am Legend. (Djöfull held ég að Will Smith hafi sagt já um leið og hann las titilinn á því handriti: „Það er satt. Ég er legend“.
 • 2017: Enginn raunveruleikaþáttur þar sem Arnold Schwarzenegger er að berjast fyrir lífi sínu eins og í The Running Man. Það mest spennandi sem Arnie er að gera núna er að rífast við Trump á Twitter.

Eftir á að hyggja er frekar fínt að þessar myndir rættust ekki því þær eru allar aðeins of svartsýnar. Kannski er verið að segja okkur að horfa á björtu hliðarnar. Heimurinn gæti verið verri. Og jújú, eins kúl og það er keyra um eyðimörkina og spreyja tennurnar með krómi eins og í Mad Max þá hugsa ég að það verði svolítið einsleitt til lengdar. Eins spennandi og risaeðludýragarðar eru á pappír þá hafa heilar fjórar kvikmyndir kennt okkur að það endar alltaf með mannakjöti á matseðlinum.

Ég hef líka tekið eftir að svartsýnisspám í bíó fjölgar með hverju árinu. Tortíming mannkyns er orðin svo algengt viðfangsefni að við geispum þegar við sjáum stórborgir hrynja á hvíta tjaldinu. Hvíta húsið springur? Boring. Independence Day gerði það fyrir löngu.

Kannski eru heimsendamyndir svona algengar í dag því þær eru að undirbúa okkur undir það versta. Sem fræðilega gæti gerst hvenær sem er. Afsakið hvað ég er glúmí en maðurinn í hvíta húsinu með litla puttann sinn á stóra rauða takkanum er ekki beint yfirveguð týpa. Eiginlega bara frekar glötuð týpa. Sem truflar mig satt að segja meira en tortíming mannkyns. Að enda mannkynssöguna með kjarnorkustyrjöld væri mega fúlt. En það er töluvert verra ef fyrrverandi raunveruleikastjarna gerir það. Má ég þá frekar biðja um krómuð beinagrindavélmenni eins og í Terminator. Say what you want about morðóða gervigreind en hún er allavega meira kúl en appelsínuguli kallinn með ljóta hárið.

Vúbbs. Ég ætlaði að hætta þessu nördatuði en svo hélt ég bara áfram. Endum þetta á einhverju jákvæðu. Sko, Back to the Future 2 er jákvæða undantekningin í hafsjó af mögulegum martröðum. Þess vegna er frekar fúlt að hún hafi ekki ræst meir en hún gerði. En það þýðir ekki að heimurinn hafi ekki batnað á þessari öld. Engin mynd hefði getað séð fyrir öll þau litlu kraftaverk sem hafa poppað upp á síðustu árum. Til dæmis snjallsímar og… já. Bara snjallsímar.

Það er eiginlega það eina sem hefur breyst. Við erum öll með flatskjá í vasanum. Og það er voða vinsælt að kvarta yfir því hvað allir eru alltaf í símanum en ég ætla ekki að gera það. Það er bara frábært. Sumir segja að samfélagsmiðlar séu fullir af neikvæðni en er það ekki bara gott? Er ekki betra að fólk æli sinni gremju á Facebook heldur en framan í hvort annað? Kannski er það einmitt það sem forseti Bandaríkjanna er að gera. Kannski er bara fínt að hann sé bara á Twitter. Kannski eyðir hann orku þar sem hann myndi annars eyða í að sprengja heilu löndin í klessu. Ef maður spáir í því þá er Twitter kannski bara að bjarga jörðinni.

Við fengum kannski ekki svifbretti en við getum alla vega tekið selfie með hundaeyrum. Það er eitthvað.

