Líf og fjör á fjölskylduskemmtun á Goslokahátíðinni
Fjör og gleði ríkti á fjölskylduskemtun sem Landsbankinn í Vestmannaeyjum stóð fyrir á Goslokahátíðinni í Eyjum á laugardag. Á torginu fyrir framan útibú bankans við Bárustíg iðaði allt af lífi. Þar skoppuðu krakkar um í hoppukastölum og spreyttu sig í Skólahreysti í hreystibraut sem var sett upp sérstaklega vegna hátíðarinnar. Tríó Þóris Ólafssonar lék fyrir gesti og gangandi, þ.á m Sprota sem lék við hvern sinn fingur. Starfsfólk Landsbankans með aðstoð leikmanna ÍBV buðu upp á grillaðar pylsur og fleira góðgæti.
Goslokahátíðin er skipulögð af Vestmannaeyjabæ með stuðningi og þátttöku fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka í Vestmannaeyjum. Dagskrá hátíðarinnar var mjög fjölbreytt og metnaðarfull en hún er haldin til að minnast goslokanna 3. júlí árið 1973.