Hvað þýða öll þessi fjár­mála­orð?

Áður en við förum að lesa okkur til um íbúðakaup eða mætum á fund með fjármálaráðgjafa getur verið gott að skoða hugtökin sem við munum lesa og heyra í samtalinu. Þannig getum við verið viss um að hafa þá undirstöðu sem við þurfum til að byggja skilning og taka raunverulega upplýstar ákvarðanir.
11. janúar 2022

Flest þurfum við að stíga út fyrir eigin sérsvið og þægindaramma þegar við tökum sumar af mikilvægustu ákvörðunum lífsins. Slíkar ákvarðanir tengjast gjarnan húsnæðiskaupum og fjármálum. Sérfræðingar í bönkum og lánastofnunum hjálpa okkur að taka þessar ákvarðanir, kynnast valkostum og vega og meta áhrifin á líf okkar til framtíðar. En áður en við förum að lesa okkur til um íbúðakaup eða mætum á fund með fjármálaráðgjafa getur verið gott að skoða hugtökin sem við munum lesa og heyra í samtalinu. Þannig getum við verið viss um að hafa þá undirstöðu sem við þurfum til að byggja skilning og taka raunverulega upplýstar ákvarðanir.

Lánshæfi – mat á því hvort og hversu líklegt er að þú getir staðið í skilum með lán í náinni framtíð. Lánshæfismat er ekki það sama og greiðslumat, sem segir til um greiðslugetu þína, heldur mat á því hversu áreiðanlegur eða áhættusamur lántaki þú sért, þ.e. hversu líklegt sé að þú endurgreiðir lán, og er byggt á viðskiptasögu eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Greiðslumat – mat á því hvort þú getir borgað  af nýju láni, þ.e. hver greiðslugeta þín er. Matið byggir á tekjum, útgjöldum eins og framfærslu, rekstri á fasteign og bíl og öðrum skuldum en tekur ekki tillit til tilfallandi útgjalda. Þó greiðslugeta þín teljist jákvæð þýðir það ekki að þú hafir fengið loforð um lán. Aðrir þættir eru líka metnir, eins og lánshæfi, fjárhæð láns eða veðhlutfall og fjárhæð tekjuafgangs í greiðslumatinu.

Samsköttun – þegar skattur er lagður á aðila sameiginlega og reiknaður út frá persónuafslætti, tekjum og eignum beggja. Hjón og sambúðarfólk geta verið samsköttuð, en einnig t.d. systurfyrirtæki.

Verðtryggð lán – eru tengd verðbólgu sem þýðir að höfuðstóll lánsins getur hækkað í upphafi lánstímans. Það hefur í för með sér hægari eignamyndun. Þótt lánið hækki vegna verðbólgu þýðir það ekki endilega verri fjárhagsstöðu því til lengri tíma hækkar fasteignaverð yfirleitt í takt við verðbólgu. Vextir verðtryggðra lána eru almennt lágir og greiðslubyrði lægri.

Óverðtryggð lán - eru ekki bundin við verðbólgu sem þýðir að lánið hækkar aldrei, heldur lækkar jafnt og þétt út lánstímann. Þetta skilar sér í hraðari eignamyndun og lægri afborgunum þegar líður á lánstímann. Vextir af óverðtryggðum lánum eru yfirleitt hærri en af verðtryggðum og greiðslubyrði getur því verið töluvert hærri í upphafi.

Gjalddagar lána – endurgreiðsluferli lána getur verið á tvo vegu, jafnar greiðslur eða jafnar afborganir. Þegar greitt er af láni skiptist greiðslan annars vegar í afborgun af höfuðstól lánsins og hins vegar í vexti. Ef lánið er verðtryggt bætast við afborganir af verðbótum.

Jafnar greiðslur – mánaðarleg greiðsla af láninu er sú sama en afborgunarhluti höfuðstóls er lágur fyrst og vextir hærri. Þetta breytist svo þegar líður á lánstímann, afborgun höfuðstóls hækkar og vaxtahlutinn lækkar.  

Jafnar afborganir – aðal einkenni þessarar greiðsluleiðar er að afborgun inn á höfuðstól er alltaf sama fjárhæðin. Hluti vaxta lækkar þegar líður á lánstímann þannig að gjalddagarnir eru háir fyrst en lækka svo með hverjum mánuði sem líður.

Höfuðstóll – í þessu samhengi merkir höfuðstóll það sem eftir er af láninu. Höfuðstóll getur líka vísað í peningaupphæð eða önnur verðmæti, svo sem sauðfjáreign.

Eigið fé – þegar kemur að því að kaupa fasteign þurfum við gjarnan að taka lán en líka leggja til okkar eigið fé. Eigið fé samanstendur af okkar peningum sem við getum notað í kaupin, hvort sem þeir eru sparnaður, verðbréf eða bundnir í fasteign sem við ætlum að selja. Okkar eigið fé í fasteign er fundið út sem mismunur á verðmæti fasteignar og áhvílandi skuldum. Ef fasteign er verðmetin á 50 milljónir króna og áhvílandi lán eru 30 milljónir króna þá er eigið fé mismunurinn, eða 20 milljónir króna.

Uppgreiðslugjald – á lánum með föstum vöxtum er yfirleitt uppgreiðslu- eða umframgreiðslugjald. Gjaldið er þá tekið af þeirri fjárhæð sem greidd er inn á lánið. Það má greiða allt að 1.000.000 kr. á ári inn á lán án kostnaðar. Einnig er regla um að kostnaðurinn getur að hámarki orðið 0,2% fyrir hvert ár sem eftir er af fastvaxtatímabilinu eða aldrei hærri en 1% af endurgreiðslu með hliðsjón af hámarks fastvaxtatíma sem er 5 ár.

Fastir vextir – þú getur fest vexti í 36 eða 60 mánuði í senn. Vextirnir á íbúðaláninu þínu eru þá fastir og þú tryggir þig fyrir vaxtasveiflum. 

Breytilegir vextir – vaxtaprósentan getur hækkað eða lækkað yfir lánstímann í takt við sveiflur á markaði og efnahagsástand hverju sinni. Stýrivextir Seðlabankans hafa m.a. áhrif á vexti á mörkuðum.

Fastvaxtatími – það er hægt að festa vexti í ákveðinn tíma, yfirleitt annað hvort í 3 eða 5 ár, og kallast sá tími fastvaxtatími.

Stýrivextir – einnig kallaðir meginvextir, eru vextirnir sem Seðlabankinn notar í viðskiptum sínum við önnur fjármálafyrirtæki og til að hafa áhrif á markaðsvexti. Þegar Seðlabankinn breytir stýrivöxtum breyta lánveitendur gjarnan eigin vöxtum í kjölfarið.

Veðhlutfall – sem er einnig kallað lánshlutfall, segir til um hversu hátt lán hvílir á eign miðað við verðmæti hennar. Lánastofnanir setja gjarnan skilyrði um hámark veðhlutfalls, t.d. 70% af fasteignamati við endurfjármögnun. Við kaup á íbúðarhúsnæði er lánað allt að 80% en fyrstu kaupendur geta fengið allt að 85% lán. Hámark veðhlutfalls byggir á reglum Seðlabankans um fasteignalán til neytenda.

Skilmálabreyting – kallast það þegar breyta þarf skilmálum láns með gerð viðauka. Ef þú t.d. festir vexti á láni sem áður bar breytilega vexti þarf að gera skilmálabreytingu. Það sama á við ef þú semur um úrræði, t.d. frestun greiðslna.

Viðbótarlífeyrissparnaður – lífeyrissparnaður sem er alfarið þín eign, ekki hluti í sameiginlegum lífeyrissjóð. Hann erfist að fullu, ólíkt lífeyrissparnaði í sameign, og kemur í raun út sem launahækkun þar sem laungreiðandi mætir þínu framlagi með 2% viðbót.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Ferðamenn á jökli
9. júní 2021
Tölum íslensku um sjálfbærni
Þegar nýjar hugmyndir, tækni eða aðferðir ryðja sér til rúms á Íslandi koma þær oft erlendis að og fagorðin eru gjarnan á ensku. Það er hætt við því að erlend fagorð torveldi okkur skilning á nýjungum og festi þær í einhverjum fílabeinsturni, sem er miður – nógu erfitt er samt að setja sig inn í umræðuna eða læra á ný tæki.
Verðbréf í appi
4. jan. 2024
Þetta er gott að vita áður en þú kaupir í sjóði
Fjárfesting í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er vinsæl leið til að ávaxta sparifé. Ef þú ert að velta fyrir þér að setja sparnaðinn þinn, eða hluta af honum, í sjóð er gott að þekkja nokkur lykilhugtök.
Verðbréfasíða í netbanka
5. okt. 2021
Þetta er gott að vita áður en þú kaupir hlutabréf
Áður en fjárfest er í hlutabréfum er mikilvægt að vera með lykilhugtök á hreinu, skilja ferlið og vera meðvituð um áhættuna sem fylgir.
Fasteignir
2. sept. 2022
Ætti ég að festa vextina á íbúðaláninu mínu?
Seðlabankinn hefur á árinu 2022 hækkað stýrivexti, úr 2% í 5,5% en lægstir voru stýrivextir 0,75% á árinu 2021. Þegar vextir byrjuðu að hækka varð algengara að fólk festi vextina, í 3 eða 5 ár. Í þessari grein er fjallað um muninn á föstum og breytilegum vöxtum og hvað þarf að hafa í huga þegar ákvörðun um lánsform er tekin.
28. apríl 2021
Hvað þarf að hafa í huga við fyrstu fasteignakaup?
Kaup á fyrstu fasteign eru mikil tímamót í lífi okkar flestra. Kaupin geta verið vandasöm og þau geta valdið verulegu stressi, enda er yfirleitt um að ræða mestu fjárfestingu sem við ráðumst í. Gott er að brynja sig með upplýsingum og skoða eftirfarandi atriði áður en haldið er af stað.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur