Truflun á færslum í gegnum erlendar greiðsluþjónustur
Vegna truflunar í greiðslumiðlunarkerfum sem tengjast Visa-greiðslukortum geta korthafar sem greiða með milligöngu erlendra þjónustuaðila, s.s. PayPal og Google, orðið fyrir því að greiðslunum sé hafnað, þrátt fyrir að inneign eða heimild sé til staðar á greiðslukortum þeirra.
Í tilkynningu frá Valitor föstudaginn 18. maí kemur fram að undanfarna daga hafi Valitor þurft að herða á öryggistillingum í heimildakerfi félagsins til verjast villum sem hafi komið fyrir í færslum frá erlendum þjónustuaðilum eins og PayPal og Google. Villurnar valda því að færslunum er hafnað, þrátt fyrir að nægar heimildir séu á kortum. Unnið sé að því í samstarfi við Visa International að kippa þessu í liðinn hið fyrsta.
Korthafar sem verða fyrir því að greiðslum er hafnað, án réttmætrar ástæðu, eru hvattir til að hafa samband við þjónustuver Valitor í síma 525 2000. Þjónustuverið er opið allan sólarhringinn.









