Þennan dag var slæmt í sjóinn og Eyjamenn komust ekki upp á land. Þess í stað var haldin þjóðhátíð í Vestmannaeyjum eins og ennþá tíðkast. Íslendingabyggðir Vesturheims halda þessum sið einnig á lífi.
Sumir vildu gera hátíðarhöldin 2. ágúst að árlegum viðburði og ári síðar var aftur haldið upp á daginn í höfuðborginni. Verslunarfólk gerði daginn að frídegi sínum og við lok 19. aldar varð dagurinn smám saman að fyrsta eiginlega þjóðhátíðardegi Íslendinga. Dagurinn varð hins vegar aldrei að sameinandi tákni fyrir mál málanna á Íslandi á þessum tíma – sjálfstæði og stofnun lýðveldis.
Allir vinir í einn dag
Í upphafi nýrrar aldar voru hatrömm pólitísk átök á Íslandi. Ólíkar stjórnmálafylkingar tókust á um minningu Jóns Sigurðssonar og ýmis samtök skiptust á að halda minningarsamkomur honum til heiðurs í því skyni að tengja sig við ímynd hans. Engum auðnaðist þó að eigna sér Jón. Einhvern veginn var hans persóna hafin yfir málefni líðandi stundar.
Myndir: Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Morgunblaðið.Svona var 17. júní
Á næstu árum voru haldnar ýmsar uppákomur á 17. júní og dagurinn festi sig í sessi sem hátíðleg og óumdeild gleðistund.
Drungi í desember
Því hefur verið haldið fram að íslenskt fullveldi árið 1918, hafi verið mikilvægari áfangi í sjálfstæðisbaráttunni en lýðveldisstofnunin tæpum þrjátíu árum síðar. Þetta varð hins vegar ekki sérlega gott partý. Fyrsti dagur desembermánaðar er sjaldan heppilegur fyrir skrúðgöngur en veturinn 1918 var með eindæmum harður og er enn þekktur sem frostaveturinn mikli. Ný dagsetning hafði fengið ríka merkingu en hátíðarhöld voru takmörkuð.
17. júní hélt hins vegar áfram að eflast. Menntaskólinn á Akureyri var stofnaður árið 1930 og voru stúdentar brautskráðir þann dag. Á afmælisdag Jóns árið 1913 kom mannfjöldi saman við styttuna af honum, sem reist var við stjórnarráðið árið 1911 en síðar flutt á Austurvöll árið 1931. Ný aðalbygging Háskólans var vígð með viðhöfn 17. júní 1940 og kjöri Sveins Björnssonar sem ríkisstjóra var fagnað sama dag ári síðar.
Afmælisdagur og minning eins manns hafði smátt og smátt fengið nýja og víðari merkingu sem þjóðin gat sameinast um.