Fjár­fest­um í fram­tíð­inni – fjar­fund­ur 4. júní 2021

Landsbankinn hélt vel heppnaðan fjarfund um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar föstudaginn 4. júní 2021 undir yfirskriftinni Fjárfestum í framtíðinni.
Fjárfestum í framtíðinni
7. júní 2021 - Landsbankinn

Á fundinum var fjallað um ábyrgar fjárfestingar og nýr sjóður Landsbréfa, Eignadreifing sjálfbær, var meðal annars kynntur til sögunnar.

Sveinn Þórarinsson sérfræðingur hjá markaðsviðskiptum Landsbankans, stýrði fundinum. Hann benti meðal annars á að fyrirtæki og fjármálastofnanir hefðu í auknum mæli mótað sér umgjörð um sjálfbærni þar sem markmiðið væri að stýra fjármagni í átt að sjálfbærum verkefnum. Dæmi um slíka þróun væri sá mikli vöxtur sem hefði verið í útgáfu grænna skuldabréfa.

Betri upplýsingar, betri ákvarðanir

Í erindi sínu ræddi Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Eignastýringar og miðlunar hjá Landsbankanum, m.a. um að rannsóknir virtra háskóla sýndu fram á jákvæða fylgni á milli frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærni annars vegar og arðsemi hins vegar. Hún benti á að samstarf skipti miklu máli varðandi vegferð sjálfbærra fjármála.  „Með öflugum samtökum sem hafa stutt við þessa vegferð hefur samstarfið gengið vel. Það eru þrjú félög sem marka tímamót í þessum efnum, Festa, IcelandSIF og Reitun“ sagði Hrefna.

Hrefna fór yfir helstu áfanga í stefnumörkun og innleiðingu sjálfbærni hjá Landsbankanum og mikilvægi þess að  sjálfbærni sé hluti af kjarnastarfsemi bankans.  „Landsbankinn setti sér stefnu í ábyrgum fjárfestingum árið 2013 og var með þeim fyrstu til að setja slíka stefnu á oddinn hérna heima og gera hana opinbera. Við höfum síðan þá verið í vegferð að innleiða stefnuna. Aðferðafræðin byggir á samstarfi, en ekki útilokun.  Við trúum því að við höfum meiri áhrif með fyrirbyggjandi aðgerðum og samtali,“ sagði Hrefna.

Hrefna fór einnig yfir aðferðarfræði ábyrgra fjárfestinga. Horft væri á hefðbundna þætti eins og arðsemi, veltu og vöxt. Áður en ákvörðun um fjárfestingu væri tekin væri að auki aflað upplýsinga um hvernig unnið væri að umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum, svokölluðum UFS-þáttum. Reynt væri að stuðla að framþróun í þessum efnum hjá viðkomandi félagi eða fyrirtæki með spurningum og hvatningu. Aðgengilegar leiðbeiningar Kauphallarinnar um UFS-þætti væru mikilvægar í þessum efnum.

Hrefna ræddi einnig um að auðvitað væri best að byrja á sjálfum sér og að Landsbankinn ætli að vera til fyrirmyndar í sjálfbærnimálum til að geta gert kröfur á aðra. Hún sagði frá góðum árangri Landsbankans en í nýju UFS- áhættumati frá alþjóðlega greiningarfyrirtækinu Sustainalytics var bankinn í 1. sæti af 423 bönkum sem Sustainalytics hefur mælt í Evrópu.

UFS áhættumöt fyrir innlendan markað

Hrafnhildur Ólafsdóttir, verkefnastjóri og UFS-greinandi hjá Reitun, fjallaði um hvað felst í UFS-áhættumati, notkun þess og mikilvægi. Hún fór yfir hvernig starfsemi Reitunnar er háttað og þá aðferðafræði og verklag sem Reitun beitir við slíkar greiningar.  Hún sagði að vægi samfélagsábyrgðar hefði aukist ótrúlega hratt í fjárfestingaheiminum. „Krafan um að gera vel í þessum málum er sífellt að aukast bæði frá almenningi og regluverkinu en það er að verða stífari í þessum málum um allan heim. Fyrirtækin sæta auknum kröfum um gagnsæi og að upplýsa um stöðu í sjálfbærnimálum hjá sér. Einnig er aukin krafa á fjárfesta og lánveitendur að taka meira tillit til þessara þátta,“ sagði Hrafnhildur.

Hrafnhildur benti einnig á að UFS-áhættumöt væru orðin jafn mikilvæg við fjárfestingar og lánaákvarðanir og verðmöt og lánshæfismöt hafa verið hingað til. Einnig fór hún yfir þann ávinning sem fellst í því að hafa sérhæfðan UFS-matsaðila á innlendum markaði.

Sjálfbærni í sjóðum Landsbréfa

Helgi Þór Arason, framkvæmdastjóri Landsbréfa, fjallaði í sínu erindi um mikilvægi sjálfbærni hjá Landsbréfum og sjóðum félagsins, vegferð Landsbréfa í þessum efnum og innleiðingu ábyrgra fjárfestinga.  Hann ræddi um mikilvægi sjálfbærnimála og hvernig Landsbréf eru að innleiða sjálfbærni í tvo nýja sjóði.

Helgi talaði jafnframt um að aukin vitund væri meðal margra fyrirtækja sem sæju tækifæri í því að gera vel í sjálfbærni. Ein birtingarmynd þessarar þróunar væri að flæði peninga hefði breyst og mikil eftirspurn væri nú eftir sjálfbærum fjárfestingakostum. Fjárfestar gerðu sífellt meiri kröfur til útgefenda verðbréfa og það komi m.a. fram í viðhorfsbreytingu til sjálfbærnimála hjá lífeyrissjóðum.

Hann benti einnig á að ávöxtun vara og fyrirtækja sem hefðu sett sjálfbærni á oddinn hefði verið mjög góð. Sú mýta að fjárfestar þyrftu að gefa eftir mögulega ávöxtun til að stuðla að betra samfélagi væri algerlega úreld. Helgi fjallaði um rannsókn sem var gerð á heimsvísitölu MSCI sem sýnir að fyrirtæki með hærri UFS-einkunn skila betri ávöxtun en önnur. Þessi munur væri ein af þeim vísbendingum sem styrki okkur í trúnni um að mælingar á sjálfbærni fyrirtækja væru mjög mikilvægar og að vægi sjálfbærni í eignasöfnum myndi fá enn meira vægi til framtíðar.

Helgi fjallaði um að Landsbréf noti sjálfbærnigreiningar í öllum sjóðum við val á fjárfestingum en í  tveimur nýjum sjóðum Landsbréfa væri gengið lengra en áður þegar litið er til sjálfbærni. Landsbréfum þætti mikilvægt að geta boðið fjárfestum upp á leiðir til að taka beinan þátt í því að efla vægi sjálfbærra fjárfestinga og munu halda áfram að kynna vörur sem hafa sjálfbærni að leiðarljósi.

Þú gætir einnig haft áhuga á
2. júní 2021
Nýr fjárfestingarsjóður með sjálfbærni að leiðarljósi
Eignadreifing sjálfbær er nýr fjárfestingarsjóður Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans. Markmið sjóðsins er að ná fram ávöxtun og dreifingu áhættu með sjálfbærni að leiðarljósi.
31. maí 2021
Fjárfestum í framtíðinni
Fjárfestar hafa í auknum mæli tileinkað sér aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Ekki að ástæðulausu, þar sem rannsóknir sýna fylgni milli góðs árangurs fyrirtækja í sjálfbærnimálum og arðsemi í rekstri til lengri tíma.
Vindmyllur í Búrfellslundi.
2. mars 2021
Græn fjármögnun er allra hagur
Hjá Landsbankanum hefur um árabil verið lögð áhersla á sjálfbærni. Undanfarið hafa stór skref verið tekin í grænni fjármögnun bankans og starfsemi síðasta árs hefur fengið alþjóðlega vottun á kolefnisjöfnun.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur