Breytingar á verðskrá
Þann 2. maí 2022 verða gerðar breytingar á verðskrá Landsbankans sem taka einkum til reiðufjárviðskipta. Mesta breytingin snýr að einstaklingum og lögaðilum sem ekki eru með reikninga eða veltuviðskipti sín hjá okkur.
Einstaklingar sem eru með reikning hjá bankanum greiða ekki gjald þegar þeir leggja inn reiðufé hjá okkur, hvort sem það er gert í hraðbanka eða hjá gjaldkera. Ekki er heldur innheimt gjald af viðskiptavinum við úttekt á reiðufé úr hraðbönkum.
Lögaðilar sem eru með veltuviðskipti sín við bankann og leggja inn fé með öðrum hætti en í hraðbanka, munu þurfa að greiða gjald. Ef innlagnarhraðbanki er ekki til staðar verður ekki innheimt gjald, að því gefnu að reiðufénu sé skilað í þar til gerðum innleggstöskum eða -pokum.
Einstaklingar og lögaðilar sem ekki eru með reikninga eða veltuviðskipti sín hjá bankanum þurfa að greiða gjald þegar þeir leggja inn eða taka út reiðufé.
Með breytingunum hækka ýmsir núverandi verðskrárliðir og nýir bætast við. Breytingunum er ætlað að endurspegla betur kostnað bankans vegna þjónustu sem tengist reiðufé. Nánar er fjallað um gjöld vegna reiðufjárviðskipta í kafla 16 í verðskránni sem birt er hér á vefnum.
Við hvetjum viðskiptavini til að nýta sér sjálfsafgreiðslulausnir til að lækka eða komast hjá gjaldtöku.
Breytingarnar taka gildi 2. maí næstkomandi.