Sjálf­bærni­dag­ur Lands­bank­ans – upp­tök­ur

Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 22. september 2022. Aðalfyrirlesari fundarins var Tjeerd Krumpelman frá hollenska bankanum ABN AMRO.
Sjálfbærnidagur 2022
22. september 2022

Fundurinn var sérstaklega ætlaður stjórnendum fyrirtækja, fólki í rekstri og fjárfestum. Tilgangurinn með fundinum var að þau sem sótt fundinn eða fylgdust með honum í streymi fengju betri innsýn í hvað ber hæst í þessum málaflokki og fengju skýrari hugmyndir um næstu skref í sjálfbærnimálum fyrir sitt fyrirtæki eða fjárfestingar.

Mikil áhersla á sjálfbærni

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn og fjallaði um stefnu og aðgerðir bankans í sjálfbærni. Landsbankinn hefði fyrst byrjað að huga að þessum málum árið 1992 þegar hann gerðist aðili að fjármálaverkefni Sameinuðu þjóðanna (UNEP-FI). Bankinn hefði síðan tekið málin fastari tökum 2006 með aðild að hnattrænu samkomulagi SÞ (UN Global Compact) en í raun hefðu hlutirnir ekki byrjað að hreyfast af alvöru fyrr en eftir árið 2011. Síðan hafi bankinn lagt mikla áherslu á þennan málaflokk, mótað sér skýra stefnu og sett mikinn kraft í sjálfbærnivinnu.

Horfa á erindi Lilju

Upptaka frá fundinum

Grafísk mynd af Dyrfjöllum

Hættum að einblína á hagvöxt

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, fjallaði í sínum fyrirlestri um fjárfestingar og fyrirtækjarekstur fyrir auðgandi framtíð. Hún benti á að á sl. 50 árum eða svo hefði mannfjöldi tvöfaldast, heimshagkerfið fjórfaldast og heimsviðskipti tífaldast. Drifkraftur þessarar þróunar hefði verið blind trú á hagvöxt en sá hagvöxtur hefði byggt á auðlindanýtingu sem augljóslega væri ekki sjálfbær. „Við þurfum að breyta um markmið, breyta um hvernig við hugsum og hvað okkur finnst mikilvægt,“ sagði hún. „Við þurfum að hætta að einblína á hagvöxt því hann er drifkraftur eyðileggingar á jörðinni okkar.“ Í stað hagvaxtar ætti að huga að velsæld, eða það sem hún nefndi sældarhagkerfið. Þar væri tekið mið af öðrum þáttum, s.s. heilsu, menntun, sjálfbærri nýtingu auðlinda, jafnrétti og fátækt. Hingað til hefðu aðgerðir í loftslagsmálum alls ekki skilað nægjanlegum árangri. „Við þykjumst vera að gera eitthvað, en það eru engar breytingar. Ef við missum loftslagsmálin úr höndunum á okkur þá munu börnin okkar og barnabörn ekki eiga neinn séns á að búa á þessari jörð,“ sagði Kristín.

Horfa á erindi Kristínar

Ekki nóg að huga bara að fjárhagnum

Aðalfyrirlesari á sjálfbærnidegi Landsbankans var Tjeerd Krumpelman alþjóðasviðsstjóri í sjálfbærni hjá hollenska bankanum ABN AMRO en Tjeerd hefur einstakt lag á að tala um sjálfbærni fyrirtækja á mannamáli. Hann hefur yfir 20 ára reynslu í fjármálageiranum og annast m.a. sjálfbærniráðgjöf hjá ABN AMRO sem er í fararbroddi fjármálafyrirtækja í sjálfbærum fjármálum.

Krumpelman sagði stefnu ABN AMRO vera skýra, bankinn ætlaði sér mikilvægt hlutverk í að stuðla að aukinni sjálfbærni. Það væri ekki lengur nóg fyrir banka að huga eingöngu að fjárhagslegum þáttum og birta aðeins upplýsingar um fjárhagslega þætti. Samfélagið ætlaðist til þess að bankar hefðu jákvæð samfélagsleg áhrif og þessi þáttur í upplýsingagjöf banka væri því ekki síður mikilvægur. ABN AMRO hefur verið leiðandi í að meta áhrif af lánum og fjárfestingum bankans (e. impact assessment). Krumpelman sagði að bankinn lyti svo á að þannig gæti bankinn í senn unnið að sjálfbærni og minnkað áhættu til langs tíma. Enn mikilvægara væri þó að þannig gæti bankinn haft áhrif til góðs.

Horfa á erindi Tjeerd Krumpelman

Hægt að draga úr útblæstri um 92%

Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) var fyrsta fyrirtækið til að hljóta sjálfbærnimerki Landsbankans. Í erindi sínu fjallaði Runólfur Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, m.a. um hvernig fiskveiðistjórnunarkerfið gerði útgerðinni mögulegt að lágmarka eins og kostur er neikvæð umhverfisáhrif.

ÚR hefði lengi haft sjálfbærni að leiðarljósi og hjá félaginu væru litið svo á að rekstur og arðsemi þess byggi á sjálfbærni. Heildarútblástur á koltvísýringi á hvert veitt kíló hjá ÚR er 1,9 kg af koltvísýringi sem er með því lægsta sem þekkist vegna veiða á villtum stofnum en til samanburðar er útblástur vegna nautakjöts 60 kg af koltvísýringi á hvert kíló og 25 kg vegna framleiðslu á kílói af lambakjöti. Útblástur vegna fiskeldis er 5 kg.

Hann fjallaði einnig um yfirstandandi breytingar á frystiskipi félagsins, Guðmundi í Nesi, en verið er að breyta því þannig að hægt verði að knýja það með metanóli í stað díselolíu. Með því móti verður hægt að minnka útblástur koltvísýrings vegna reksturs skipsins um 92%. Hjá ÚR eru öll veiðarfæri vigtuð þegar þau fara um borð og svo aftur þegar þau eru tekin frá borði og er tilgangurinn að draga úr mengun af þeirra völdum. Þá eru öll veiðarfæri ÚR með GPS-senda sem kom sér vel í vetur þegar Guðmundur í Nesi missti trollið. Með því að fylgjast með sendingum frá tækinu var hægt að sjá að trollið var á um 1.000 metra dýpi. „Áhöfnin á Guðmundi hætti ekki fyrr en hún hafði náð að fiska trollið upp með því að nota þríkrækju. Þetta var eins og að standa uppi á Esjunni og húkka fisk í Kollafirði,“ sagði Runólfur.

Horfa á erindi Runólfs

Vistvænni mannvirkjavirkjagerð frá sjónarhóli verktaka

Mannvirkjagerð getur ekki verið vistvæn eða græn, því hún er í eðli sínu mengandi starfsemi. Sigrún Melax, gæðastjóri hjá Jáverki ehf., fjallaði um hvernig fyrirtækið hefði markvisst unnið að því að draga úr neikvæðum áhrifum af starfsemi sinni. Til þess að það væri mögulegt yrðu skýrar upplýsingar um útblásturinn að liggja fyrir. Hún benti á að ef litið væri til árlegrar losunar íslenskra bygginga þá væri vægi byggingarefna þyngst, eða um 45%, flutningur á verkstaða og byggingarframkvæmdir væru ábyrgar fyrir um 13% útblásturs og 12% útblásturs væri vegna endurnýjunar og endurbóta. Það hefði síðan komið á óvart að heil 30% væru vegna orkunotkunar í rekstri bygginga, sérstaklega í ljósi þess að hér á landi væri fyrst og fremst stuðst við endurnýjanlega orkugjafa.

Sigrún sagði að Jáverk hefði, eftir að hafa skoðað málin, ákveðið að afla sér Svansvottunar á öll eigin byggingarverkefni. Þar á meðal er nýr miðbær á Selfossi en einnig verða 151 íbúð nálægt Gróttu á Seltjarnarnesi, 80 íbúðir við Tryggvagötu á Selfossi og 180 íbúðir á Digraneshæð í Kópavogi Svansvottaðar. „Þetta er betri vara. Við takmörkum notkun eiturefna, loftskiptikerfi stuðlar að betri loftgæðum og minna ryki. Meira er lagt í rakavarnir og meira lagt upp úr góðri lýsingu og þar með minni orkunotkun. Það er ódýrara að fjármagna svona verkefni og við teljum að þegar kemur að því að erfiðara verður að fá fjármagn í byggingarverkefni verði svona verkefni á undan í röðinni. Við teljum líka að markaðurinn sé að kalla eftir svona húsum,“ sagði hún. Þá væri mikilvægt að vera á undan kröfum stjórnvalda en búast mætti við að innan tíðar yrðu settar reglur um hámarkslosun vegna bygginga.

Horfa á erindi Sigrúnar

Bætt orkunýting í skipaflutningum

Skipafélagið Cargow gerði árið 2012 langtímasamning við Alcoa um flutning á Norður-Atlantshafi og árið 2021 keypti félagið Thorship, sem er með langtímaþjónustusamning við Rio Tinto, en þar er skiparekstur í höndum annara. Cargow siglir vikulega á milli Reyðarfjarðar, vesturstrandar Noregs og til Rotterdam. Í erindi sínu fjallaði Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri Cargow, um hvernig félagið hefur sniðið starfsemi sína að þjónustu við stóriðnað. Siglingakerfi félagsins hefði verið hannað í kringum flutningana, m.a. með tilliti til ákveðins siglingarhraða og forsendna um orkunotkun. Hann ræddi um hönnun, fjárfestingu og fjármögnun fjögurra 12.000 tonna skipa sem félagið lét smíða. Mikil áhersla hefði verið lögð á bætta orkunýtingu. Upphaflega hefði staðið til að nota jarðgas til að knýja skipin en því miður hefði það ekki verið mögulegt, flækjustigið hefði verið of hátt, m.a. vegna óvissu um afhendingu á jarðgasi í höfnum. Þess í stað hefði verið ákveðið að nota vélar sem gætu bæði nýtt hefðbundna skipaolíu en líka jarðgas og mögulega aðra orkugjafa.

Fram kom í hans erindi að mikill árangur hefði náðst í orkunýtingu og hagkvæmni. Nýju skipin losuðu hátt í 40% minni koltvísýring miðað við tonn farms á hverja mílu, miðað við eldri leiguskip félagsins sem voru í sömu flutningum. Samkvæmt skráningarkerfi Evrópusambandsins losuðu skipafélög með gámaskip í línusiglingum á samkeppnismarkaði félagsins um 98-132% meiri koltvísýring miðað við tonn farms á hverja mílu.

Stefán fjallaði einnig um næstu skref, s.s. um landtengingu rafmagns í höfnum. Staðan væri sú að skipin yrðu tilbúin um áramót og landtenging væri tilbúin í Noregi og Rotterdam. Hér á landi væri fjárfesting í landtengingu ekki komin í gang og engin skýr svör eða tímalína hefði fengist hjá stjórnvöldum.

Horfa á erindi Stefáns

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hlaðvarp
28. sept. 2022
Ekki nóg að huga bara að fjárhagnum
Það er ekki lengur nóg fyrir fjármálafyrirtæki að huga eingöngu að fjárhagslegum þáttum og birta aðeins upplýsingar um fjárhagslega þætti. Samfélagið ætlast til þess að þau hafi jákvæð samfélagsleg áhrif og þessi þáttur í upplýsingagjöfinni er ekki síður mikilvægur að mati Tjeerd Krumpelman alþjóðasviðsstjóra í sjálfbærni hjá hollenska bankanum ABN AMRO sem er gestur hlaðvarpsins. Tjeerd annast m.a. sjálfbærniráðgjöf hjá ABN AMRO sem er í fararbroddi fjármálafyrirtækja í sjálfbærni og hefur verið leiðandi í að meta áhrif af lánum og fjárfestingum bankans (e. impact assessment). Þannig geti bankinn í senn unnið að sjálfbærni og minnkað áhættu til langs tíma. Hann ræðir við Aðalheiði Snæbjarnardóttur, sjálfbærnistjóra Landsbankans og Rún Ingvarsdóttur, sérfræðing í samskiptamálum hjá bankanum.
Olíutankar í USA
2. des. 2021
Loftslagsbreytingar framtíðar hafa strax áhrif á fjárfesta
Áhætta vegna loftslagsbreytinga er gjarnan metin út frá því hver áhrifin verða eftir nokkra áratugi. Fjárfestar sem eru vanir að skoða fjárfestingartækifæri og breytingar til styttri tíma velta því ekki endilega loftslagsbreytingum mikið fyrir sér. Það geta reynst dýrkeypt mistök.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur