Viggó Ásgeirsson til liðs við bankann

Viggó Ásgeirsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Meniga, hefur verið ráðinn forstöðumaður Viðskiptaþróunar á Einstaklingssviði Landsbankans.
Viggó stofnaði fjártæknifyrirtækið Meniga og hefur síðustu 12 ár starfað þar sem framkvæmdastjóri markaðsmála, mannauðsmála og rekstrar. Áður var hann forstöðumaður Markaðs- og vefdeildar hjá Landsbankanum í sex ár og forstöðumaður Vefdeildar Búnaðarbankans í þrjú ár þar á undan. Viggó er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og B.A.-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands.
Viðskiptaþróun greinir og leiðir umbreytingarverkefni í þjónustu bankans, hvort sem hún fer fram í appi, netbanka, útibúum eða með öðrum hætti. Þá leiðir einingin nýsköpun í vöruframboði til einstaklinga þannig að þjónusta bankans sé sífellt í framþróun, stuðli að árangri viðskiptavina og einfaldi þeim lífið.









