Í þessum pistli er tekið dæmi um vaxtalaust lán að fjárhæð 600.000 krónur til sex mánaða. Lántökugjald er 3,5%. Seðilgjald er 250 krónur sem þarf að greiða í hvert skipti sem greitt er af láninu, þ.e. einu sinni í mánuði eða alls sex sinnum. Kostnaður við að taka lánið er því alls 22.500 krónur.
Bera þarf saman árlega hlutfallstölu kostnaðar
Þessi kostnaður er í raun sambærilegur við vaxtakostnað. En hverjir eru þá vextirnir af þessu vaxtalausa láni? Til að reikna það út þarf að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK). Árleg hlutfallstala kostnaðar felur í sér allan kostnað lántakandans vegna lántökunnar, þ.e. vexti, lántökugjald, seðilgjöld og annan fastan kostnað. Með því að bera saman ÁHK er hægt að sjá hvaða lánsform er hagstæðast hverju sinni.
Í dæminu hér að ofan kemur í ljós að árleg hlutfallstala kostnaðar af vaxtalausa láninu er 14%. Til samanburðar má benda á að hæstu yfirdráttarvextir eru 12% og ÁHK af því yfirdráttarláni er 12,7%. Yfirdráttarlánið ber vissulega vexti en á hinn bóginn leggst enginn annar kostnaður ofan á það, þ.e. hvorki lántökugjald né seðilgjald. Yfirdrátturinn er því ódýrari en vaxtalausa lánið sem tekið var sem dæmi.
Árleg hlutfallstala kostnaðar sýnir raunverulegan kostnað lántakandans af hvers konar lánsformi. Af ofangreindu er ljóst að vaxtalaust lán er ekki endilega ódýrasta lánið. Að mínu mati getur því verið villandi að tala um vaxtalaus lán nema ljóst sé að enginn eða lítill kostnaður, hvorki gjöld né vextir, leggist ofan á lánsfjárhæðina.
Sparnaður og varasjóður
Að því sögðu er rétt að minna á að ef ekki er brýn nauðsyn að kaupa eitthvað, þá er alltaf hagkvæmast að spara að fullu eða að hluta fyrir kaupunum og lækka þannig þá fjárhæð sem þarf að taka að láni. Sú vísa er heldur aldrei of oft kveðin að sparnaður borgar sig. Ef fólk hefur tök á borgar sig að eiga smávegis varasjóð sem nýta má ef kaupa þarf stærri og dýrari hluti. Stundum er hins vegar ekki hægt að komast hjá því að taka skammtímalán. Þá er rétt að velta því vandlega fyrir sér hvers konar skammtímalán koma best út en fjallað er um skammtímalán í öðrum pistli á Umræðunni.
Að lokum má benda á þá góðu reglu að þegar lokið er við að greiða upp lán er gott að halda áfram að greiða samsvarandi fjárhæð í reglubundinn sparnað. Sparnaðurinn getur farið í að greiða aukalega inn á önnur lán, leggja inn á sparireikning eða kaupa í verðbréfasjóði, allt eftir því hvað hentar hverju sinni.