Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landsbankinn taka höndum saman
Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landsbankinn hafa skrifað undir samning um að bankinn verði einn af aðalstyrktaraðilum félagsins. Samningurinn er til þriggja ára. Landsbankinn vill með þessu styðja við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi Slysavarnafélagsins Landsbjargar en félagið er landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og eru ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Auk fjárframlags felur samningurinn m.a. í sér samstarf um fræðslu og kynningu á starfsemi félagsins.
Ómetanlegt starf um allt land
„Slysavarnarfélagið Landsbjörg og aðildarfélög þess vinna frábært starf um allt land. Það er ómetanlegt fyrir okkur sem búum á Íslandi að eiga svona öflug sjálfboðaliðasamtök. Við í Landsbankanum erum afar ánægð með að geta lagt þeim lið,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Mikilvæg viðbót við aðrar fjáröflunarleiðir
„Það er mjög ánægjulegt að Landsbankinn hafi ákveðið að styrkja félagið með svo myndarlegum hætti og renna með því styrkari stoðum undir björgunar- og slysavarnamál á Íslandi. Það kostar mikla fjármuni að halda úti öflugu björgunarstarfi og standa fyrir virkum slysavörnum. Samstarfssamningar við fyrirtæki eru afar mikilvæg viðbót við aðrar fjáröflunarleiðir til góðra verka. Framlag Landsbankans mun koma sér vel og við hlökkum til samstarfsins,“ segir Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.