Fólk vill láta gott af sér leiða

Hjálpar- og styrktarfélög hafa ekki farið varhluta af heimsfaraldri og öllum þeim nýju lögmálum og siðum sem heimurinn hefur þurft að tileinka sér árið 2020.
Starfsfólk í hjálparstarfi
18. desember 2020 - Landsbankinn

Björgunarsveitir selja enga neyðarkalla í ár, íþrótta- og styrktarfélög ganga ekki í hús og fjöldinn allur af ýmsum viðburðum til styrktar góðum málefnum þurfa að bíða betri tíma. Fólk, félög og fyrirtæki um allan heim hafa þurft að finna nýjar leiðir til að leysa verkefni sem hafa lengi verið í föstum farvegi.

Fólk má varla hittast, það er ekki hægt að safnast saman á götum úti og lítið er um samkomur eða viðburði þar sem efla má hópanda og samkennd. Það vill líka svo til að þegar kreppir að í samfélaginu og margir hafa minna milli handanna eykst þörfin fyrir örlæti og gjafmildi meðborgaranna að sama skapi, nánast í beinu hlutfalli.

Nýjar lausnir í stað álfasölu

SÁÁ er meðal þeirra félagasamtaka sem hafa orðið fyrir miklu höggi í tekjuöflun í ár. Þetta kemur meðal annars til þar sem ekki varð af álfasölunni í ár, en hún hefur verið mikilvægur þáttur í fjáröflunarstarfinu. „Við biðum eftir rétta tækifærinu og reyndum að draga þetta eins og hægt var, en sá tími kom aldrei,“ segir Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri SÁÁ.

Einar Hermannsson, framkvæmdastjóri SÁÁEinar Hermannsson, framkvæmdastjóri SÁÁ

Einar segir að það hafi fljótt komið í ljós að árið yrði snúið. „Við sáum fljótlega að styrkir myndu dragast saman og þess vegna gríðarlega mikilvægt að skilgreina verkefnin framundan og forgangsraða.“ Það var ljóst að félögin skorti fé til að sinna aðstandendum sjúklinga og að eitthvað þyrfti að gera til að koma til móts við þá þörf. Félögin ákváðu m.a. að gera skurk í sálfræðiþjónustu við börn, en um 140 börn voru komin á biðlista eftir sálfræðiþjónustu. Til að byrja með var ákveðið að fara í átak á netinu sem gafst vel. Þekktir velunnarar samtakanna, Bubbi Morthens, Tolli og Ellý Ármanns ásamt fleirum lögðu félögunum lið, auk þess sem ákall var sent á tiltekinn hóp sem að sögn Einars gafst mjög vel.

Á síðari hluta þessa árs kom svo upp hugmynd um að halda sérstakan söfnunardag til að vega upp á móti tekjufallinu sem félögin hafa orðið fyrir. SÁÁ-dagurinn var haldinn hátíðlegur þann 4. desember sl. Fjöldi tónlistarfólks kom fram á söfnunarkvöldi samtakanna sem sjónvarpað var beint á RÚV. Átakið tókst vonum framar, alls söfnuðust rúmlega 43 milljónir króna, sem Einar segir að hjálpi sannarlega til við að brúa það mikla bil sem myndast hefur á þessu ári.

Sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum

Hann segir þó að eðli málsins samkvæmt komi ástand líkt og varað hefur meirihluta þessa árs ekki fram strax hjá SÁÁ. „Afleiðingarnar munu koma fram á næstu misserum, fólk sem missir tökin nú eða gerði það kannski í sumar leitar sér yfirleitt ekki aðstoðar strax.“ Hvað varðar framtíðina segir hann að faraldurinn muni breyta sumu en öðru ekki. „Stærsta verkefnið árið 2021 er að finna leiðir til að vinna upp tapið sem myndast nú þegar við höfum hætt þátttöku í Íslandsspilum, sem hefur verið stór þáttur í fjáröflun. Við munum vissulega nýta okkur reynslu síðustu mánaða og horfa til þess að nýta t.d. fleiri miðla og fleiri leiðir við fjáröflun og til að ná til fólks.“

Stóraukin þörf á aðstoð

Hjá Hjálparstarfi kirkjunnar hefur heimsfaraldurinn e.t.v. helst sýnt sig í stóraukinni eftirspurn eftir aðstoð. Umsóknum um aðstoð hefur það sem af er ári fjölgað um 42% miðað við sama tímabil í fyrra.

Hjá Hjálparstarfi kirkjunnar starfa þrír félagsráðgjafar að verkefnum innanlands sem veita fólki sem býr við kröpp kjör efnislegan stuðning og félagslega ráðgjöf. Ráðgjafarnir segja að það sé munur á líðan fólks sem leitar til Hjálparstarfsins nú og líðan þeirra sem leituðu aðstoðar í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Þá hafi fólk getað beint reiði sinni að fjármálakerfinu en að nú sé erfiðara að beina erfiðum tilfinningum út á við. Ráðgjafarnir segjast hins vegar taka eftir því nú að fólk sé margt einmana og kvíðið.

Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar, segir að undanfarna mánuði hafi félagsráðgjafarnir þurft að takast á við margar nýjar áskoranir í starfi. „Í fyrsta lagi þurftum við að bregðast skjótt við og veita þjónustuna í auknum mæli símleiðis og í gegnum netið. En það er líka áskorun að taka á móti fólki sem hingað kemur með grímu fyrir vitum. Við notum ekki bara tungumálið til að tjá okkur og það er erfiðara að ræða við fólk þegar við sjáum ekki framan í það,“ segir Vilborg.

Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi leiðir innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar.Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi leiðir innanlandsstarf Hjálparstarfs kirkjunnar

„Í þessum faraldri sjáum við hvar brotalamirnar eru í velferðarkerfinu. Fólkið sem til okkar leitar er margt búið að bíða lengi eftir úrræðum. Það sem mér þykir hins vegar alveg frábært er að verða vitni að ótrúlegri aðlögunarhæfni fólks í þessum aðstæðum, þolinmæði og þrautseigju þess. Hvernig fólk, og ekki bara það sem hingað leitar heldur almennt, tekst á við nýjar áskoranir daglega. Ég tek hattinn ofan fyrir okkur með það.“

Mikil samkennd í samfélaginu

Hjá Rauða krossinum er sömu sögu að segja um miklar annir, en þó á annan hátt. Þegar heimsfaraldurinn skall á var þegar mikið álag á neyðarvörnum. Slæmt veður í desember og snemma á árinu hafði sitt að segja en Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi hjá Rauða krossinum, nefnir einnig alvarlegt rútuslys í upphafi síðasta árs og snjóflóð. Því má segja að faraldurinn hafi komið strax í kjölfarið á mjög annasömum tíma.

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi hjá Rauða krossinumBrynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi hjá Rauða krossinum

Rauði krossinn treystir alla jafna á velvild fólks sem styrkir félögin með mánaðarlegu framlagi, svokallaða mannvini. „Við höfum vissulega fundið fyrir breyttum aðstæðum, það hafa margir hætt að styrkja Rauða krossinn og við finnum fyrir því. En það hafa líka margir verið að bætast við og Rauði krossinn hefur í raun sjaldan verið jafn áberandi. Við fórum í átak í vor sem var Covid-tengt, það gekk mjög vel og við fengum nýja styrktaraðila sem bættu að miklu leyti upp það sem við höfum misst, en söfnunarverkefni hafa í raun ekki riðlast mikið því við höfum ekki mikið treyst á að fara út meðal fólks að sækja stuðning.

Brynhildur segir að verkefnin hafi hins vegar talsvert breyst. Félögin reka meðal annars sóttvarnahúsið við Rauðarárstíg og annað á Akureyri. Þar hafa verið miklar annir síðustu mánuði og félögin notið aðstoðar fjölda sjálfboðaliða. „Annað sem hefur breyst eru líka félagslegar aðstæður. Við höfum haldið úti öflugu starfi þar sem við vinnum með fólki, leiðsöguvinir hjálpa flóttafólki sem er að kynnast íslensku samfélagi og heimsóknarvinir hafa veitt einstæðu fólki félagsskap. Margir heimsóknarvinir hafa hins vegar breyst í símavini.“ Brynhildur segir að verkefnum símavina hafi um leið fjölgað mikið og félögin finni vel fyrir því að fólk hafi þörf fyrir að tala við einhvern um hlutina og að ástandið í þjóðfélaginu skapi þannig ný verkefni. Hún segir ánægjulegast að finna hvað samkenndin er mikil og hvað Rauða krossinum hafi borist mikill liðsstyrkur undanfarna mánuði.

„Það er eitthvað, við finnum fyrir svo mikilli samkennd í samfélaginu. Það er mikil aukning í umsóknum um að gerast sjálfboðaliðar og við finnum fyrir mjög mikilli velvild frá fyrirtækjum sem mörg hafa lagt okkur lið með fjárstuðningi. Það sem kemur eiginlega mest á óvart er að verkefnin erlendis, sem nóg er af, hafa síður gleymst en maður hefði kannski átt von á. Þetta hefur verið að gerast undanfarin ár, það er meiri meðvitund um að við berum öll ábyrgð og tengist kannski umræðunni um samfélagslega ábyrgð og loftslagsmálin. Ég held að heimsmarkmiðin spili þarna inn í líka. En þetta skilar sér allt saman í því að verkefnin okkar hafa gengið vel, fólk vill gefa af sér.“

Landsbjörg

Það eru ýmsar leiðir til að gefa, m.a. í netbankanum

Þeir sem vilja styrkja góðgerðafélög og hjálparstarf hafa ýmsar leiðir þótt mörg hefðbundin söfnunarátök hafi fallið niður í ár. Flest góðgerðafélög hafa vefsíður þar sem finna má upplýsingar um hvernig hægt er að styrkja starfið og mörg þeirra eru dugleg að minna á sig á samfélagsmiðlum.

