Fjölbreyttari leiðir til að nýta sér bankaþjónustu
Við höfum nú opnað fyrir þann möguleika að aðrir þjónustuaðilar en bankinn geti birt upplýsingar um greiðslureikninga viðskiptavina okkar í sínum eigin lausnum, hafi viðskiptavinur samþykkt það.
Þjónustuaðilar utan Landsbankans, t.d. annar banki eða fyrirtæki sem hagnýtir fjártækni, geta nú tengst kerfum bankans í gegnum API-þjónustu og sótt upplýsingar viðskiptavina sem hafa leyft það. Viðskiptavinir okkar geta síðan notað lausn viðkomandi þjónustuaðila, t.d. app, til að skoða stöðu greiðslureikninga, yfirlit og fleira. Með þessum breytingum er hægt að bjóða fjölbreyttari leiðir til að nýta sér þjónustu bankans.
Tilgangurinn er að framfylgja PSD2-tilskipuninni um greiðsluþjónustu, sem meðal annars er ætlað að greiða leið nýrra þátttakenda í fjármálaþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu. Á næstu misserum verða fleiri aðgerðir mögulegar með þessum hætti, s.s. millifærslur og erlendar greiðslur. Til að tengjast og hagnýta API-þjónustur bankans þurfa þjónustuaðilar að hafa starfsleyfi og eru þeir jafnframt eftirlitsskyldir.