Hægt að sjá hvort tölvan hafi sýkst vegna svikapósts
Fyrir stuttu var sendur út svikapóstur í nafni lögreglunnar. Tilgangurinn var að fá fólk til að hlaða niður tölvuvírusnum Remcos-Shadesoul. Með því að leita að tilteknum skrám í tölvum er hægt að sjá hvort þær séu sýktar af vírusnum.
Vírusinn er afar varasamur en hann opnar m.a. leið fyrir tölvuþrjóta til að ná stjórn á tölvum og nálgast upplýsingar úr þeim. Honum er sérstaklega ætlað að safna gögnum um notendur netbanka á Íslandi sem nota Windows-stýrikerfi. Landsbankinn hvetur alla sem fengu umræddan svikapóst, smelltu á hlekkinn sem vísaði yfir á svikasíðuna og hlóðu þar niður skrá, að taka málið alvarlega.
Slökkva á sýktri vél og skipta um lykilorð
Ef þú opnaðir skrána sem tölvupósturinn fjallaði um er hægt að ganga úr skugga um hvort að tölvan sé sýkt með því að leita að eftirfarandi skrám:
- Windows 93.exe
- PrivatacyCleanzer.vbs
- UniMP Softwares.vbs
Finnir þú þessar skrár á vélinni þinni bendum við þér á að slökkva á tölvunni og hafa samband við viðurkenndan þjónustuaðila áður en þú kveikir á henni aftur.
Í kjölfarið er ráðlagt að breyta um lykilorð í netbankann á ósýktri vél eða í appi Landsbankans.
Ef þú telur þig ekki hafa næga þekkingu til að leita að umræddum skrám, hvetjum við þig til að hafa samband við viðurkenndan þjónustuaðila.
Nánari upplýsingar um skrárnar
Full slóð og heiti á skrám eru eftirfarandi:
- %userprofile%\AppData\Local\Temp\Windows 93.exe
- %userprofile%\AppData\Roaming\Microsoft\Windows\Start Menu\Programs\Startup\PrivatacyCleanzer.vbs
- %userprofile%\AppData\Roaming\Microsoft\Windows\Start Menu\Programs\Startup\UniMP Softwares.vbs
Frétt á vef lögreglunnar um svikapóstana
Við mælum með að allir noti vírusvörn en bendum jafnframt á að engin vírusvörn veitir fullkomið öryggi. Nánari upplýsingar um vírusvarnir má m.a. nálgast á vef Landsbankans.









