Landsbankinn er áfram fremstur í flokki í UFS-áhættumati Sustainalytics

Landsbankinn hefur fengið uppfært UFS-áhættumat frá Sustainalytics og heldur bankinn sér í flokknum hverfandi áhætta með einkunnina 8,5 á skala sem nær upp í 100. Þetta þýðir að Sustainalytics telur hverfandi hættu á að Landsbankinn verði fyrir fjárhagslegum áföllum vegna umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS-þátta).
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir:
„Við erum gríðarlega stolt af því að þriðja árið í röð heldur bankinn sér í lægsta áhættuflokki Sustainalytics. Landsbankinn ætlar að halda áfram að vera leiðandi í sjálfbærnivinnu, ekki bara á Íslandi heldur einnig á alþjóðavísu. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita hvernig við stöndum í alþjóðlegum samanburði og UFS-áhættumat Sustainalytics gefur okkur innsýn í þá stöðu. Til þess að vera leiðandi og geta mætt mögulegum sveiflum í efnahagslífinu þarf að tryggja traustan rekstur til lengri tíma. Þannig getum við stutt við íslenskt samfélag og atvinnulíf og tekið þátt í að efla það og styrkja. Með því að sinna sjálfbærnimálum vel hlúum við að starfsfólki okkar og lykilþáttum í starfsemi bankans. Við höfum náð góðum árangri við að tryggja arðbæran rekstur undanfarin ár og líkt og áður þá skiptir það okkur máli hvernig það er gert. Við tryggjum góðan árangur með því að hafa augun ávallt á rekstrinum en líka á því hvaða áhrif við höfum á umhverfi okkar og samfélag.“
Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sjálfbærnistjóri Landsbankans, segir:
„Ein stærsta áskorun Landsbankans í sjálfbærnistarfi sínu er að miðla áreiðanlegum, gagnsæjum og aðgengilegum upplýsingum um sjálfbærni til haghafa. Þrátt fyrir ítarlega árlega skýrslugjöf um sjálfbærni er ekki hægt að gera þá kröfu að haghafar lesi allar skýrslur bankans stafanna á milli. Þess vegna er mikilvægt að fá umbeðið áhættumat á UFS-þáttum bankans frá reyndum greiningaraðila. Það tryggir að við séum að stýra sjálfbærniþáttum á þann hátt sem er skynsamlegt fyrir rekstur bankans og gefur haghöfum skýra og aðgengilega mynd af því hvernig stýringu á UFS-þáttum er háttað. Eins sýnir niðurstaða matsins hvernig við stöndum gagnvart því að verða fyrir fjárhagslegum áföllum vegna UFS-þátta.“
Nánar um áhættumat Sustainalytics
UFS-áhættumat metur áhættu og áhættustýringu fyrirtækis í tengslum við umhverfismál og félagslega þætti, auk stjórnarhátta. Aðferðafræðin metur umfang mikilvægrar UFS-áhættu sem áhættustýring fyrirtækis nær ekki til. Því meiri áhætta sem fellur utan áhættustýringarramma fyrirtækis, því hærra er áhættumatið.
Sustainalytics hefur nú mælt UFS-áhættu fyrirtækja í tæpa þrjá áratugi og er meðal þeirra alþjóðlegu matsaðila sem fjárfestar horfa helst til þegar UFS-áhætta fyrirtækja er skoðuð.









