Það er alltaf meira en nóg að gera í vinnunni. Um mánaðamót leita allt að 70 pólskumælandi viðskiptavinir til mín á dag,“ segir Agnieszka Narkiewicz-Czurylo, þjónustufulltrúi í útibúi Landsbankans í Borgartúni. „Þótt þau sem koma til mín tali annað hvort ensku eða íslensku finnst mörgum þægilegt að tala „bankamál“ á móðurmálinu og vilja því fá aðstoð frá pólskumælandi starfsfólki. Mörgum þykir líka gott að hitta starfsfólk bankans augliti til auglitis,“ segir hún. Agnieszka talar einnig rússnesku og til hennar leita margir rússneskumælandi viðskiptavinir, m.a. eldra fólk frá Eystrasaltsríkjunum sem talar oft betri rússnesku en ensku.
Agnieszka Marzok (t.v.) og Agnieszka Narkiewicz-Czurylo (t.h.)
Margt breyst með pólska netbankanum
Agnieszka Narkiewicz-Czurylo hefur unnið hjá Landsbankanum í tíu ár. Hún segir mjög margt hafa breyst eftir að viðskiptavinir fóru að geta framkvæmt erlendar millifærslur á rafrænan hátt í netbanka einstaklinga og nú í appinu. „Áður fyrr fór mikill tími hjá mér í að gera erlendar millifærslur, enda senda margir Pólverjar peninga til fjölskyldna sinna í Póllandi. Núna hefur verulega dregið úr því og fólk framkvæmir slíkar millifærslur bara sjálft í netbankanum og í appinu. Netbanki einstaklinga og Landsbankaappið eru líka með pólskar útgáfur sem eru mjög mikið notaðaðar. Hluti af okkar starfi er að kenna fólki að nýta sér netbankann, appið og aðrar sjálfsafgreiðslulausnir og það hefur gengið mjög vel,“ segir hún.
Fékk strax góða tilfinningu fyrir Íslandi
Agnieszka Narkiewicz-Czurylo kom fyrst til Íslands í júlí árið 2005 á ferðalagi með syni sínum og fékk það strax á tilfinninguna að þetta væri landið hennar. „Ég fékk strax góða tilfinningu og þegar ég kom heim til Póllands sagði ég við manninn minn að við myndum flytja til Íslands. Það gerðum við svo um haustið ásamt syni okkar eftir að ég hafði fengið vinnu sem þerna á Hótel Sögu. Dóttir mín fæddist hér. Ég lagði strax mikla áherslu á að læra íslensku og tók mörg námskeið. Mér datt ekki í hug að ég gæti unnið sem þjónustufulltrúi hér þótt ég hefði starfað á því sviði í yfir níu ár í Póllandi. Ég hélt að tungumálið kæmi í veg fyrir það. En tveimur árum síðar ákvað ég að slá til og sækja um í Landsbankanum eftir að samstarfsfólk mitt á Landakotsspítala, þar sem ég starfaði sem aðstoðarmaður sjúkraþjálfara, hafði ítrekað hvatt mig til þess. Ég var strax kölluð í viðtal. Ég var harðákveðin í að tala einungis íslensku því ég vildi að þau vissu nákvæmlega hvar ég stæði í tungumálinu. Ég fékk starfið og byrjaði í mars 2008, rétt fyrir hrun, og áður en ég vissi af stóðu pólskir viðskiptavinir í röð fyrir framan borðið mitt. Fyrst fékk ég ekki viðskiptafræðimenntun mína frá Póllandi metna, þótt ég sýndi skírteinið frá pólska háskólanum mínum. Ég prófaði svo aftur nokkrum árum síðar og þá fékk ég það í gegn og get núna notað titilinn viðskiptafræðingur. Auk þess kláraði ég BA-próf í íslensku sem annað mál með rússnesku sem aukagrein,“ segir hún.
Innskráningarsíða pólsku útgáfu netbanka einstaklinga
Færði sig úr mötuneytinu í Þjónustuverið
Agnieszka Marzok starfar sem þjónustufulltrúi í Þjónustuveri Landsbankans í Hafnarstræti og aðstoðar viðskiptavini símleiðis. Hún segist nánast aldrei hafa fundið fyrir fordómum þótt svo að fólk heyri á hreimnum að hún sé ekki af íslenskum uppruna. „Ég var stessuð fyrst og óttaðist að ég fengi neikvæð viðbrögð frá íslenskum viðskiptavinum, en það eru nánast allir jákvæðir og hrósa mér fyrir góða íslensku. Ég hafði áður unnið í mötuneyti Landsbankans í tíu ár og langaði að breyta til. Ég sóttist eftir því og bauðst að starfa í Þjónustuverinu. Ég var ekki viss um að ég gæti það en það hefur gengið vel og ég er mjög ánægð í því starfi. Það er góðri samstarfskonu minni í mötuneytinu að þakka að ég tala svona góða íslensku. Hún hreinlega neitaði að tala við mig á ensku, strax frá fyrsta degi, svo ég komst ekki upp með neitt annað en að tala íslensku sama hvað gekk á. Þetta er besta íslenskukennsla sem ég hef fengið.“
Rómantísk miðbæjarrotta
Hún var ekki jafn ánægð og nafna sín þegar hún fyrst kom til Íslands sem au-pair í mars 2001. Íslandsdvölin átti einungis að vera eins árs ævintýri.„Þetta var í rauninni draumurinn hennar mömmu sem hvatti mig til að koma hingað. Ég vissi ekki mikið um Ísland og var ekki mjög ánægð til að byrja með en núna finnst mér yndislegt að búa hérna. Á þessum tíma fannst mér kalt og allt frekar ómögulegt og ég hugsaði með mér hvað í ósköpunum ég væri að gera hérna. En svo fór ég að kynnast fólki og skemmta mér með vinkonum mínum. Ég átti heima í miðbænum og var svokölluð miðbæjarrotta. Skömmu áður en ég átti að snúa aftur heim til Póllands kynnist ég manninum mínum og hef verið hér síðan með minni fjölskyldu,“ segir hún.
Agnieszka Narkiewicz-Czurylo að störfum í útibúi Landsbankans í Borgartúni
Vinna náið saman
Nöfnurnar vinna náið saman. Agnieszka Narkiewicz-Czurylo segir að eftir að nafna hennar byrjaði að vinna í Þjónustuverinu hafi hún getað einbeitt sér meira að þeim viðskiptavinum sem mættu í útibúið og nafna hennar tekið símtölin á meðan. Iðullega sé haft samband við þær úr útibúum bankans á landsbyggðinni og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu til að leysa úr málum pólskumælandi viðskiptavina þar. Agnieszka Marzok bendir kímin á að á Facebook-síðu Pólverja á Íslandi hafi í gegnum tíðina reglulega verið bent á Agnieszku Narkiewicz-Czurylo sem góðan ráðgjafa í fjármálum. Stundum sé hún meira að segja spurð í símann hvort hún sé „fræga“ Agnieszka í Landsbankanum, en hún segist þá í léttum tón vera „hin“ Agnieszkan.
Erindin af ýmsum toga
Þær segja að erindi pólskumælandi viðskiptavinanna séu af ýmsum toga, eins og gengur og gerist. Leitast sé eftir ýmiskonar ráðgjöf um skattamál og lífeyrisréttindi, aðstoð við greiðslumat og erlendar millifærslur, svo eitthvað sé nefnt.
Undanfarin tvö til þrjú ár hafi mikið verið spurt um íbúðalán. Sérstaklega þurfi að fara yfir verðtryggðu lánin en verðtrygging þekkist ekki í Póllandi. Einnig þarf að útskýra viðbótarlífeyrissparnaðinn sérstaklega þar sem lífeyrismálum er aðeins öðruvísi farið í Póllandi. Þá hafa pólskumælandi viðskiptavinir til að mynda spurt út í hvað þeir eigi að gera þegar fyrirtæki sem þeir starfa hjá vilji ekki eða hafi ekki borgað í lífeyrissparnað sem skyldi. Sumir viðskiptavinanna vita jafnvel ekki af réttindum sínum. „Við hvetjum þá til að vera vakandi, skoða launaseðlana vel og vera í sambandi við sitt stéttarfélag ef þeim sýnist að ekki sé allt eins og það á að vera,“ segir Agnieszka Narkiewicz-Czurylo.
Agnieszka Marzok að störfum í þjónustuveri Landsbankans
Unga fólkið blæs nýju lífi í menningarlífið
Í byrjun árs 2018 voru um 17.000 einstaklingar frá Póllandi hér á landi, eða 38,8% allra innflytjenda. Nöfnurnar benda á að þeim finnist pólska samfélagið á Íslandi vera að blómstra þessi misserin og miklu meira í boði en þegar þær komu hingað. Þá hafi Pólverjar einkum komið hingað til að vinna verktakavinnu en nú verði þær varar við meiri fjölbreytni í hópnum. Fleiri komi til að ferðast, kynnast landinu og taka myndir og vinni kannski á meðan. Fólk komi til að fara í háskóla og fleiri listamenn eru áberandi. Pólskar kvikmyndir eru mun oftar sýndar núna í Bíó Paradís, jafnvel myndir sem enn eru í sýningu í Póllandi. Teiknimyndir fyrir börn eru sýndar í bíó með pólskri talsetningu. Mikið líf er í kringum pólska skólann. „Mörg börn sem fæddust hérna eða komu til Íslands mjög lítil og ólust upp við pólska og íslenska menningu eru orðin fullorðin og það er gaman að fylgjast með þessu unga fólki blása nýju lífi í menninguna,“ segir Agnieszka Marzok og nafna hennar tekur undir.
Fleira starfsfólk bankans hefur erlend tungumál á valdi sínu s.s. búlgörsku, ensku, frönsku, pólsku, rússnesku, spænsku eða norðurlandamál.