Ára­móta­brenn­an sem hef­ur log­að í næst­um 70 ár

Eitt gamlárskvöld á eftirstríðsárunum, líklega árið 1947, kveikti fjölskylda í spýtum neðst í Laugarásnum. Krakkarnir í kring söfnuðust að og karlarnir fóru að syngja. Allt í einu var komin áramótabrenna, brenna sem öðlaðist sjálfstætt líf og er enn haldin í Laugardalnum á hverju gamlárskvöldi.
27. desember 2016

Gunnar Már Hauksson hefur fylgt brennunni í Laugardalnum frá þessu fyrsta gamlárskvöldi og var brennustjóri um áratugaskeið. Brennan þar hefur verið fastur punktur í bráðum 70 ár meðan Reykjavík og heimurinn allur hefur breyst og stækkað.

Eftir seinna stríð var ekkert sjónvarp, engin hitaveita og Laugardalurinn var eiginlega sveit. Þar sem nú er Laugarásvegur stóðu þrjú hús, Urðartún, Sólbyrgi og Laugaholt innan um önnur. Á túnunum fyrir neðan, þar sem túristarnir tjalda núna langt fram á haust, voru kýr á beit.

Gunnar Már flutti í Urðartún ásamt foreldrum sínum og systkinum þann 10. maí árið 1940, daginn sem breski herinn kom til landsins og hernam bæinn. Í Sólbyrgi bjó maður sem kallaður var Óli í ölinu, í Laugaholti bjó Jón Kaldal, ljósmyndari, ásamt sinni fjölskyldu og á milli fjölskyldnanna myndaðist fljótt samgangur og vinskapur.

Áramótabrennur eiga sér langa sögu og brennur höfðu áður verið í Laugardalnum. Þær voru reyndar um tíma bannaðar í bænum af öryggisástæðum. En á endanum var það gefið út seint á fimmta áratugnum að brennurnar væru í lagi; það þótti minnka drykkjulætin í miðbænum.

„Sennilega var það Óli í ölinu sem kveikti fyrstur í“, segir Gunnar Már. „Þetta var aðallega bara til að hafa eitthvað að gera, það var ekki svo mikið um að vera yfir hátíðirnar á þessum tíma. Eitthvað árið vorum við hver fjölskyldan með sitt bálið en svo fórum við mjög fljótlega að sameina þau, það var bara miklu skemmtilegra.“

Fyrstu árin var brennan lítil og takmarkaðist mest við fjölskyldurnar þrjár og það efni sem krakkarnir gátu sankað að sér. Hefðirnar fóru samt fljótt að verða til. Á gamlársdagsmorgun var komið saman við að hlaða brennuna og það var strax fyrsta árið sem Óli í ölinu og Haukur, faðir Gunnars Más brustu í söng við bálið. Þeir höfðu eitthvað fengið sér í eina tána og Gunnar Már dauðskammaðist sín fyrir karlana.

„Ég skammaðist mín eitthvað voðalega og ætlaði bara niður úr jörðinni. En svo varð þetta strax ómissandi og ég get bara ekki hugsað mér brennu án söngs“.

Eftir því sem krakkarnir stálpuðust tók yngri kynslóðin við ábyrgðinni á brennunni. Gunnar Már flutti að heiman en keypti svo bernskuheimilið af foreldrum sínum árið 1972. Þá tóku hann og Jón Kaldal, sonur Jóns ljósmyndara, brennuna fastari tökum. Gunnar Már og Jón urðu að forkólfum í því að gera hana að reglulegum viðburði í hverfinu. Þeir dreifðu söngblöðum, sáu um brennuleyfi sem þá var farið að gera kröfu um og um leið urðu til „verðlaunin“ sem enn eru hefð; í hádeginu eftir að brennan hefur verið reist er farið í eitthvert húsið þar sem brennuhópurinn fær brjóstbirtu fyrir vel unnin störf.

Eftir miðja öldina byggðist hverfið hratt, húsin spruttu upp og á meðan hverfið tók á sig mynd nútímalegs borgarhverfis varð brennan „opinber” ef svo má segja. Það fóru að bætast við ýmis formsatriði, leyfisumsóknir, tryggingar og takmarkanir á því hvað mátti fara á bálköstinn. Lengi vel voru brennur gott tækifæri til að losa sig við alls kyns rusl, en með tímanum fór aðeins sérvalið efni að rata á brennuna. Aðsóknin jókst líka, brennan stækkaði og varð með tímanum líkari því sem er í dag þótt hún hafi jafnvel heldur minnkað á síðustu árum.

Gunnar Már var lengi brennustjóri en Jón, sem var byggingafræðingur, hannaði brennuna. Hann lagði mikinn metnað í að brennan væri falleg og rétt byggð. Það varð fljótt umtalað hvað brennurnar voru formfagrar og brunnu vel. Fleira fólk í hverfinu fór að útvega efni; rafmagnskefli, bretti og alls konar timbur. Gunnar Már og Jón sáu til þess að hún væri örugg og falleg og brynni rétt. Gunnar Már segir að bestu brennurnar gefi af sér gott bál fljótt eftir að kveikt er í, en séu eiginlega fuðraðar upp eftir klukkustund - um það leyti sem áramótaskaupið byrjar.

Svona geta hlutir öðlast sjálfstætt líf, brennan hefur verið árlegur viðburður í hverfinu um áratuga skeið. Fjöldi fólks sem tengist Laugarneshverfinu með einum eða öðrum hætti leggur leið sína í Laugardalinn á hverju gamlárskvöldi, brennan er ein sú rótgrónasta í höfuðborginni og margir líta á hana sem fastan punkt í tilverunni um áramót. Gunnar Már telur þó að þetta hafi alltaf gengið vel, fyllerí og læti hafa aldrei verið vandræði né heldur slys. „Helstu vandræðin hafa kannski verið að stoppa fólk sem er að skjóta upp flugeldum inni í hópnum.“

Jón Kaldal lést árið 2003 og um svipað leyti flutti Gunnar Már úr Laugardalnum. Brennan er enn á sínum stað og Gunnar Már segist koma reglulega. Ritstjórinn Jón Kaldal, sonur byggingafræðingsins, er nú brennustjóri en hann og Ágúst Friðriksson, rakarameistari, sem býr í Laugaholti, hafa nú um árabil séð um skipulagið. Hópur fólks úr hverfinu kemur enn saman á hverjum einasta gamlársdagsmorgni til að hlaða og verðlaunar sig svo með brjóstbirtu í hádeginu þegar brennan er byggð. Metnaðurinn fyrir formfegurð bálkastarins er á sínum stað og enn er sungið. Áramótabrennan í Laugardalnum er jafn ómissandi nú og fyrir næstum 70 árum.

Gunnar Már er ekki í nokkrum vafa um það hvernig hin fullkomna brenna sé. „Hún er upphá og falleg og rétt byggð, bestu brennurnar voru kannski áður en fólkið varð svona margt, það er erfiðara að eiga við þær ef þær eru stórar, og þá sungu líka allir.“

Þú gætir einnig haft áhuga á
Áheyrendasalur
14. mars 2025
Komum hreyfingu á hlutina - fjármögnun og uppbygging innviða
Fundur Landsbankans og Samtaka iðnaðarins um fjármögnun og uppbyggingu innviða var haldinn í Norðurljósasal Hörpu 13. mars 2025. Fjallað var um reynslu Færeyinga af gerð fjögurra neðansjávarganga, reynsluna af Hvalfjarðargöngunum, möguleika á alþjóðlegri fjármögnun og ástand vegakerfisins og annarra innviða. Fundinum lauk síðan með fjörlegum pallborðsumræðum.
2. jan. 2025
Listin sem rólegur þátttakandi í lífinu
Dagatal Landsbankans fyrir árið 2025 er skreytt myndum af vatni og ólíkum birtingarmyndum þess í daglegu lífi okkar. Við settumst niður með myndlistarmanninum á bak við verkin, Stefáni Óla Baldurssyni eða Stebba Mottu, og fengum hans innsýn í ferlið, verkin og vatnið.
Barn í jólaglugga
9. des. 2024
Nokkur ráð til jólasveina frá Stekkjastaur um kaup á gjöfum
Þar sem líða fer að þeim tíma er jólasveinarnir fara á stjá og setja ýmis konar glaðning í skóna hjá börnum, höfðum við samband við Stekkjastaur og spurðum hvernig hann færi að því að skipuleggja sín gríðarlega umfangsmiklu jólainnkaup (fyrir utan allt það sem hann býr til sjálfur).
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
28. nóv. 2024
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
16. sept. 2024
Aðgerðir og árangur fyrirtækja í sjálfbærni
Fyrir nokkrum árum þurftu fyrirtæki sem sögðust sinna sjálfbærnimálum iðulega að útskýra hvað fælist í sjálfbærni og hvers vegna þau væru yfirleitt að leggja í þessa vinnu. Nú hefur umræðan breyst og skilningur aukist á mikilvægi þess að atvinnulífið taki fullan þátt í að stuðla að aukinni sjálfbærni og þar með áframhaldandi velsæld mannkyns.
Sjálfbærnidagur 2024
5. sept. 2024
Sjálfbærnidagur 2024 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í þriðja sinn miðvikudaginn 4. september 2024 og var afar vel sóttur.
hinsegin dagar
9. ágúst 2024
„Hver þú ert á ekki að stöðva þig í að finna hreyfingu við hæfi“
Níu atriði hlutu styrk úr Gleðigöngupotti Hinsegin daga og Landsbankans fyrir Gleðigönguna sem fram fer á laugardaginn. Eitt þeirra atriða er Öðruvísi íþróttir.
Hús í Reykjavík
18. júní 2024
Snjóhengjan sem verður vonandi að skafli
Í byrjun sumars 2021 var sögulega lágt vaxtastig á Íslandi. Þetta sumar og þeir mánuðir sem á eftir komu voru annasamir í Landsbankanum. Þúsundir viðskiptavina breyttu íbúðalánum sínum í óverðtryggð íbúðalán, nafnvaxtalán, og flestir festu vextina í þrjú ár. Um þessar mundir er fastvaxtatímabilinu að ljúka hjá mörgum. Til áramóta munu fastir vextir losna á ríflega 3.200 íbúðalánum. Og það er bara hjá okkur í Landsbankanum.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur