Þetta er gott að vita áður en þú kaup­ir hluta­bréf

Áður en fjárfest er í hlutabréfum er mikilvægt að vera með lykilhugtök á hreinu, skilja ferlið og vera meðvituð um áhættuna sem fylgir.
Verðbréfasíða í netbanka
5. október 2021

Í efnahagsumhverfi eins og okkar, þar sem vextir eru lægri en verðbólga og sparireikningar gefa neikvæða raunávöxtun, er eðlilegt að leita eftir öðrum leiðum til þess að ávaxta sparifé. Sum kjósa í þessum aðstæðum að færa sig í verðbréfa- eða fjárfestingarsjóði, en þar liggur hagkvæmnin í sérfræðiþekkingu sjóðstjóra og tækifærum til eignadreifingar. Önnur vilja hafa meiri stjórn á sínu eignasafni, hafa hærra áhættuþol og fjárfesta því í stökum verðbréfum. Meginreglan sem ber alltaf að hafa í huga við fjárfestingar er að til þess að fá ávöxtun verður að taka áhættu, en meiri áhætta er þó ekki ávísun á betri ávöxtun.

Hlutabréfamarkaðir hreyfast hratt og geta verið stormasamir. Því þarf að huga vel að nokkrum þáttum áður en fjárfest er:

  1. Markmið og tímarammi fjárfestingar
    Skammtíma stöðutaka og spákaupmennska er kostnaðarsöm og krefst bæði þekkingar á mörkuðum og mikillar viðveru. Fjárfestingar til lengri tíma reyna meira á þolinmæði og getu til þess að horfa fram hjá skammtímasveiflum, ásamt getu til að halda ró sinni.
  2. Áhættuþol
    Hlutabréfum fylgir meiri áhætta en skuldabréfum eða sjóðum og því þurfa fjárfestar sem kjósa þessa leið að hafa ágætt áhættuþol. Yngra fólk hefur almennt hærra áhættuþol en eldra, en þetta getur einnig verið mjög persónubundið. Ekki er ráðlegt að fjárfesta pening sem alls ekki má tapast í hlutabréfum.
  3. Eignadreifing
    Við samsetningu eignasafns er gott að hafa fjölbreytni í huga, bæði með tilliti til eignaflokka og undirliggjandi starfsemi. Með því að kaupa hlutabréf í 10-20 mismunandi félögum sem starfa jafnvel í ólíkum greinum má draga verulega úr áhættu hlutabréfasafnsins. Viðbót sjóða og/eða skuldabréfa í safnið er einnig eitthvað sem vert er að íhuga.

Einfaldast að nota netbankann

Til þess að eiga viðskipti með innlend hlutabréf er einfaldast og ódýrast að nota netbankann. Áður en hægt er að stunda viðskipti þarf að vera með samning um verðbréfaviðskipti en skrifað er undir samninginn rafrænt undir „Verðbréf“ í netbankanum. Opið er fyrir viðskipti í Kauphöll Íslands frá kl. 9.30 til 15.30 alla virka daga en opnunartímar fyrir aðrar kauphallir má finna á vefsíðum þeirra.

Markaðsgengi eða tilboðsgengi?

Á opnunartíma Kauphallarinnar er hægt að setja inn kaup- og sölutilboð á markaðsgengi eða tilboðsgengi. Pantanir á markaðsgengi eru afgreiddar eins fljótt og hægt er á besta gengi sem markaðurinn býður á þeim tíma. Einnig er hægt að taka fram ákveðið gengi sem viðskiptavinur vill eiga viðskiptin á, og kallast það þá tilboðsgengi. Pantanir á tilboðsgengi fara strax inn á markaðinn og gilda þar út daginn eða þangað til viðskipti eiga sér stað. Utan opnunartíma er aðeins hægt að senda inn pantanir á tilboðsgengi, en þær eru síðan sendar inn á markaðinn við opnun næsta virka dag.

Fyrir viðskipti á öðrum mörkuðum en Kauphöll Íslands þarf að hafa samband við Verðbréfa- og lífeyrisþjónustu á vl@landsbankinn.is eða í síma 410-4040.

Það sem koma þarf fram í viðskiptabeiðni er eftirfarandi:

  • Nafn og kennitala
  • Númer á reikningi sem skal skuldfærður á uppgjörsdegi (verður að vera í sömu mynt og bréfin)
  • Um hvaða bréf ræðir, nafn og auðkenni
  • Hvort eigi að kaupa eða selja
  • Fjöldi bréfa eða fjárhæð

Uppgjör fer fram tveimur dögum síðar

Verðbréfaviðskipti eru alla jafna afgreidd T+2, en það þýðir að uppgjör er tveimur virkum dögum eftir að viðskiptin eiga sér stað. Þannig eru viðskipti sem eiga sér stað á þriðjudegi afgreidd á fimmtudegi, en viðskipti fimmtudaga bíða til mánudags. Við kaup er mjög mikilvægt að á uppgjörsdegi sé næg innstæða á reikningnum til þess að hægt sé að skuldfæra fyrir viðskiptunum. Viðskiptunum fylgir kvittun sem segir til um nákvæma fjárhæð og uppgjörsdag en kvittanir má finna undir rafrænum skjölum í netbanka og appi.

Kostnaður og lágmarksfjárhæðir

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir gildandi viðskiptaþóknanir og lágmarksfjárhæðir hjá Landsbankanum.*

  Þóknun Lágmarksþóknun Lágmarkskaup
Innlend hlutabréf, sjálfsafgreiðsla í netbanka 0,75% 1.950 kr. 100.000 kr.
Innlend hlutabréf, þjónusta 1% 3.500 kr. 100.000 kr.
Norræn hlutabréf (DK/SE/NO/FI) 1% 400 DKK / 550 SEK /
550 NOK / 55 EUR
7.500 DKK / 10.000 SEK /
10.000 NOK / 1.000 EUR
Erlend hlutabréf (UK) 1,50% 60 GBP + stimpilgjöld 1.500 GBP
Erlend hlutabréf (FR/NL/DE/CH) 1% 70 EUR / 75 CHF 1.500 EUR / 2000 CHF
Erlend hlutabréf (USA) 1% 80 USD 2.000 USD


*Athugið að lágmarkskaup í sjóðum Landsbréfa eru aðeins 5.000 kr. og að þar eru einnig lægri þóknanir.

Þú gætir einnig haft áhuga á
15. sept. 2021
Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?
Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
15. sept. 2021
Fara markaðir bara upp?
Landsbankinn hélt fræðslufund um mikilvægi eignadreifingar þann 15. september 2021 í Silfurbergi Hörpu.
Verðbréf í appi
4. jan. 2024
Þetta er gott að vita áður en þú kaupir í sjóði
Fjárfesting í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er vinsæl leið til að ávaxta sparifé. Ef þú ert að velta fyrir þér að setja sparnaðinn þinn, eða hluta af honum, í sjóð er gott að þekkja nokkur lykilhugtök.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur