Áramótabrennan sem hefur logað í næstum 70 ár

Gunnar Már Hauksson hefur fylgt brennunni í Laugardalnum frá þessu fyrsta gamlárskvöldi og var brennustjóri um áratugaskeið. Brennan þar hefur verið fastur punktur í bráðum 70 ár meðan Reykjavík og heimurinn allur hefur breyst og stækkað.
Eftir seinna stríð var ekkert sjónvarp, engin hitaveita og Laugardalurinn var eiginlega sveit. Þar sem nú er Laugarásvegur stóðu þrjú hús, Urðartún, Sólbyrgi og Laugaholt innan um önnur. Á túnunum fyrir neðan, þar sem túristarnir tjalda núna langt fram á haust, voru kýr á beit.
Gunnar Már flutti í Urðartún ásamt foreldrum sínum og systkinum þann 10. maí árið 1940, daginn sem breski herinn kom til landsins og hernam bæinn. Í Sólbyrgi bjó maður sem kallaður var Óli í ölinu, í Laugaholti bjó Jón Kaldal, ljósmyndari, ásamt sinni fjölskyldu og á milli fjölskyldnanna myndaðist fljótt samgangur og vinskapur.
Áramótabrennur eiga sér langa sögu og brennur höfðu áður verið í Laugardalnum. Þær voru reyndar um tíma bannaðar í bænum af öryggisástæðum. En á endanum var það gefið út seint á fimmta áratugnum að brennurnar væru í lagi; það þótti minnka drykkjulætin í miðbænum.
„Sennilega var það Óli í ölinu sem kveikti fyrstur í“, segir Gunnar Már. „Þetta var aðallega bara til að hafa eitthvað að gera, það var ekki svo mikið um að vera yfir hátíðirnar á þessum tíma. Eitthvað árið vorum við hver fjölskyldan með sitt bálið en svo fórum við mjög fljótlega að sameina þau, það var bara miklu skemmtilegra.“
Fyrstu árin var brennan lítil og takmarkaðist mest við fjölskyldurnar þrjár og það efni sem krakkarnir gátu sankað að sér. Hefðirnar fóru samt fljótt að verða til. Á gamlársdagsmorgun var komið saman við að hlaða brennuna og það var strax fyrsta árið sem Óli í ölinu og Haukur, faðir Gunnars Más brustu í söng við bálið. Þeir höfðu eitthvað fengið sér í eina tána og Gunnar Már dauðskammaðist sín fyrir karlana.
„Ég skammaðist mín eitthvað voðalega og ætlaði bara niður úr jörðinni. En svo varð þetta strax ómissandi og ég get bara ekki hugsað mér brennu án söngs“.
Eftir því sem krakkarnir stálpuðust tók yngri kynslóðin við ábyrgðinni á brennunni. Gunnar Már flutti að heiman en keypti svo bernskuheimilið af foreldrum sínum árið 1972. Þá tóku hann og Jón Kaldal, sonur Jóns ljósmyndara, brennuna fastari tökum. Gunnar Már og Jón urðu að forkólfum í því að gera hana að reglulegum viðburði í hverfinu. Þeir dreifðu söngblöðum, sáu um brennuleyfi sem þá var farið að gera kröfu um og um leið urðu til „verðlaunin“ sem enn eru hefð; í hádeginu eftir að brennan hefur verið reist er farið í eitthvert húsið þar sem brennuhópurinn fær brjóstbirtu fyrir vel unnin störf.
Eftir miðja öldina byggðist hverfið hratt, húsin spruttu upp og á meðan hverfið tók á sig mynd nútímalegs borgarhverfis varð brennan „opinber” ef svo má segja. Það fóru að bætast við ýmis formsatriði, leyfisumsóknir, tryggingar og takmarkanir á því hvað mátti fara á bálköstinn. Lengi vel voru brennur gott tækifæri til að losa sig við alls kyns rusl, en með tímanum fór aðeins sérvalið efni að rata á brennuna. Aðsóknin jókst líka, brennan stækkaði og varð með tímanum líkari því sem er í dag þótt hún hafi jafnvel heldur minnkað á síðustu árum.
Gunnar Már var lengi brennustjóri en Jón, sem var byggingafræðingur, hannaði brennuna. Hann lagði mikinn metnað í að brennan væri falleg og rétt byggð. Það varð fljótt umtalað hvað brennurnar voru formfagrar og brunnu vel. Fleira fólk í hverfinu fór að útvega efni; rafmagnskefli, bretti og alls konar timbur. Gunnar Már og Jón sáu til þess að hún væri örugg og falleg og brynni rétt. Gunnar Már segir að bestu brennurnar gefi af sér gott bál fljótt eftir að kveikt er í, en séu eiginlega fuðraðar upp eftir klukkustund - um það leyti sem áramótaskaupið byrjar.
Svona geta hlutir öðlast sjálfstætt líf, brennan hefur verið árlegur viðburður í hverfinu um áratuga skeið. Fjöldi fólks sem tengist Laugarneshverfinu með einum eða öðrum hætti leggur leið sína í Laugardalinn á hverju gamlárskvöldi, brennan er ein sú rótgrónasta í höfuðborginni og margir líta á hana sem fastan punkt í tilverunni um áramót. Gunnar Már telur þó að þetta hafi alltaf gengið vel, fyllerí og læti hafa aldrei verið vandræði né heldur slys. „Helstu vandræðin hafa kannski verið að stoppa fólk sem er að skjóta upp flugeldum inni í hópnum.“
Jón Kaldal lést árið 2003 og um svipað leyti flutti Gunnar Már úr Laugardalnum. Brennan er enn á sínum stað og Gunnar Már segist koma reglulega. Ritstjórinn Jón Kaldal, sonur byggingafræðingsins, er nú brennustjóri en hann og Ágúst Friðriksson, rakarameistari, sem býr í Laugaholti, hafa nú um árabil séð um skipulagið. Hópur fólks úr hverfinu kemur enn saman á hverjum einasta gamlársdagsmorgni til að hlaða og verðlaunar sig svo með brjóstbirtu í hádeginu þegar brennan er byggð. Metnaðurinn fyrir formfegurð bálkastarins er á sínum stað og enn er sungið. Áramótabrennan í Laugardalnum er jafn ómissandi nú og fyrir næstum 70 árum.
Gunnar Már er ekki í nokkrum vafa um það hvernig hin fullkomna brenna sé. „Hún er upphá og falleg og rétt byggð, bestu brennurnar voru kannski áður en fólkið varð svona margt, það er erfiðara að eiga við þær ef þær eru stórar, og þá sungu líka allir.“









