Guðrún og Hildur verða forstöðumenn hjá bankanum
Guðrún S. Ólafsdóttir og Hildur Sveinsdóttir hafa tekið við sem forstöðumenn á Einstaklingssviði Landsbankans. Báðar hafa þær mikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði.
Guðrún verður forstöðumaður útibúakjarna höfuðborgarsvæðisins. Landsbankinn er með sex útibú á höfuðborgarsvæðinu og stýrir Guðrún m.a. ábyrgri og öflugri markaðssókn útibúanna og stuðlar að góðu samstarfi og samræmi í starfsemi þeirra. Undir útibúakjarnann fellur einnig bíla- og tækjafjármögnun fyrir einstaklinga.
Guðrún hefur starfað hjá Landsbankanum frá árinu 1984. Hún var útibússtjóri á árunum 2001-2014 þegar hún tók við sem svæðisstjóri. Guðrún er með meistaragráðu í alþjóðlegum fjármálum og bankastarfsemi frá Háskólanum á Bifröst.
Hildur Sveinsdóttir verður forstöðumaður Viðskiptalausna einstaklinga en hlutverk einingarinnar er m.a. að vinna að framúrskarandi gæðum í þjónustu við einstaklinga, stýra samskiptaleiðum og hafa umsjón með vildarkerfum, sölu og ráðgjöf. Einingin ber ábyrgð á umbreytingu þjónustu, reiðufjárþjónustu og þjálfun á framlínustarfsfólki.
Hildur starfaði í Markaðs- og samskiptadeild bankans frá 2007 til ársins 2018 þegar hún tók við sem deildarstjóri Viðskiptatengsla á Einstaklingssviði. Áður var hún vörumerkjastjóri Clarins á Íslandi á árunum 2005-2007. Hildur er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.