Nína og Sigrún taka við störfum sem útibússtjórar
Nína Guðbjörg Pálsdóttir og Sigrún Sæmundsdóttir munu í byrjun júlí taka við stjórn útibúa Landsbankans á Selfossi annars vegar og í Hamraborg í Kópavogi hins vegar. Báðar hafa þær mikla reynslu af störfum í fjármálaþjónustu.
Nína tekur við starfi útibússtjóra á Selfossi af Gunnlaugi Sveinssyni sem lætur af störfum fyrir aldurs sakir. Nína hefur starfað í Landsbankanum í 31 ár. Frá 2004 til 2010 var hún útibússtjóri á Selfossi en frá 2011 til 2018 var hún forstöðumaður á Einstaklingssviði Landsbankans og síðan sérfræðingur í Áhættustýringu.
Sigrún Sæmundsdóttir tekur við stjórn útibús Landsbankans í Hamraborg af Guðrúnu Ægisdóttur sem mun hefja störf í viðskiptalausnum á Einstaklingssviði bankans. Sigrún hefur rúmlega 20 ára reynslu af bankastörfum. Hún hefur unnið í 15 ár hjá Landsbankanum sem sérfræðingur, deildarstjóri og forstöðumaður, m.a. á Einstaklingssviði. Sigrún lauk námi í iðnrekstrarfræði frá Tækniskóla Íslands árið 1996 og B.Sc. prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2006.