Mennt er mátt­ur – en teng­ist ekki alltaf starf­inu

Hlutfall þeirra sem útskrifast úr háskóla hefur hækkað mikið en um leið virðist sem erfiðara sé fyrir háskólamenntað fólk að fá störf við hæfi og atvinnuleysi í þeirra hópi hefur aukist. Þá er ljóst að mörg sem eru með eftirsóknarverða menntun ákveða að vinna við störf þar sem verðmætrar menntunar þeirra er ekki krafist.
4. febrúar 2019

Máltækið um að mennt sé máttur hefur lengi verið samgróið við hugsanagang þjóðarinnar. Þess hefur heldur betur gætt undanfarin ár því stórfjölgað hefur í flokki háskólamenntaðra. Árið 2008 voru 32% af vinnuaflinu á Íslandi með háskólamenntun en árið 2017 var hlutfallið komið í 42%(1).

Töluverður munur er á kynjunum í þessu sambandi því konur eru mun líklegri til að ljúka háskólamenntun. Árið 2017 voru rúmlega 50% kvenna með háskólamenntun en um 35% karla.

Álíka hátt hlutfall karla og kvenna var með grunnmenntun á árinu 2017 (karlar 23,2%, konur 22,5%). Karlar voru á hinn bóginn mun líklegri til að hafa einungis lokið framhaldsskólamenntun, t.d. úr iðnskóla eða menntaskóla en þá höfðu um 42% karla lokið framhaldsskólamenntun en ekki lokið námi á hærra skólastigi en um 29% kvenna. Það er algengara að karlar láti framhaldsskólamenntun duga en konur leita frekar eftir háskólamenntun.

Þróun margra síðustu ára

Á árinu 1997 brautskráðust rúmlega 1.600 manns úr háskóla sem þá var um 2,5% af íbúum landsins á aldrinum 25-40 ára. Á þessum tíma voru konur um 63% þeirra sem brautskráðust. Á árinu 2016 brautskráðust um 4.600 manns úr háskóla eða um 6% af íbúum á aldrinum 25-40 ára. Þá voru konur um 66% brautskráðra.

Á árinu 2016 brautskráðust þannig 4% karla á aldrinum 25-40 ára úr háskóla og 8,2% kvenna.

Fylgir sköpun viðeigandi starfa með aukinni menntun?

Á hátíðarstundum er oft rætt um nauðsyn aukinnar menntunar og að hér verði til góð störf fyrir vel menntað fólk. Margt bendir á hinn bóginn til þess að sköpun nýrra og viðeigandi starfa hafi ekki haldist í hendur við aukið menntunarstig. Í því sambandi má t.d. benda á ferðaþjónustuna sem hefur „gleypt“ mestan hluta nýrra starfa á síðustu árum en stór hluti starfa innan ferðaþjónustunnar krefst ekki mikillar menntunar. Að sama skapi má segja að fjármálageirinn hafi tekið á móti fjölda háskólamenntaðra starfsmanna á árunum fyrir hrun. Það er því mikill munur á uppgangi fjármálageirans og uppgangi ferðaþjónustunnar hvað varðar störf fyrir háskólamenntaða.

Sé horft á málið frá hinni hliðinni eru til dæmi um starfshópa sem kjósa að vinna við önnur störf en þeir menntuðu sig til. Á síðustu misserum hefur t.d. verið rætt um fjölda leikskólakennara sem kjósa að vinna annars staðar. Hið sama eigi við um hjúkrunarfræðinga sem eru sagðir hafa sótt í önnur störf, m.a. sem flugliðar.

Aukið atvinnuleysi háskólamenntaðra

Þessa stöðu, að háskólamenntað fólk fái ekki störf við hæfi, má sjá í atvinnuleysi háskólamenntaðra sem hefur aukist mikið á síðustu árum.

Á árinu 2000 voru að meðaltali um 160 háskólamenntaðir á atvinnuleysisskrá og 220 á árinu 2007. Atvinnuleysi jókst mikið eftir hrun og á árinu 2009 var það í hámarki. Að jafnaði voru um 2.200 háskólamenntaðir atvinnulausir á árinu 2009.

Atvinnuleysi fór minnkandi á árunum eftir 2009 en þó mun minna meðal háskólamenntaðra hópa en annarra hópa. Á árinu 2000 var háskólafólk um 7% atvinnulausra. Þetta hlutfall fór upp í 15% á árinu 2009 og hefur farið hækkandi næstum stöðugt síðan. Á árinu 2018 voru háskólamenntaðir um fjórðungur atvinnulausra og hefur það hlutfall verið nokkuð stöðugt síðustu fjögur ár.

Sé litið á atvinnuleysi háskólamenntaðra eftir kynjum má sjá að fjöldi atvinnulausra karla og kvenna var svipaður á árinu 2018, um 700 að jafnaði af hvoru kyni.

Atvinnuleysi meðal karla varð meira en kvenna á árinu 2009 en lækkaði hraðar í kjölfarið en meðal kvenna. Allt frá árinu 2012 fram til 2018 voru fleiri háskólamenntaðar konur atvinnulausar en karlar.

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að þótt mun fleiri konur séu með háskólamenntun en karlar eru mun fleiri karlar á vinnumarkaði sem hlutfall háskólamenntaðra karla er reiknað af. Samkvæmt tölum Hagstofunnar má ætla að um 110.000 karlar hafi verið á vinnumarkaði árinu 2018 og um 94.000 konur. Sé miðað við tölurnar um hlutfall atvinnulausra í upphafi greinarinnar má ætla að háskólamenntaðir karlar séu um 38.000 og háskólamenntar konur um 48.000. Hlutfallslegt atvinnuleysi háskólamenntaðra karla var því um 1,8% á árinu 2018 og 1,5% meðal háskólamenntaðra kvenna. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að þessar tölur eru alls ekki nákvæmar og aðeins hægt að líta á þeir sem vísbendingu um stöðuna.

Ofmenntun eða vanmenntun?

Varðandi val á störfum er oft rætt um vanmenntun og ofmenntun. Við aðstæður eins og þær sem hér hefur verið fjallað um er hætta á að fólk sé of mikið menntað fyrir þau störf sem það getur fengið. Eftir því sem næst verður komist liggja þó ekki fyrir kannanir um hvort þau sem hafa útskrifast úr háskóla telji sig vera í störfum þar sem menntun þeirra nýtist og er nauðsynleg. Í áðurnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar var staða þessara mála skoðuð. Það kom fram að svo virðist sem frekar sé tilhneiging í þá átt að um vanmenntun sé að ræða í störfum sem krefjast mikillar menntunar og að ofmenntun sé í þeim stöfum sem krefjast minni menntunar. Í skýrslunni var talið að vanmenntun væri sérstaklega sýnileg í sérfræðistörfum í eðlis-, verk-, og stærðfræði, en ofmenntun í störfum við fiskveiðar.

Nemendur á skólagangi

Kjörin skipta líka verulegu máli

Hér að framan var einnig fjallað um hópa sem frekar kjósa að vinna önnur störf en þeir eru sérstaklega menntaðir til. Meginástæða þess vals er væntanlega að launin í þeim störfum sem þau menntuðu sig til (t.d. kennsla og hjúkrun) séu of lág og því kjósi viðkomandi að vinna  við önnur og betur launuð störf. Þetta gæti einnig átt við önnur starfskjör en laun, t.d. skipulag vinnutíma. Sé sú staða víða uppi má segja að eitthvað sé verulega að skipulagi vinnumarkaðar og fræðslukerfisins hér á landi. Ákveðið samhengi þarf að vera til staðar milli menntunarstigs og eftirspurnar eftir viðkomandi menntun annars vegar og launa og starfskjara hins vegar. Sé svo ekki er augljóslega um sóun að ræða einhvers staðar í kerfinu.

1 - Hér er miðað við fólk á aldrinum 25-64 ára. Tölurnar eru fengnar úr skýrslu Hagfræðistofnunar C18:02, Greining á menntun á vinnumarkaði – stöðumat (júní 2018).
Þú gætir einnig haft áhuga á
Landslag
29. nóv. 2022

Fjármálaheimurinn tók hressilega á móti UFS

Fjárfestingar sem byggja á tengslum við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS, e. ESG) hafa aukist ótrúlega mikið á tiltölulega stuttum tíma. Helst sú þróun auðvitað í hendur við aukinn skilning á loftslagsvánni og brýna nauðsyn til þess að ná árangri þar.
Landslag
18. nóv. 2022

Það vantar betri gögn um tengsl sjálfbærni og fjármála

Með því að beina fjármagni í atvinnugreinar og fyrirtæki sem hafa jákvæð áhrif á loftslagsvandann eða a.m.k. síður neikvæð, getur fjármálageirinn stuðlað að miklum breytingum til hins betra. En er fjármálageirinn að standa sig?
Auðkenni
17. nóv. 2022

Leyninúmerin á útleið og sterk auðkenning kemur í staðinn

Fjögurra stafa leyninúmer bankareikninga hafa fylgt okkur áratugum saman en nú í nóvember hefst útleiðing þeirra hjá Landsbankanum þegar hætt verður að biðja um leyninúmer við staðfestingu greiðslna í appinu og netbanka einstaklinga.
10. nóv. 2022

Ísland langt frá loftslagsmarkmiðum

Ísland hefur ásamt Noregi og Evrópusambandinu sett sér markmið um 55% samdrátt heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við árið 2005 sem upprunalega miðaðist við 1990. Auk þess skal kolefnishlutleysi náð árið 2040. En hvernig gengur? Og hvernig spilar kolefnisjöfnun þar inn í?
Sjálfbærnidagur 2022
22. sept. 2022

Sjálfbærnidagur Landsbankans – upptökur

Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 22. september 2022. Aðalfyrirlesari fundarins var Tjeerd Krumpelman frá hollenska bankanum ABN AMRO.
Höfuðstöðvar Landsbankans
18. ágúst 2022

Bankinn í miðborginni: Úr Bakarabrekku í Austurstræti

Landsbankinn hóf starfsemi árið 1886 í Bankastræti, sem þá kallaðist reyndar Bakarabrekka en flutti í fyrsta bankahúsið í Austurstræti 11 árið 1898. Færri vita líklega að bankinn var um tíma með afgreiðslu í Austurstræti 16 sem seinna hýsti Reykjavíkurapótek.
Lady Zadude
3. ágúst 2022

Nú þarf einfaldlega að hleypa sorginni að

Vilhjálmur Ingi Vilhjálms á sér hliðarsjálf sem dragdrottningin Lady Zadude en hún hlaut titilinn dragdrottning Íslands fyrr í sumar. Lady Zadude hlaut þar styrk í verðlaun til að koma fram á Hinsegin dögum en hlaut jafnframt styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans til að þróa og sýna atriði sitt í Gleðigöngunni.
15. júlí 2022

Öruggari greiðslur með sterkri auðkenningu

Nýjar reglur um það sem nefnist „sterk auðkenning“ hafa tekið gildi en í þeim eru gerðar stífari kröfur við innskráningu í bankaöpp og netbanka, um hvernig þú staðfestir netbankagreiðslur og við verslun á netinu. Tilgangurinn er að auka öryggi og stuðla að meiri samkeppni.
Edda Garðarsdóttir
8. júlí 2022

Einstök liðsheild kvennalandsliðsins

Fyrrverandi landsliðskonan og EM-farinn Edda Garðarsdóttir skrifar hér grein um hvað það er sem skapar góða liðsheild – og hvernig sú liðsheild sem ríkir innan kvennalandsliðsins er höfuðástæða fyrir árangri liðsins í gegnum árin.
6. júlí 2022

Hvernig kvennalandsliðið í fótbolta varð að þjóðargersemi

Sagnfræðingurinn og fótboltaáhugamaðurinn Stefán Pálsson lítur á sögu kvennaknattspyrnu á Íslandi, með stöðu knattspyrnu í Evrópu hverju sinni til hliðsjónar.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur