Hvernig má fá góða ávöxt­un í lág­vaxtaum­hverfi?

Nú þegar vextir á Íslandi eru í sögulegu lágmarki þurfa sparifjáreigendur og fjárfestar að takast á við nýjar og framandi aðstæður. Til að fá ávöxtun umfram verðbólgu er viðbúið að taka þurfi meiri áhættu.
11. september 2020

Ein leið til þess að auka líkur á ávöxtun, en halda um leið áhættunni í skefjum, er að kaupa í sjóðum sem fjárfesta í blönduðu safni verðbréfa þar sem bæði eru áhættumeiri eignir eins og skuldabréf fyrirtækja og hlutabréf og áhættuminni eignir eins og ríkisskuldabréf og innlán.

Í góðri stöðu til að takast á við mikinn samdrátt

Aðgerðir til að stemma stigu við Covid-19-faraldrinum á Íslandi hafa leitt til eins mesta samdráttar landsframleiðslu sem mælst hefur. Á Íslandi, eins og víðast annars staðar, skall á kreppa sem mun væntanlega ekki ljúka fyrr en áhrif faraldursins fjara út.

Íslenska hagkerfið var betur í stakk búið en flest önnur hagkerfi til að takast á við Covid-heimskreppuna. Ríkissjóður var skuldlítill, stýrivextir Seðlabankans voru háir, skuldastaða við útlönd og viðskiptajöfnuður voru jákvæð, gjaldeyrisvaraforðinn var öflugur og staða fyrirtækja og heimila sterk. Eiginfjárstaða fyrirtækja var almennt góð, enda höfðu flest fyrirtæki nýtt uppsveifluna til að greiða niður skuldir frá síðustu niðursveiflu. Helst voru það fyrirtæki í ferðaþjónustu sem stóðu illa og þau koma líka almennt verst út úr Covid-kreppunni.

Hagkerfið taki hratt við sér

Viðbrögð ríkis og Seðlabanka hafa mótast af þeirri sýn að kreppan sé til skamms tíma og að hagkerfið muni taka kröftuglega við sér þegar læknavísindin ná tökum á Covid-19.

Ríkið hefur ákveðið að auka opinbera fjárfestingu, gefa fyrirtækjum kost á að fresta skattgreiðslum, tryggja stuðningslán til fyrirtækja, bjóða upp á hlutabótaleið til að viðhalda atvinnustigi, framlengja rétt til tekjutengdra atvinnuleysisbóta o.fl. Öllum þessum aðgerðum er ætlað að styðja við lífvænleg fyrirtæki, viðhalda eftirspurn í hagkerfinu og sporna við atvinnuleysi.

Markmið Seðlabankans er að örva eftirspurn í hagkerfinu með lækkun vaxta, bæta miðlunarferli stýrivaxta og auka útlánagetu bankakerfisins. Aðgerðir bankans eru í raun ígildi peningaprentunar, sem að öðru óbreyttu ætti að leiða til aukinnar verðbólgu og lægra raungengis, en vegna mikils fyrirsjáanlegs slaka í hagkerfinu er ekki gert ráð fyrir að aðgerðir Seðlabankans muni hafa þessi neikvæðu áhrif.

Lágir vextir af innlánum og ríkisskuldabréfum

Ferðaþjónustan, sem var orðin ein mikilvægasta atvinnugrein landsins, hefur orðið fyrir miklum áföllum. Það er ærið verkefni að byggja hagkerfið upp aftur í fyrra horf, annað hvort með endurreisn ferðaþjónustunnar eða með uppbyggingu annarra atvinnugreina. Búast má við að á næstu árum verði skuldastaða ríkisins há, stýrivextir lágir og peningamagn í umferð mikið á meðan á endurreisninni stendur.

Neikvæðir raunvextir, sögulega lágir stýrivextir og aukin skuldsetning ríkisins gera fjárfestingu í innlánum og ríkisskuldabréfum lítið spennandi þegar sér fyrir endann á vaxtalækkunartímabili. Vextir af innlánum verða í kringum 0% næstu misserin og eftir mikla lækkun á ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf undanfarna mánuði gæti sú þróun snúist við og leitt til lækkandi virðis ríkisskuldabréfa, þó svo að aðgerðir Seðlabankans muni að einhverju leyti vega á móti.

Lægri vextir bæta stöðu fyrirtækja

Markmiðið með lágum stýrivöxtum er m.a. að ýta fjármunum úr áhættulitlum verðbréfum yfir í áhættusamari verðbréf. Til að fjárfestar geti fengið raunávöxtun á fjármuni sína, dugar ekki að geyma fjármuni á innlánsreikningum eða fjárfesta í ríkisskuldabréfum, heldur þurfa þeir að auka vægi skuldabréfa fyrirtækja og hlutabréfa í eignasöfnum sínum.

Lægri vextir, aukin útlánageta bankakerfisins og aukinn áhugi á skuldabréfum fyrirtækja lækkar vaxtakostnað fyrirtækja og ætti að öðru óbreyttu að hafa jákvæð áhrif á rekstur þeirra.

Lægri vextir lækka einnig fjármögnunarkostnað sem og ávöxtunarkröfu eiginfjár sem fjárfestar setja á hlutabréf. Þar með ættu lægri vextir almennt að leiða til hækkunar á hlutabréfaverði vegna betri reksturs og/eða breytinga á verðmati fjárfesta.

Þegar vextir eru lágir leita fjármunir í áhættusamari eignir

Vextir hafa lengi verið lágir í Bandaríkjunum og Evrópu. Þar hefur þróunin verið sú að fjármunir hafa færst úr áhættuminni skuldabréfum yfir í áhættumeiri skuldabréf og hlutabréf, með lækkun á ávöxtunakröfu á hlutabréfum og hækkun á verðkennitölum. Á Íslandi hefur álag á skuldabréf fyrirtækja verið mjög hátt en hefur hins vegar farið lækkandi erlendis og er íslenski markaðurinn líklega 1-2 árum á eftir erlendum mörkuðum í þessari þróun.

Á svona tímum er sú spurning áleitin hvort áhættan sem fylgir fjárfestingu í hlutabréfum sé ásættanleg á meðan það er met samdráttur í hagvexti, met atvinnuleysi, fjöldauppsagnir og fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu standa illa. Sagan segir okkur þó að þegar vextir eru lækkaðir mjög hratt og peningamagn í umferð aukið, þá skilur gjarnan á milli raunhagkerfisins og fjármálahagkerfisins. Raunhagkerfið getur verið lengur að taka við sér en fjármálahagkerfið, þ.e.a.s. að þótt fyrirtæki glími við erfiðleika þá sjá fjárfestar oft tækifæri til að fjárfesta þegar reksturinn gengur illa og hlutabréfaverð er lágt, í trausti þess að hlutabréfaverð hækki þegar afkoma fyrirtækjanna batnar. Þannig getur orðið góð afkoma af fjárfestingum í hlutabréfum, þótt staða fyrirtækjanna sé erfið eins og stendur.

Skynsamlegt að fjárfesta í dreifðu eignasafni

Til að ná sem bestri ávöxtun með sem minnstri áhættu er skynsamlegt að fjárfesta í dreifðu eignasafni. Það er t.d. hægt að gera með því að leggja sparifé í sérstaka eignadreifingasjóði sem fjárfesta í safni blandaðra verðbréfa með mismunandi mikilli áhættu. Með því að fjárfesta í sjóði næst ekki einungis sú áhættudreifing sem felst í blönduð safni verðbréfa heldur er fjárfesting í sjóði almennt skattalega hagkvæm þar sem fjármagnstekjuskattur er ekki innheimtur fyrr en inneignin er tekin út úr sjóðnum. Þetta er góður kostur í núverandi umhverfi þar sem það getur verið mikilvægt að geta fært sig með skilvirkum hætti milli eignaflokka og verðbréfa án þess að greiða fjármagnstekjuskatt í hvert skipti. Í sjóðum er hagnaður af einum eignaflokki jafnaður út á móti tapi í öðrum og ekki greiddur fjármagnstekjuskattur nema af heildarávöxtun sjóðsins sem er ekki innheimtur nema við sölu úr sjóðnum. Sjóðirnir innheimta þóknanir, þ.e. gjald við kaup, árlega þóknun og árangurstengda þóknun, en á móti kemur að sjóðir njóta betri viðskiptakjara en almennir fjárfestar við kaup og sölu verðbréfa á markaði.

Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, rekur marga eignadreifingasjóði og er einfalt að byrja að byggja upp sparnað með áskrift að sjóði eða sjóðum. Sjóðstjórar sjóðanna hafa það markmið að hámarka ávöxtun sjóðanna að teknu tilliti til áhættusniðs viðkomandi sjóða. Það er gert með því að færa eignir milli einstakra verðbréfa og eignaflokka eftir mati sjóðstjóra á markaðsaðstæðum á hverjum tíma.

Þú gætir einnig haft áhuga á
26. nóv. 2024
Vantar þig fimmhundruðkalla?
Ertu á leiðinni með barnið í bekkjarafmæli og þarft að útvega nokkra fimmhundruðkalla í snatri? Við hjálpum þér að finna þá.
Rafræn greiðsla
20. nóv. 2024
Hvað kostar að taka skammtímalán og dreifa greiðslunum?
Til að bera saman kjör á skammtímalánum er ekki nóg að horfa á vextina eða vaxtaprósentuna eina og sér heldur þarf að taka allan kostnað inn í reikninginn, svo sem lántökugjöld og greiðslugjöld. Á lánum sem fela í sér greiðsludreifingu er algengt að kjörin jafngildi 30-40% ársvöxtum. Og það er slatti!
Fjölskylda úti í náttúru
18. nóv. 2024
Hvenær er skynsamlegt að endurfjármagna íbúðalánið?
Það er alltaf skynsamlegt að hafa á hreinu hvaða kjör eru á íbúðaláninu þínu og kanna reglulega hvort það gæti verið hagstætt að skipta um lánsform eða lánveitanda. Með því að endurfjármagna getum við oft sparað okkur háar fjárhæðir.
24. okt. 2024
Auðvelt að bera saman ávöxtun á fjárfestingum
Það er gott að fara reglulega yfir fjárfestingarnar sínar og skoða hvort við séum að fá bestu ávöxtunina sem völ er á miðað við eigin markmið og áhættuvilja.
Íbúðahús
14. okt. 2024
Hvernig virka verðtryggð lán?
Verðtryggð lán eru bundin við vísitölu neysluverðs sem er notuð til að mæla verðbólgu. Það þýðir að höfuðstóll lánsins hækkar í takt við verðbólguna hverju sinni. Ef verðbólga er mikil getur hækkunin verið umtalsverð og haft þau áhrif að greiðslubyrði verðtryggðra lána hækkar þegar líður á lánstímann.
27. sept. 2024
Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?
Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
Seðlabanki Íslands
4. sept. 2024
Hagstjórn á verðbólgutímum
Verðbólgan hjaðnar hægar en vonir stóðu til og þrátt fyrir hátt vaxtastig er markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu ekki í sjónmáli. Hvers vegna gengur ekki betur að ná tökum á verðbólgunni og hvað er til ráða?
Ungt fólk
29. ágúst 2024
Fyrstu kaup og viðbótarlífeyrissparnaður
Viðbótarlífeyrissparnaður er frábær leið til að safna fyrir sinni fyrstu íbúð. Hægt er að nýta hann skattfrjálst til útborgunar við kaup á fyrstu íbúð eða til að greiða niður húsnæðislán í allt að 10 ár.
13. ágúst 2024
„Hafa bankarnir í alvöru leyfi til að gera þetta?“
Hvað eru áreiðanleikakannanir í raun og veru? Hvers vegna eru bankar að spyrja allra þessara spurninga og hvað er gert við svörin? Og þarf ég virkilega að svara þessu?
Maður með síma úti í náttúrunni
17. júlí 2024
Ellí svarar yfir 1.000 spurningum á dag – hér eru þær algengustu
Í vetur tókum við í notkun nýtt spjallmenni á netspjallinu á landsbankinn.is. Reynslan hefur verið góð og í meirihluta tilfella leysir Ellí úr erindum viðskiptavina. Hjá henni fá viðskiptavinir skjót svör á öllum tímum dags og um helgar og hún eykur þannig aðgengi að bankaþjónustu. En hverjar eru algengustu spurningarnar og svörin við þeim?
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur