Úthlutanir úr Menningarnæturpotti Landsbankans
Alls fengu 23 spennandi verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans í ár. Veittir voru styrkir á bilinu 100 - 400 þúsund kr. til einstaklinga og hópa, samtals fjórar milljónir króna. Starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar valdi styrkþegana úr hópi 70 umsókna.
Alls sóttu 70 um styrk í pottinn að þessu sinni og valdi starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar 23 styrkþega og verður hægt að sjá afrakstur þeirra á Menningarnótt 24. ágúst nk. Landsbankinn mun til viðbótar við styrkina standa fyrir árvissri dagskrá í útibúi sínu í Austurstræti á Menningarnótt.
Styrkþegar Menningarnæturpotts Landsbankans 2019
Styrkupphæð: 400.000 kr.
- Sólveig ÓlafsdóttirLeiðin milli leiða - ljóð og sögur í Hólavallagarði
Um er að ræða tveggja tíma ljóða- og sögugöngu um Hólavallagarð, gamla kirkjugarðinn við Suðurgötuna. Leiðsögumenn eru Heimir Björn Janusarson umsjónarmaður Hólavallagarðs og Sólveig Ólafdóttir sagnfræðingur. Einnig koma fram ljóðskáldin Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, Pétur Gunnarsson, Sjón, Elísabet Jökulsdóttir og fleiri sem öll hafa ort ljóð um Hólavallagarð.
Styrkupphæð: 300.000 kr.
- Lúðrasveitin SvanurLúðrasveitir berjast
Þrjár stærstu lúðrasveitir borgarinnar mætast með sitt besta lið og berjast þar til yfir lýkur. Baráttan fer fram með lúðrum og slagverki. Sú sveit sigrar sem hæst hefur og spilar best. Sigurvegarinn er krýndur og gestir leystir út með grillveislu þar sem sigursveitin eru heiðursgestir en hinir spila undir í veislunni þeim til heiðurs.
- Hringleikur sirkuslistafélagSirkustorg og sýning Æskusirkusins
Sirkussýning og smiðjur, opið gestum og gangandi til að prófa sirkuslistir.
- Hits & TitsTjúttað við taflið - Karaokepartý
Hits & Tits standa fyrir hinu klassíska útikaraoke á Menningarnótt þar sem stuð og gleði ráða ríkjum í berlínsku karaokepartýi um hábjartan dag.
Styrkupphæð 200.000 kr.
- Kristín Edda GylfadóttirSjúkrahústrúðarnir
Kristín Edda Gylfadóttir er faglærður ljósmyndari sem hefur verið að taka myndir af Sjúkrahústrúðunum sem mæta vikulega á Barnaspítala Hringsins og heilsa þar upp á börnin. Kristín mun halda ljósmyndasýningu á Menningarnótt. Trúðarnir munu koma og skemmta börnum og aðstandendum.
- Benóný ÆgissonTónleikar í Leynigarðinum
Tónleikar í garði að Skólavörðustíg 4c fyrir börn. Garðurinn er gróinn og töfrandi og dagskráin sett upp með fernum stuttum atriðum. Tvö atriðanna eru sérstaklega sett saman fyrir krakka og hin tvö eru mjög aðgengileg.
- Brynja PétursdóttirDans Brynju Péturs: Street dans Carnival
Kraftmikil danssýning með hópi hæfileikaríkra street dansara á öllum aldri. Fjölbreytt sýning með ólíkum dansstílum, mikilli orku og smitandi stemningu.
- FAR Fest Afríka Reykjavík /Afrika LoleFAR Fest Afríka Reykjavík
Haldnir verða tónleikar í Lucky Records þar sem afrískt, norrænt og íslenskt tónlistarfólk tekur höndum saman og flytur frumsamda afríska tónlist og tónlist með afrísku ívafi fyrir gesti og gangandi.
- Sigurþór HallbjörnssonRokk og ról og mótorhjól á Granda
Hressandi Rokk og ról tónleikar og mótorhjólasýning á Grandanum.
Styrkupphæð 150.000 kr.
- Þrjú skáldLjóðaþjónusta - Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Fríða Ísberg og Kött Grá Pje
Úti á götu verða þrjú borð, við hvert borð situr skáld með ritvél og autt sæti gegnt því. Vegfarendur setjast niður, skáld býður vegfarandanum að velja sér efnistök fyrir ljóðið og skrifar það síðan á staðnum. Þessi þjónusta yrði í boði í þrjá klukkutíma.
- Tara Njála Ingvarsdóttir og Silfrún Una GuðlaugsdóttirÞað Rignir
Á Menningarnótt verður gjörningakvöldið „Það Rignir” í Vatnshelda galleríinu. Öll verkin eru vatnsheld og verður regnvél í galleríinu sem framkallar rigningu á meðan á gjörningakvöldinu stendur. Mismunandi rigning verður fyrir hvern gjörning í samráði við hvern listamann fyrir sig.
Styrkupphæð 100.000 kr.
- Tanja Levý og Valdís SteinarsdóttirBrauðtertan lifir - samkeppni
Efnt verður til brauðtertukeppni. Dæmt verður um útlit brauðtertunnar í þremur flokkum; Fallegasta, frumlegasta og fyndnasta. Verðlaun verða veitt fyrir sigurvegara hvers flokks.
- Ingibjörg HjartardóttirKvæðakonan góða
Kvæðakonan góða er hópur 11 kvenna sem hafa verið að kveða undir stjórn dr. Ragnheiðar Ólafsdóttur söngkonu og kvæðakonu. Dagskráin samanstendur af rímnakveðskap eftir konur.
- Borgarsögusafn ReykjavíkurFljúgandi fiskar! Flugdrekasmiðja
Arite Fricke listkennari og hönnuður verður með vandaða flugdrekasmiðju fyrir fjölskyldur á Sjóminjasafninu í Reykjavík. Flugdrekarnir taka á sig líki fisks og þátttakendur verða hvattir til þess að láta hugmyndaflugið ráða för við sköpunina.
- Capoeira Mandinga á ÍslandiCapoeira á Menningarnótt
Boðið verður upp á fjölbreytta sýningu á Capoeira, sem er afró-brasilísk bardagalist með fimleikaívafi og leyfa krökkum sem æfa Capoeira að vera í forgrunni. Ennfremur verða sýndir fjórir barsilískir þjóðdansar.
- Guja SandholtStysta ópera í heimi
King Harold's Saga eftir skoska tónskáldið Judith Weir er 10 mínútna ópera í þremur þáttum. Óperan er skrifuð fyrir einn sópran sem fer með 8 mismunandi einsöngshlutverk sem og hlutverk norska hersins. Efniviðurinn er sóttur í Heimskringlu Snorra Sturlusonar og byggður á sögunni um Harald harðráða.
- Skylmingarfélagið VæringjarSverð og Riddaramennska: Kynning á sögulegum evrópskum skylmingum
Skylmingafélagið Væringjar verður með sýningarbardaga og kynningu á aðeins öðruvísi skylmingum en flestir eru vanir, nefnilega með þýskum tveggja handa sverðum og öðrum evrópskum sverðum. Þessi íþrótt er stunduð um alla Evrópu og Bandaríkin og er hún þekkt undir nafninu HEMA (e. Historical European Martial Arts), eða sögulegar evrópskar bardagalistir
- Renata PratusyteHeimsálfarnir syngja saman á Menningarnótt
Alþjóðlegum barnakór verður safnað saman á Menningarnótt og börnum skapaður skemmtilegur vettvangur til að kynnast öðrum tungumálum, tónlist og menningarháttum ásamt því að verða virk í starfinu með því að kynna sitt eigið tungumál og þjóð.
- Freyja Eilíf HelgudóttirSýningarleiðsla
Á Menningarnótt mun Ekkisens bjóða gestum og gangandi inn í sýningarleiðslu, innsetningu þar sem lifandi verk eftir þrjá mismunandi listamenn taka utan um hvern og einn gest og fylgja inn í leiðandi ástand í gegnum skúlptúrísk húsgögn, hljóðverk, gjörningaverk og lifandi listaverk í formi veitinga.
- Borgarsögusafn ReykjavíkurKarlakórinn Fóstbræður í varðskipinu Óðni
Karlakórinn Fóstbræður undir stjórn Árna Harðarsonar mun flytja kröftugan söng um borð í varðskipinu Óðni á Menningarnótt.
- Steinunn Erla ThoroddsenLifandi tónlist í portinu á Vatnsstíg 5
Hugmyndin er að opna portið fyrir almenning í fyrsta skipti í mörg ár. Þetta er frábær staður fyrir ljúfa tónleika og það komast líklegast um 50-80 manns þarna fyrir. Margir ganga niður Vatnsstíginn, sérstaklega á dögum eins og Menningarnótt og þá munu margir heyra í tónlistinni og flykkjast að.
- Kólguský áhugamannafélag, fyrir hönd þjóðlagasveitarinnar KólguGlaðlegir söngvar um dauðann
Þjóðlagahljómsveitin Kólga og Haukur Ingi Jónasson guðfræðingur bjóða upp á dagskrá undir yfirskriftinni - Glaðlegir söngvar um dauðann í Dómkirkjunni í Reykjavík á Menningarnótt. Þar verður blandað saman tónlist af efnisskrá hljómsveitarinnar um þetta viðfangsefni og heimspekilegum vangaveltum guðfræðingsins um dauðann á milli laga.