Og já, Blade Runner 2049 gerist eftir 32 ár. Það eru fljúgandi bílar í henni. Það er ennþá tími.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Ferðamenn á jökli
9. júní 2021

Tölum íslensku um sjálfbærni

Þegar nýjar hugmyndir, tækni eða aðferðir ryðja sér til rúms á Íslandi koma þær oft erlendis að og fagorðin eru gjarnan á ensku. Það er hætt við því að erlend fagorð torveldi okkur skilning á nýjungum og festi þær í einhverjum fílabeinsturni, sem er miður – nógu erfitt er samt að setja sig inn í umræðuna eða læra á ný tæki.
31. maí 2021

Fjárfestum í framtíðinni

Fjárfestar hafa í auknum mæli tileinkað sér aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Ekki að ástæðulausu, þar sem rannsóknir sýna fylgni milli góðs árangurs fyrirtækja í sjálfbærnimálum og arðsemi í rekstri til lengri tíma.
5. maí 2021

Hreystineistinn kveiktur hjá krökkunum

„Tilgangur Skólahreysti var að kveikja aftur þennan hreystineista sem okkur fannst vera að deyja út,“ segir Andrés Guðmundsson, sem stofnaði keppnina með eiginkonu sinni, Láru B. Helgdóttur, árið 2005. Skólahreysti öðlaðist fljótt miklar vinsældir meðal krakkanna og síðustu tíu árin hafa um 110 af 120 skólum á landinu tekið þátt í keppninni.
Vindmyllur í Búrfellslundi.
2. mars 2021

Græn fjármögnun er allra hagur

Hjá Landsbankanum hefur um árabil verið lögð áhersla á sjálfbærni. Undanfarið hafa stór skref verið tekin í grænni fjármögnun bankans og starfsemi síðasta árs hefur fengið alþjóðlega vottun á kolefnisjöfnun.
28. jan. 2021

Persónuvernd og öryggi barna á netinu

Fullorðnir bera ábyrgð á að börn fái að kynnast ólíkum miðlum og þeim tækifærum sem felast í net- og snjallsímanotkun. Foreldrar þurfa einnig að vera vakandi yfir því hvað börnin þeirra eru að gera á netinu.
Fjöll
27. jan. 2021

Ný fjármálaumgjörð vegvísir að sjálfbærri framtíð

Bankar víða um heim gefa í síauknum mæli út svokallaðar sjálfbærar fjármálaumgjarðir sem stýra fjármagni í átt að sjálfbærum verkefnum og skilgreina sjálfbær verkefni. Landsbankinn hefur nú bæst í hópinn og gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð í fyrsta sinn. En hvers vegna og hvað þýðingu hefur þessi útgáfa?
Guðrún Tinna Ólafsdóttir
18. jan. 2021

Svanni veitir góðum hugmyndum kvenna brautargengi

 „Svanni eflir konur í fyrirtækjarekstri og gerir þeim kleift að framkvæma góðar hugmyndir. Þannig stuðlar hann að nýsköpun og blómlegu atvinnulífi,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, stjórnarformaður Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Landsbankinn er bakhjarl sjóðsins sem hefur opnað fyrir umsóknir.
Dagatal Landsbankans 2021
22. des. 2020

Dagatal Landsbankans 2021: Tækniframfarir og samfélagsbreytingar

Aðlögunarhæfni mannskepnunnar er ótrúleg sem er ómetanlegt í heimi sem tekur jafn örum breytingum og sá sem við byggjum. Hugviti mannfólksins virðist lítil mörk sett og hraði tækniþróunar slíkur að erfitt getur verið að átta sig á því hversu mikið hefur breyst á stuttum tíma.
Starfsfólk í hjálparstarfi
18. des. 2020

Fólk vill láta gott af sér leiða

Hjálpar- og styrktarfélög hafa ekki farið varhluta af heimsfaraldri og öllum þeim nýju lögmálum og siðum sem heimurinn hefur þurft að tileinka sér árið 2020.
Vindmyllur
19. nóv. 2020

Mikilvægt að þekkja raunveruleg umhverfisáhrif banka

Í gegnum tíðina hafa umhverfisáhrif banka gjarnan verið talin smávægileg. Bankar eru að upplagi skrifstofufyrirtæki og rekstur þeirra krefst ekki beinnar notkunar á auðlindum eða mengandi efnum í stórum stíl. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því ekki verið sett undir sama hatt og verksmiðjur, flugfélög eða önnur starfsemi sem sýnilega hefur bein áhrif á umhverfið. Í dag er hinsvegar gerð skýr krafa um að bankar mæli og greini frá óbeinum umhverfisáhrifum sínum.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur