Ný þjóðhagsspá: Ekki sér fyrir endann á uppsveiflunni
Í nýrri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans er gert ráð yfir að hagvöxtur verði áfram kröftugur allt spátímabilið 2017-2020 þótt útlit sé fyrir að hagkerfið sé nú nálægt toppi hagsveiflunnar.
Nýja þjóðhags- og verðbólguspáin er birt í Þjóðhag, ársriti Hagfræðideildar. Ritið er eingöngu birt í vefútgáfu á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu Landsbankans, og er þetta í fyrsta skipti sem ritið er eingöngu gefið út á rafrænu formi.
Nýja hagspáin var kynnt á morgunfundi Landsbankans í Silfurbergi Hörpu
Hagvöxtur verður að meðaltali 4% og verðbólga 2,7%
Hagfræðideild gerir ráð fyrir að árlegur hagvöxtur á árunum 2017-2020 verði að meðaltali 4%, sem er mun kröftugri vöxtur en reiknað er með í flestum þróuðum ríkjum á komandi árum. Samkvæmt spánni verður hagvöxtur 5,5% á þessu ári en fer svo stiglækkandi til ársins 2020 þegar gert er ráð fyrir 2,5% hagvexti. Hagfræðideild spáir því að einkaneysla vaxi samfellt allt tímabilið en að á næstu tveimur árum dragi smám saman úr atvinnuvegafjárfestingu. Á hinn bóginn er reiknað með kröftugum vexti í íbúðafjárfestingu og opinberri fjárfestingu allt spátímabilið.
Í spánni er reiknað með að verðbólga hækki smám saman í átt að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Hækkun fasteignaverðs og hækkandi innflutningsverð munu að öllum líkindum ýta verðbólgunni upp fyrir verðbólgumarkmiðið um mitt ár 2019. Að meðaltali verður verðbólga um 2,7% á tímabilinu 2017-2020.
Nýjar íbúðir stærri og fermetraverð hærra en eldri íbúða
Í spánni er fjallað um ýmsa þætti efnahagslífsins, s.s. þróun fasteignaverðs, fjárfestingar, einkaneyslu, samneyslu, vaxtaþróun, gengi krónunnar og um alþjóðlega þróun efnahagsmála.
Í umfjöllun um fasteignaverð kemur m.a. fram að ef litið er á viðskipti með íbúðir á síðustu tveimur árum sést að nýjar íbúðir eru að jafnaði bæði stærri og fermetraverð hærra en í eldri íbúðum. Einingaverð á nýjum íbúðum er þannig mun hærra en á þeim eldri. Því er ekki líklegt að aukið framboð nýrra íbúða leiði til verðlækkana á fasteignum. Hagfræðideild spáir 19% hækkun fasteignaverðs milli áranna 2016 og 2017. Síðan færist meiri ró yfir markaðinn og verð hækkar um 8,5% á árinu 2018, 7% árið 2019 og 6% árið 2020.