Ný útgáfa af almennum viðskiptaskilmálum Landsbankans
Nýju skilmálarnir gilda frá og með 1. október 2021 gagnvart nýjum viðskiptavinum. Gagnvart núverandi viðskiptavinum gilda eldri skilmálar til 30. nóvember 2021 en nýju skilmálarnir frá og með 1. desember 2021.
Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans (ný útgáfa)
Helstu efnisbreytingar á almennu viðskiptaskilmálunum eru eftirfarandi:
- Ákvæði um vinnslu persónuupplýsinga eru uppfærð (grein 2.1).
- Sett er nýtt ákvæði um hljóðritun símtala og varðveislu rafrænna samskipta (grein 2.1).
- Tekið er inn ákvæði um að bankinn geti fellt einhliða úr gildi umboð ef hann telur að hætta sé á misferli, svikum, peningaþvætti eða sambærilegu, og að umboð falli sjálfkrafa niður við andlát, niðurfellingu forsjár eða sviptingu fjárræðis viðskiptavinar eða umboðsmanns (grein 2.7).
- Veitt er útskýring á því hvað felst í sannvottun (aðferð við auðkenningu) og persónubundnum öryggisskilríkjum (t.d. PIN), sbr. ný lög um greiðsluþjónustu nr. 114/2021 (grein 3.1).
- Einskiptis auðkenningarnúmeri/kóða er bætt við sem dæmi um persónubundin öryggisskilríki (grein 3.1).
- Sett eru ný ákvæði um varúðarskyldu og ábyrgð viðskiptavinar gagnvart fölskum skilaboðum, auk leiðbeininga þar að lútandi (greinar 2.9, 3.1 og 5.4).
- Ákvæði um netbanka fyrirtækja eru uppfærð (grein 3.2).
- Veitt er útskýring á því að bankinn notar mismunandi heiti yfir greiðslureikninga og að það fari eftir eðli hvers reiknings hvort um sé að ræða greiðslureikning í skilningi laga um greiðsluþjónustu (grein 4.1).
- Ákvæði um greiðsluþjónustu eru uppfærð til samræmis við ný lög um greiðsluþjónustu (grein 4.3).
- Tímasetningar fyrir viðtöku og framkvæmd greiðslufyrirmæla eru uppfærðar til samræmis við framkvæmd (m.a. millibankakerfi Seðlabanka Íslands og SEPA) og lög um greiðsluþjónustu (grein 4.3).
- Tekið er fram að ef notandi greiðsluþjónustu bankans er ekki neytandi skuli tiltekin ákvæði nýrra laga um greiðsluþjónustu ekki gilda um þjónustuna (grein 4.3).
- Ákvæði um vaxtabreytingar á innlánsreikningum er fært til samræmis við ný lög um greiðsluþjónustu (grein 4.6).
- Ákvæði um greiðslukort eru færð til samræmis við ný lög um greiðsluþjónustu (kafli 5).
- Tekið er fram til skýringar að um greiðslukort gildi jafnframt alþjóðlegir skilmálar viðkomandi kortafyrirtækja (t.d. VISA eða MasterCard) sem birtir eru á vefsvæði þeirra (grein 5.1).
- Settur er sérstakur kafli (6. kafli) um ábyrgð vegna greiðsluþjónustu til samræmis við ný lög um greiðsluþjónustu.
- Tekið er inn ákvæði um að bankinn geti lokað reikningi og öðrum þjónustuþáttum eða slitið viðskiptasambandi m.a. á þeim grundvelli að viðskiptasambandið samrýmist ekki áhættustefnu bankans (greinar 4.9 og 7).
Ákvæði skilmálanna sem falla undir gildissvið laga um greiðsluþjónustu mynda rammasamning um greiðsluþjónustu milli viðskiptavinar og bankans í skilningi laga um greiðsluþjónustu. Núverandi viðskiptavinir hafa rétt á að tilkynna bankanum um uppsögn rammasamnings um greiðsluþjónustu fyrir 1. desember 2021 ef þeir vilja ekki samþykkja breytingarnar sem gerðar eru með nýju útgáfunni. Núverandi viðskiptavinur telst hafa samþykkt breytingarnar tilkynni hann bankanum ekki um annað fyrir 1. desember 2021.