Við viljum svo minna á að í netbanka Landsbankans má undir „Millifærslum“ finna flipann „Góð málefni“ en þar má styrkja mörg góðgerðafélög beint með millifærslu og upphæð að eigin vali.

Þú gætir einnig haft áhuga á
5. maí 2021

Hreystineistinn kveiktur hjá krökkunum

„Tilgangur Skólahreysti var að kveikja aftur þennan hreystineista sem okkur fannst vera að deyja út,“ segir Andrés Guðmundsson, sem stofnaði keppnina með eiginkonu sinni, Láru B. Helgdóttur, árið 2005. Skólahreysti öðlaðist fljótt miklar vinsældir meðal krakkanna og síðustu tíu árin hafa um 110 af 120 skólum á landinu tekið þátt í keppninni.
Vindmyllur í Búrfellslundi.
2. mars 2021

Græn fjármögnun er allra hagur

Hjá Landsbankanum hefur um árabil verið lögð áhersla á sjálfbærni. Undanfarið hafa stór skref verið tekin í grænni fjármögnun bankans og starfsemi síðasta árs hefur fengið alþjóðlega vottun á kolefnisjöfnun.
28. jan. 2021

Persónuvernd og öryggi barna á netinu

Fullorðnir bera ábyrgð á að börn fái að kynnast ólíkum miðlum og þeim tækifærum sem felast í net- og snjallsímanotkun. Foreldrar þurfa einnig að vera vakandi yfir því hvað börnin þeirra eru að gera á netinu.
Fjöll
27. jan. 2021

Ný fjármálaumgjörð vegvísir að sjálfbærri framtíð

Bankar víða um heim gefa í síauknum mæli út svokallaðar sjálfbærar fjármálaumgjarðir sem stýra fjármagni í átt að sjálfbærum verkefnum og skilgreina sjálfbær verkefni. Landsbankinn hefur nú bæst í hópinn og gefið út sjálfbæra fjármálaumgjörð í fyrsta sinn. En hvers vegna og hvað þýðingu hefur þessi útgáfa?
Guðrún Tinna Ólafsdóttir
18. jan. 2021

Svanni veitir góðum hugmyndum kvenna brautargengi

 „Svanni eflir konur í fyrirtækjarekstri og gerir þeim kleift að framkvæma góðar hugmyndir. Þannig stuðlar hann að nýsköpun og blómlegu atvinnulífi,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, stjórnarformaður Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Landsbankinn er bakhjarl sjóðsins sem hefur opnað fyrir umsóknir.
Dagatal Landsbankans 2021
22. des. 2020

Dagatal Landsbankans 2021: Tækniframfarir og samfélagsbreytingar

Aðlögunarhæfni mannskepnunnar er ótrúleg sem er ómetanlegt í heimi sem tekur jafn örum breytingum og sá sem við byggjum. Hugviti mannfólksins virðist lítil mörk sett og hraði tækniþróunar slíkur að erfitt getur verið að átta sig á því hversu mikið hefur breyst á stuttum tíma.
Vindmyllur
19. nóv. 2020

Mikilvægt að þekkja raunveruleg umhverfisáhrif banka

Í gegnum tíðina hafa umhverfisáhrif banka gjarnan verið talin smávægileg. Bankar eru að upplagi skrifstofufyrirtæki og rekstur þeirra krefst ekki beinnar notkunar á auðlindum eða mengandi efnum í stórum stíl. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því ekki verið sett undir sama hatt og verksmiðjur, flugfélög eða önnur starfsemi sem sýnilega hefur bein áhrif á umhverfið. Í dag er hinsvegar gerð skýr krafa um að bankar mæli og greini frá óbeinum umhverfisáhrifum sínum.
5. nóv. 2020

Loksins skýrar leikreglur: Ný sjálfbærniviðmið Evrópusambandsins

Undanfarin ár hefur verið þrýst á fjármagnsmarkaði að beina fjármagni í verkefni sem stuðla að sjálfbærri framtíð. Samræmdar reglur og viðmið hefur hins vegar skort. Nýtt flokkunarkerfi Evrópusambandsins á sviði sjálfbærra fjármála samræmir verklag og setur sjálfbærniviðmið sem fjármagnsmarkaðir geta stuðst við til að ná markmiðum í loftslagsmálum.
2. nóv. 2020

Raunveruleg umhverfisáhrif fjármálafyrirtækja

Við mat á umhverfisáhrifum fjármálafyrirtækja nægir ekki að skoða losun gróðurhúsalofttegunda út frá beinum rekstri. Raunverulegt umhverfisspor þeirra markast í gegnum útlán og fjárfestingar og því er nauðsynlegt að mæla það sérstaklega.
6. okt. 2020

Gulleggið - Skemmtilegur stökkpallur fyrir frumkvöðla

„Ef þú lumar á góðri hugmynd er um að gera að koma henni í framkvæmd. Frumkvöðlakeppnin Gulleggið er tilvalinn vettvangur til þess,“ segir Edit Ómarsdóttir verkefnastjóri hjá Icelandic Startups. Landsbankinn hefur verið einn helsti bakhjarl Gulleggsins frá upphafi.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur