Samantekt
Verð íslenskra sjávarafurða í erlendri mynt hefur áfram haldist hátt á síðustu mánuðum og er það nú nálægt því sögulega hámarki sem það náði í janúar á þessu ári. Verðið hefur verið í mjög ákveðnum hækkunarfasa allar götur síðan í byrjun árs 2013, eða í rúm fimm ár. Líkt og gerðist með flestar aðrar hrávörur lækkaði verðið töluvert árið 2009 en tók síðan að hækka og náði tímabundnu hámarki í kringum áramótin 2011-2012. Síðan tók það að lækka en hefur hækkað nær stöðugt frá ársbyrjun 2013. Frá því að verðið náði tímabundnu lágmarki í febrúar 2013 hefur það hækkað um 27,7%. Það gerir um 4,6% hækkun á ársgrundvelli. Til samanburðar hefur verðbólga á evrusvæðinu verið að meðaltali 0,7% á ári á þessu tímabili.