Varað við svikapóstum
Að gefnu tilefni vill Landsbankinn vara við tilraunum til fjársvika og bendir á tilkynningu frá Valitor þar sem varað er við svikapóstum sem sendir hafa verið í nafni Valitor til almennings. Efni póstanna er fölsk tilkynning um að korti viðkomandi hafi verið lokað og að til þess að opna það að nýju þurfi að gefa upp kortaupplýsingar. Fólki er eindregið ráðlagt að opna ekki póstana og smella ekki á hlekkinn né gefa upp kortaupplýsingar. Hafi fólk brugðist við slíkum póstum er brýnt að hafa samband við þjónustuver Valitor.
Á Umræðunni, efnis- og fréttaveitu Landsbankans, er ítarleg umfjöllun um netöryggismál og hvernig hægt sé að verjast tilraunum til fjársvika á netinu.